Vatnsfasta
Það er aldrei of seint að læra, fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Ég prófaði t.d. í fyrsta sinn að fara á þriggja daga vatnsföstu í lok síðasta árs, sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. Ég mátti til með að deila þessari reynslu með lesendum mínum enda varð ég alveg agndofa yfir heilunarmætti vatnsins. Þá fær húðin, stærsta líffærið okkar, einnig sitt pláss. En mín húðrútína hefur verið einföld í gegnum tíðina, ég er svona eins krems kona. En ég fékk alveg nýja sýn á húðumhirðu eftir viðtalið við Láru G. Sigurðardóttur lækni og mun örugglega bæta einhverju við þetta eina krem mitt í framhaldinu. Sérstaklega þótti mér nálgun Guðfinnu Mjallar áhugaverð sem notar húðumhirðuna sem athöfn til að hlúa að sjálfri sér. Svo toppar auðvitað ekkert gömlu myndirnar sem sýna að hégómi er ekkert nýtt fyrirbæri. Við sem héldum að Photoshop hefði breytt öllu!