Átta umhverfisvæn skref

Munum að endurvinna.

Góðu fréttirnar eru þær að það er oftast hagkvæmara að vera umhverfisvænn heldur en ekki. Þú getur sparað töluverðar fjárhæðir með því að sóa minna, endurvinna og taka aðrar meðvitaðar ákvarðanir. Svo verður samviskan að sjálfsögðu miklu hreinni.

8 leiðir til að vera umhverfisvænni á hagkvæman hátt:

1. Samferða í vinnuna
Ekki einungis sparar það bensín að deila bíl með vinnufélögum, heldur fækkar það bílum á veginum, sem þýðir minni mengun,  og ferðalagið í vinnuna verður líflegra.

2. Fjölnotapokar í búðinni og maíspokar í ruslið
Þetta er strax stórt skref og flott grænt framlag. Geymdu fjölnota poka í bílnum svo að þú gleymir þeim ekki og notaðu poka sem brotnar niður auðveldlega fyrir rusl.

Þetta er ekki tæmandi listi og að sjálfsögðu eru margar fleiri leiðir til að vera umhverfisvænni! Eins og til dæmis með því að vera meðvitaðri neytandi.

3. Moltutunna
Hentu lífrænu rusli (matarafgöngum) í moltutunnu. Leyfarnar brotna á endanum niður í næringarríka mold fyrir matjurtir og aðra ræktun. Þetta er hægt að gera á svölum eða í görðum á mjög einfaldan hátt. Að vera með moltutunnu minnkar rusl til muna og er skemmtilegt verkefni þegar það er komið í gang.

4. Styttri sturtur
Flestir elska að fara í langa, heita sturtu, en fimm mínútur eru í raun allt sem við þurfum. Íslendingar trúa því margir hverjir að allir þurfi að spara vatn, neeema við. En að spara vatn er að spara vatn. Að skera svo lítið sem eina mínútu af tímanum í sturtu getur sparað um það bil 4000 lítra af vatni á ári!! Það er ekki einungis gott fyrir plánetuna heldur líka fyrir budduna.

5.  Ljósin slökkt 
Þetta er eitt af því sem mörgum Íslendingum finnst erfitt að venja sig á að gera. Vissulega kostar rafmagnið okkur ekki mikið en perurnar springa mun fyrr ef ljósin eru látin loga og það er ekkert umhverfisvænt við þær! Svo að sjálfsögðu er um að gera að nota perur sem endast lengur eins og sparperur og CLF perur.

6. Endurvinnsla á flöskum og krukkum
Við óskum þess að sem flestir flokki sem mest en það er auðveldast að byrja á þessu. Ef þú ert ekki þegar að þessu farðu þá með flöskur í endurvinnsluna, gefðu íþróttafélagi eða nýttu á annan hátt. Margir Íslendingar hafa gert þetta áratugum saman og er þetta einstaklega fallegur ávani. Safnaðu saman flöskum í poka (eða tunnu með loki) á skipulagðan hátt svo að þetta sé sem minnst fyrir þér. Svo er auðvitað að endurvinna krukkur, taka af þeim miðann og nota þær sem geymslu fyrir fræ, morgunmat, poppbaunir eða föndra eitthvað sniðugt úr þeim og gefa í gjafir.

7. Meira grænmeti
Mataræði sem inniheldur mikið kjöt mengar meira en þig grunar og á margvíslegan hátt. Að bæta meira grænmeti í mataræðið og minnka kjötát gerir góða hluti fyrir umhverfið og heilsuna. Þú þarft ekki að gerast grænmetisæta frekar en þú vilt en þú getur byrjað á því að breyta til smátt og smátt með því að minnka dýraprótein og bæta við próteinríkum plöntuafurðum eins og baunum. Svo er líka ráð að minnka matarsóun.

8. Hreinni hreinsivörur
Margir hafa ofnæmi fyrir hreinsivörum sem notaðar eru á heimilinu, jafnvel án þess að vita af því! Þær hafa líka skaðleg áhrif á umhverfið enda fara flestar þeirra beint frá okkur í sjóinn. Umhverfisvænni hreinsivörur geta kostað örlítið meira, og því er ráð að jafna út kostnaðinn með því að kaupa sumar þeirra en búa aðrar til sjálf/ur

Sjá einnig Minnkum plastnotkun

Þessi grein er úr vorblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2016