Spáð í bolla..


Hveragerði, 21. október 2014

– TEXTI: GUÐRÚN EVA MÍNERVUDÓTTIR

Fyrsti snjórinn féll í morgun og hér á bæ var sofið til klukkan tíu, sem er sjaldgæft. Það var himnaríkislegt að vakna í skjannabirtu, draga gluggatjöldin frá og fá sólina í augun upp af hvítri jörðinni. Hvar er rigningin? spurði dóttir mín. Það er von að hún spyrji. Eins og tíðin hefur verið undanfarið mætti halda að það ætti undantekningarlaust að vera rigning. Í dag er ekki heldur nein eldfjallamóða og ekki einu sinni rok. Í útvarpinu les alvarleg kvenrödd upp dánarfregnir og jarðarfarir og allt þetta minnir mig á það að ég trúi ekki á dauðann. Hins vegar trúi ég á kaffi, hvort sem það er svart og sykurlaust eða undir hvítum mjólkurhjúpi.

Það getur verið að bollaspádómar séu deyjandi íþrótt

Þegar ég var beðin að skrifa grein um bollaspádóma sagði ég strax já og hlakkaði til að kynnast helstu bollaspákonum og -mönnum landsins. Síðan spurðist ég fyrir alls staðar þar sem mér kom það til hugar. Allir höfðu þekkt magnaða bollavéfrétt sem var nú komin yfir á annað tilverustig. Það getur því verið að bollaspádómar séu deyjandi íþrótt, eða þá að hrakfarir mínar séu eintóm tilviljun.

Ég ætlaði að gefast upp og leita á náðir tarot-kvenna, en af þeim þekki ég þó nokkrar og er sjálf í þeirra hópi þótt ég taki mig nú ekki mjög hátíðlega sem slíka. Ég hringdi í hjartfólgna tarot-frænku mína sem kom mér á óvart með því að segjast líka kunna að líta í bolla.

Nokkrum dögum síðar sit ég við eldhúsborðið hennar, sný öfugum bolla yfir höfði mér, blæs í hann og legg á miðstöðvarofninn. Við það fæ ég einkennilega tilfinningu og man óljóst eftir öllum þeim skiptum sem ég horfði upp á þær mömmu og frænku snúa bollum yfir höfði sér og leggja á ofn. Spenningurinn og hátíðleikinn lá í loftinu. Ég man að þegar ég var lítil stúlka þótti mér gott og gaman að vera innan um þetta. Búlduleit og bjöguð táknin á postulíninu hófu hversdagsleikann upp úr sér, á einhvern hátt.

Nokkrum dögum síðar sit ég við eldhúsborðið hennar, sný öfugum bolla yfir höfði mér, blæs í hann og legg á miðstöðvarofninn.

Ég fylgdist með pabba og lærði af honum,“ segir hún. „Myndirnar eru ýmist óskýrar eða augljósar, en það kemur ekki að sök þótt þær séu óskýrar. Oftast er það þannig að ég kem auga á eitthvað eitt og það kemur mér í gang. Ég fór mikið eftir myndunum hér í denn en fór smám saman að fylgja tilfinningunni meira. Síðan hætti ég að spá í bolla og fór að nota spilin. Ef maður er næmur skiptir litlu máli hvað maður notar til að koma sér í gang. Þetta er spurning um tengingu.“

Pabbi hennar er afi minn. Hann óx úr grasi í Flatey á Skjálfanda. Guðríður langamma hlýtur að hafa spáð í bolla, og fleiri sem bjuggu í þessari örlitlu eyju. Þau hljóta að hafa spáð í hversu vel fiskaðist, hvort fram undan væri þurrkur eða væta og síðan auðvitað um persónulegri málefni. Bollaspádómar eru persónuleg og innileg iðja og fjalla fyrst og fremst um málefni hjartans.

Átján ára spáði ég fyrir vinkonu og sá þrjár líkkistur og flugvél í bollanum,“ heldur frænka áfram. „Ég fann til sorgar og skelfingar og varaði hana eindregið við því að fara til útlanda. Síðan gleymdi ég þessu, enda gleymi ég alltaf því sem ég hef spáð fyrir um. Nokkrum mánuðum síðar lenti ég sjálf í því að vera í flugvél með þremur líkkistum og einn hinna látnu var mér afar náinn. Ég gleymi ekki tilfinningunni sem greip mig þegar ég sá kisturnar þrjár á flugbrautinni og það ríkti mikil sorg í vélinni.“

Var það út af þessu sem þú hættir að spá í bolla? spyr ég.

Sumarið þegar ég var tvítug var ég ráðskona á Einarsstöðum og Einar sagði við mig að þegar maður væri svona ungur væri maður svo opinn og gæti hleypt að illum öflum.

Hún hristir höfuðið: „Það var vegna þess að Einar á Einarsstöðum bað mig að hætta því. Sumarið þegar ég var tvítug var ég ráðskona á Einarsstöðum og Einar sagði við mig að þegar maður væri svona ungur væri maður svo opinn og gæti hleypt að illum öflum. Hann sagði mér að hafa engar áhyggjur því ég fengi skilaboð þegar ég mætti byrja á því aftur. Fyrst yrði ég að byggja mig upp. Byggja upp sjálfstraust og vernd. Ég bar djúpa virðingu fyrir honum og tók auðvitað mark á orðum hans. Ég kannaðist líka alveg við réttmæti þess sem hann sagði. Nokkru áður hafði ég legið á sjúkrahúsi og boðist til að kíkja í bolla fyrir aðra sjúklinga. Ég fór í tengingu og gat sagt konunum hvað þær ættu mörg börn og þar fram eftir götunum. Eftir það fékk ég engan frið og var of ung til að kunna að setja mörk. Á endanum var ég líka búin að spá fyrir öllu starfsfólkinu og var meira að segja vakin af sjúkraliða sem var á leið af vakt en vildi fyrst fá spá. Níu árum eftir að Einar bað mig að gera hlé á spádómunum fór ég á miðilsfund. Miðillinn sagðist vera með skilaboð til mín um að nú mætti ég aftur byrja að spá.“

Frásögn frænku sviptir mér aftur að endamörkum minninganna. Ég var fjögurra ára þegar ég dvaldi um tveggja vikna skeið hjá henni á Einarsstöðum. Ég varð alveg jafn hrifin af læknamiðlinum fræga og allir aðrir og er ekki frá því að hápunktur æsku minnar hafi verið þegar tvær ungar blómarósir (líklega dóttir Einars og stjúpdóttir) leiddu mig um engi og tún, tíndu með mér sóleyjar og puntstrá og leyfðu mér síðan að hringja kirkjuklukkunum! Það fer enn um mig sæluhrollur yfir að hafa fengið að toga í kaðalinn og fylla eyrun (sveitina!) af hljómi. Að dvölinni lokinni varð ég síðan vör við hvað hann var mikil stjarna. Fólk talaði um hann þótt það þekkti hann ekki neitt og hefði aldrei hitt hann. Segðu mér meira frá Einari á Einarsstöðum, bið ég.

Þegar hann var úti að slá var hann í hvíld og enginn mátti trufla hann. Það var virt. Hann vann líka svo mikið – það var svo mikil ásókn í hann. Stundum kom fínt fólk akandi og frúr á hælaskóm klöngruðust jafnvel ofan í skurði og ösluðu óslegin tún bara til að sjá hann. Þá hafði hann hjálpað þeim með fjarheilun. Eitt sinn barst neyðarkall, það var hringt út af barni sem var að deyja á spítala í Reykjavík. Drengur var beðinn um að hlaupa með miða út á tún til Einars en hann hljóp svo hratt að hann náði ekki andanum og kom ekki upp orði. Þá sagði Einar: Hvað er þetta, maður? Það mætti halda að þú ættir þetta barn sjálfur. Hann var sem sagt búinn að fá boðin og byrjaður að senda. Læknarnir á Akureyri vissu margir hverjir hver hann var og ef einhverjum sjúklinganna batnaði skyndilega spurðu þeir kannski hvort hringt hefði verið í Einar?

Stundum kom fólk í heimsókn þegar það hentaði alls ekki, Einar var þá kannski að lækna eða hvíla sig. Það gerðist nokkrum sinnum á meðan ég bjó þarna að fólk sofnaði í bílnum sínum á hlaðinu, svaf kannski í klukkutíma áður en það barði að dyrum og sagðist ekki vita hvað hefði eiginlega komið yfir sig.

Einar var alltaf hlýr og nærgætinn en samt svo glettinn. Hann talaði lítið um spádómsgáfu sína og þess vegna kunni ég ekki við að spyrja hann út í þau málefni. En eitt sinn gat ég ekki stillt mig um að spyrja bróður hans hvernig Einar færi að því að vita allt um mig. Hann sagðist skyldu spyrja hann fyrir mig og gerði það. Sagði mér síðan að Einar sæi mynd á hvítum vegg eins og á kvikmyndatjaldi. Hann gat setið og horft á líf mitt eins og kvikmynd.

Stundum finn ég fyrir honum og núna þegar ég tala um hann finn ég fyrir honum. Stundum er ég líka spurð af skyggnu fólki hvort ég hafi þekkt Einar á Einarsstöðum.“

Efaðistu aldrei um hæfileika hans? spyr ég.

Frænka hugsar sig um og svarar síðan: „Hafi ég þurft endanlegar sannanir fékk ég þær þegar ég ökklabrotnaði illa þetta sumar. Ég hafði enga trú á að hann gæti gert neitt við illa brotnum ökkla, þótt ég hefði annars mikla trú á honum. Brotið var svo kvalafullt að mér var óglatt af verkjum þótt ég væri á verkjalyfum. Hann var því vakinn þótt þetta væri seint um kvöld. Hann tók um fótinn á mér og eftir svolitla stund gat hann snúið honum á alla kanta og ég fann ekki lengur til. Hvað ertu að kvarta? spurði hann og þá fannst mér ég sofna en samt gat ég horft á hann ganga út úr herberginu. Daginn eftir deyfði hann mig með handayfirlagningu áður en mér var ekið á spítalann, en ég þurfti í aðgerð og fékk skrúfu og allt.

Hann neitaði alltaf að taka við greiðslu. Honum var víst uppálagt að handan að taka ekki fyrir þetta. Ég veit ekki hvers vegna því hann hafði svo mikið að gera við að lækna og fór margar ferðir milli landshluta í þeim erindagjörðum.“

Ég kinka kolli og minnist þess hvað allir á Einarsstöðum voru góðir mér, fjögurra ára frænku ráðskonunnar. Kettir máttu ekki koma inn í bæ en þegar ég var í heimsókn var gerð undantekning. Ég gat ekki sofnað vegna þess að ég var svo spennt, það var svo gaman þarna, og þá voru tveir kettlingar sóttir út í hesthús og settir á sængina hjá mér. Þeir möluðu og möluðu og mér var sagt að þeir væru að syngja mig í svefn. Við þegjum. Regnið bylur á glugganum. Frænka skenkir mér meira kaffi og ég fæ mér þurrkaða fíkju úr skál á borðinu. Ég man allt í einu að viðtalið á að fjalla um bollaspádóma en ekki læknamiðilinn þjóðþekkta, Einar á Einarsstöðum. Hvað varð til þess að þú byrjaðir að spá í bolla? spyr ég.

Ég fór mikið eftir myndunum hér í denn en fór smám saman að fylgja tilfinningunni meira.

Ég hef alltaf verið næm,“ svarar hún. „og gat ekki alltaf útskýrt það sem gerðist. Í fermingarveislunni minni vissi ég, án þess að vita hvernig, að einn gestanna var feigur og hann lést nokkrum dögum síðar. Eitt sinn, þegar ég var barn, fann ég á mér að það var eldur í lokuðu herbergi, æddi þangað inn og byrjaði að öskra. Mamma þráspurði hvaða erindi ég hefði átt þangað inn en því gat ég ekki svarað. Einu sinni var ég úti að leika mér þegar ég stóð allt í einu upp og sagðist þurfa að drífa mig heim. Ég vissi ekki sjálf hvers vegna en þegar ég kom heim var mamma að missa fóstur. Það blæddi og blæddi og ég þurfti að hringja á sjúkrabíl. Svo var ég vön að sjá pabba hvolfa og stundum lásum við saman í myndirnar. Í fyrsta sinn sem ég leit í bolla fyrir aðra manneskju var ég sextán eða sautján ára í heimsókn hjá vinkonu. Við vorum bæði með bolla og spil. Hún var ástfangin af ungum manni og ég sá einhverja sorg í kringum það. Ég sagði við hana: Einhver sem þú þekkir stingur undan þér. Við fórum inn í herbergið hennar þar sem ég rak augun í ljósmynd og spurði: Hver er þetta? Hún svaraði að þetta væri vinkona sín. Ég sagði: Þetta er sú sem svíkur þig. Hún þvertók fyrir það og sagði að það myndi vinkonan aldrei gera en því miður gerðist þetta svona eins og ég sagði. Ég gat ekki útskýrt hvers vegna ég sá þetta fyrir en þetta er bara eitt dæmi af mörgum. Ég sé myndir, oft táknrænar og stundum get ég ráðið í táknin en ekki alltaf. Eitt sinn þegar ég var að heila ólétta konu sá ég hana og unnustann ganga fram og til baka með barnavagn í stórborg. Okkur þótti þetta báðum mjög undarleg sýn. En barnið fæddist með hjartagalla og þau þurftu að fara með það nýfætt til London. Sýnin rættist nákvæmlega.

það borgar sig hreint ekki að segja öllum að maður kunni að spá.

Ég hætti fljótlega í heiluninni vegna þess að ég sá svo mikið þegar ég lokaði augunum en gat oft ekki ráðið í myndirnar svo að ég varð efins um gáfurnar og hætti. Svo varð líka sumt fólk reitt ef maður sagði ekki bara allt sem það vildi heyra. Og það borgar sig hreint ekki að segja öllum að maður kunni að spá.

Hvers vegna ekki? spyr ég.

Fyrir því eru margar ástæður,“ svarar hún og grípur bollann af miðstöðvarofninum. Hjartsláttur minn eykst þegar hún tekur til við að velta honum sitt á hvað og rýna í blettina. „Það er gott að þú sért byrjuð að jarðtengja þig svona vel, það mun breyta miklu fyrir þig.“ Ég kinka kolli. Ég er einmitt nýfarin að gera sérstakar ráðstafanir til að vera jarðbundnari. „Það er og verður áfram talsverður erill í kringum þig,“ heldur hún áfram. „Þú ert umkringd fólki sem hugsar mikið. Sjáðu hvað það er mikið fyrir ofan höfuð þeirra.“ Hún sýnir mér ofan í bollann. „En heimilið verður áfram þinn griðastaður. Þar er ljós og friður.“ Hún sýnir mér aftur ofan í bollann og bendir á eitthvað sem lítur út eins og stór ljóspollur. Þetta hljómar ágætlega og ég halla mér aftur í stólnum á meðan ég hlusta á spádóminn til enda.    


Greinin birtist fyrst í vetrarblaði Í boði náttúrunnar 2015 – Kaupa hér

Tögg úr greininni
, , , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.