TEXTI Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir MYNDIR Jón Árnason
Elisabeth Jóhanna Zitterbart á Ytri-Bægisá II í Hörgárdal á sér mörg áhugamál en meðal hennar uppáhaldsiðju sl. tólf ár er sápugerð. Hún hefur lagt mikið upp úr því að nota hráefni úr sínu nærumhverfi, hvort sem það er úr náttúrunni eða af býlinu sjálfu.
Sápa frá grunni
„Ég hef brennandi áhuga á að gera hlutina alveg frá grunni; alveg sama hvort það er sápa eða matvæli – það er mín ástríða,“ segir Elisabeth en hún er mjög hugmyndarík þegar kemur að sápugerð. Hún forðast að leita langt yfir skammt þegar kemur að hráefnum í sápuna og kýs að nota frekar það sem er við höndina, svo sem mör af býlinu og blóm og jurtir sem hún tínir í nágrenninu, t.d. fífla, valhumal, smára og blóðberg. „Fjölbreytnin varðand bæði útlit og innihaldsefni í sápugerð er gífurleg, en hver og einn þarf að finna fyrir sig hvaða leiðir og hráefni henta best í sápugerðinni,“ útskýrir Elisabeth.
Að búa til sápu er ekki hættulaust því að í þær er notaður vítissódi, sem getur verið mjög skaðlegur öndunarfærum, hörundi og augum
Vítissódinn nauðsynlegur
„Sápugerð getur verið flókin til að byrja með en þegar maður kemst upp á lagið og hefur fundið jafnvægi í uppskriftinni, þá er þetta bara svolítið eins og að baka,“ segir Elisabeth. Hún bendir á að gott sé að nota þar til gerðar sápugerðar-vefsíður þar sem hægt er að sjá og mæla hversu mikið af hverju hráefni þarf í uppskriftina. „Að búa til sápu er ekki hættulaust því að í þær er notaður vítissódi, sem getur verið mjög skaðlegur öndunarfærum, hörundi og augum,“ nefnir Elisabeth. Hún mælir einnig með að fólk eigi sér sápugerðaráhöld og að sjálfsögðu góðan hlífðarfatnað til að forðast skaðleg áhrif vítissódans. „Vítissódi er efnahvati sem breytir fitunni í sjálfa sápuna. Hann er hættulegur í vinnsluferlinu en breytist og verður alveg hættulaus þegar hann er orðinn að sápu. Efnið er nauðsynlegt til að búa til sápur en í gamla daga notuðu menn kulnaða ösku í stað hans. Það er auðvitað líka hægt en í dag nota flestir vítissóda,“ segir Elisabeth sem gefur okkur hér einfalda uppskrift og góða lýsingu á ferlinu.
Sápuuppskrift fyrir byrjendur
eftir Elisabeth Jóhönnu Zitterbart.
Innihald
500 g tólg (eða önnur hörð fita)
200 g repjuolía
200 g ólívuolía
100 g sólblómaolía
Lútur:
128 g vítissódi (NaOH) leystur upp í 335 g af vatni, jurtate eða öðrum vökva.
Sápugerðarferlið
Í upphafi sápugerðarferlisins er mikilvægt að mæla öll hráefni eins nákvæmlega og hægt er til að vera viss um að ekkert fari úrskeiðis í framhaldinu. „Næst bræði ég föstu fituna og út í hana blanda ég olíunum. Þriðja skrefið er að leysa vítissódann upp í einhverjum vökva (lút). Sá vökvi getur verið hvað sem fólki dettur í hug, t.d. te eða kaffi,“ útskýrir Elisabeth.
Hún segir að þegar að sápugerðarfólk umgangist vítissóda sé gott að vera úti undir beru lofti eða undir eldhúsviftunni vegna þess að úr honum gjósi eiturgufur sem slæmt sé að anda að sér.
Töfrasprotinn einfaldar
„Næst er að hella vítissódablöndunni varlega út í fitu- og olíublönduna. Hitastigið þarf að vera mjög líkt á blöndunum þegar það er gert eða í kringum 40 gráður. Margir nota mæla til að fullvissa sig um að svo sé en ég nota húsmæðravitið. Þegar blöndunum hefur verið hellt saman þarf að hræra. Áður fyrr var hrært duglega í höndunum. Nú nota flestir töfrasprota, sem einfaldar mjög sápugerðina!“segir Elisabeth.
Handgerðar sápur eru frábær gjöf
Hrært er í sápunni þangað til hún er orðin eins og þykkur búðingur. Þá er hægt að setja ilmefni eða ilmkjarnaolíur út í eða skraut sem gerir sápuna ilmbetri og fallegri. „Ég nota stundum teblönduna mína til að gera flyksur í sápuna,“ bendir Elisabeth á. „Sápumassanum er síðan hellt í einhvers konar form og því komið fyrir á hlýjum stað og látið harðna í um sólarhring. Því næst er sápunni hvolft úr forminu og hún skorin niður. Seinasta skrefið í sápugerðinni er að leyfa henni að þorna og harðna til fulls en það tekur um þrjá mánuði. Það er mikilvægt að gefa sápunni þann tíma svo að hún verði mildari. Annars er hætta á að hún spænist upp og verði að engu á mjög skömmum tíma,“ segir Elisabeth. Ljóst er því að sápugerðarfólk þarf að vera ansi forsjált en ánægjan sem fylgir því að búa til eigin sápu frá grunni er stórkostleg að mati Elisabethar, að því ónefndu hve handgerðar sápur eru frábær gjöf fyrir alla!
Sjá einnig Hrein og umhverfisvæn sjampó
Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2015