Reiðhjól eða sófasett á hjólum?

Þessi grein er áróðursgrein. Hér á eftir er því blákalt haldið fram að hjólið sé fyrsta flokks farartæki sem getur á margan hátt komið í stað bíls á okkar vindasama og vota landi. Og hefur auk þess ýmsa kosti sem bílinn hefur alls ekki.

Hjólið er skemmtilegt fyrirbæri og sannarlega frábær uppfinning, svo einfalt en samt svo fullkomið. Þegar barn lærir að hjóla gerist svo margt. Það fyllist sjálfstrausti, frelsistilfinningu og gleði sem fylgir því að ná valdi á flóknu ferli. Það krefst einbeitingar, æfingar og samhæfingar sálar og líkama að læra að hjóla. Færnin fylgir manni svo í gegnum lífið og getur nýst vel.

Í Hollandi hjólar eldra fólk oft mun lengur en það getur gengið, það er mörgum eðlilegri hreyfing og þægilegri fyrir líkamann. Í dag velja æ fleiri hjólið frekar en bíl sem farartæki. Það er líka afskaplega vel til þess fallið að koma manni milli staða á skjótan og öruggan hátt. Í dag hef ég verið bíllaus í þrjú ár og það hefur veist mér auðveldara en mig grunaði. Hjólið hefur dugað og vel það. Börnin eru líka uppkomin og ég þarf ekki lengur að keyra þau hitt og þetta eins og tilheyrði og maður færði sterk rök fyrir að væri nauðsynlegt smábarnaforeldrum í nútímasamfélagi.

Yfirleitt þarf átak eða breyttar kringumstæður til að rífa sig upp úr hjólförunum; þegar við brjótum upp mynstrið og prófum nýjar leiðir. Ýmislegt verður til þess að við hugsanlega breytum til og breytingin sjálf er auðveldari en mann grunar. Það fann ég glöggt sjálf. Fólk fer oft stuttar vegalengdir í bíl án þess að hugsa og gamansaga er til af einum líkamsræktargesti sem fór fýluferð í ræktina því hann fékk ekkert bílastæði fyrir framan stöðina.

Ræddi ég í síðasta pistli um hjólförin sem stundum er erfitt að komast upp úr. En það er svo hressandi þegar það tekst. Hvar sem ber niður.

En aftur að hjólreiðum; hér koma rökin og þau eru mörg:

 • Hjólreiðar eru meðal annars heilsueflandi; styrkja hjartað, langflesta vöðva líkamans og bæta almennt líkamlegt úthald.
 •  Þær minnka streitu því hreyfingin sjálf er jú streitulosandi auk þess sem þú ert alveg laus við umferðarteppu á föstudögum svo eitthvað sé nefnt. Ef þið finnið fyrir stífleika í kroppnum eftir langan vinnudag farið þá út að hjóla.
 •  Það er ódýrt að hjóla. Þú gætir stofnað ferðasjóð fyrir aurana sem annars færu í hít bílsins; bensín, bifreiðagjöld, tryggingar og viðgerðir.
 • Hjólreiðar eru umhverfisvænar; af þeim stafar ekki hættulegur útblástur, það fer minna fyrir þeim í stæði og hjólastígar taka líka töluvert minna pláss en vegir.
 • Þær auka lífsgleðina; maður er svo frjáls og verður sjálfkrafa glaður þegar maður hjólar, það er bara þannig! Áður en þú veist af ferðu að blístra og jafnvel syngja vegfarendum hugsanlega til yndisauka. Streitan flýgur út í veður og vind.
 • Ýmsar góðar hugmyndir kvikna í öllu súrefninu sem maður andar að sér og lausnir verða til.
 • Meðvitund, áhugi og virðing okkar á umhverfinu eykst og öll skynjun verður sterkari. Hvað er yndislegra en að hjóla um Hljómskálagarðinn, Grafarvoginn eða Hvammstangabrautina á vordegi og upplifa náttúruna á eigin skinni?
 • Finna ilminn af nýslegnu grasi, heyra glaðan fuglasöng og sjá unga dafna dag frá degi. Gæsir spígspora fyrir hjólið algerlega óhræddar, kría steypir sér yfir þig til að vernda unga sína. Maður er svo nálægt náttúrunni og upplifir veðrið og breytingar þess sterkt.
 • Tilfinningin þegar rigningin eða snjófjúkið lemur andlitið þegar þú berst áfram í rokinu er engri lík;  hugsanlega síður aðlaðandi fyrir einhverja, ég segi það ekki.
 • Þú ferð að þola kulda betur en áður og gott ef kvefið sem alltaf kemur reglulega sleppir ekki úr heimsókn.
 •  Fljótlegt er að komast á milli staða, útréttingar verða leikur einn.

Veðráttan hefur farið batnandi hér á landi svo æ fleiri daga á ári hefur verið hægt að hjóla með góðu móti.Margt þarf enn að bæta varðandi umferðaröryggi hjólreiðamanna þó margt hafi áunnist á síðustu árum. Það er ekki alveg hættulaust að hjóla og vísa ég þá í umhverfið. Nauðsynlegt er að vera vel vakandi gagnvart bílum; of margir ökumenn keyra yfir á rauðu gönguljósi sem litblindir væru eða kannski eru þeir bara í símanum. Það þarf einnig að bæta hjólaleiðir, þjónustu við hjólreiðafólk og það þarf að lyfta hjólreiðamenningu Íslendinga upp á hærra plan. Þannig að fólk sjái hjólreiðar virkilega sem góðan kost eins og er víða um heim. Vinnustaðir eru reyndar margir að taka við sér hér á landi og sums staðar er til dæmis hægt að sækja um hjólastyrki í stað bílastyrks.

Sala á bílum dróst saman um alla Evrópu eftir efnahagshrunið en eitthvað er brúnin farin að lyftast á bílasölum í dag. Hafði sala á bílum reyndar verið að dragast saman löngu fyrir hrun á meginlandinu. Vissulega hefur verð á bensíni og kreppan haft þar áhrif en einnig er fólki æ meira umhugað um umhverfið og náttúruna. Bíll er heldur ekki lengur það stöðutákn sem hann var. Önnur gildi skipta meira máli. Ef fólk þarf nauðsynlega á bíl að halda er líka hægt að leigja hann tímabundið. Hér á landi er líka hægt að leigja tiltölulega ódýra, ágæta bíla til ferðalaga og stöku sinnum hef ég nýtt mér það.

Á ákveðnum tímabilum lífsins getur verið erfitt að vera bíllaus til dæmis þegar börnin eru lítil eða þegar maður af einhverjum ástæðum getur alls ekki verið án bíls vegna veikinda eða fötlunar. Mörg þekkjum við ferðir með börnin í tónlistarskóla og í alls konar tómstundir eftir skóla. En þá er kannski spurningin að skapa sér landfræðilega umgjörð í lífinu sem er viðráðanleg.

Ég var bíllaus eitt ár í miðbænum þegar yngstu börnin mín voru 2ja og 4ra ára gömul. Þá gengum við í leikskólann í hvaða veðri sem var eða ég hjólaði með þau í aftanívagni sem þeim fannst mjög spennandi. Við gengum í búðir á heimleiðinni og drógum jólatréð heim á sleða fyrir ein jólin frá Gróðrarstöðinni Alaska við Miklubraut. Það tók okkur langan tíma en við vorum heldur ekkert að flýta okkur.Hver gönguferð og hjólaferð var ævintýri og í minningunni finnst mér við alltaf hafa verið úti. Þetta voru gæðastundir sem bæði ég og börnin hefðum ekki viljað missa af.

Eins og með svo margt annað í lífinu er þetta spurning um afstöðu og val; við eigum alltaf val. Næst þegar þið horfið út um bílgluggann pikkstopp í umferðarteppunni, menguninni og stressinu og einhver toppar leiðindin með því að flauta á ykkur, íhugið þá hvort þið vilduð kannski nota tímann í eitthvað annað.

Og það er gott að vera úti. Það er gott að hreyfa sig, upplifa umhverfið á eigin skinni en ekki sitjandi í bíl; sófasetti á hjólum eins og Þórarinn Eldjárn orðar það svo skemmtilega í einu ljóða sinna. Það er líka skemmtilega hagkvæmt á allan hátt.

Svo ég hvet ykkur til að kasta ökuhönskunum og festa á ykkur hjálmana.

Hjólið varlega og góða ferð!

Tögg úr greininni
, ,