Það er vissulega sáraeinfalt að hella upp á te og mismunandi hvað hver telur fullkomið. En þegar kemur að hinum fullkomna tebolla þá eru það smáatriðin sem skipta máli. Markmiðið er að ná því allra besta úr telaufunum, óvenjulegum eiginleikum, ilm og bragði. Svo er að taka sér góðan tíma og njóta.
Tedrykkja hefur verið manninum hugleikin í þúsundir ára. Te var lækningadrykkur í fyrstu en svo fór almenningur að neyta þess í auknum mæli sér til heilsubótar og hressingar. Te inniheldur mikið af andoxunarefnum og vítamínum sem skýrir jákvæð heilsubótaráhrif þess á líkamann. Kaffimenning hér á landi hefur tekið risastökk síðasta áratuginn en það má segja að te hafi orðið dálítið út undan í þessari þróun.
Gott er að hafa þessi atriði í huga við uppáhellingu og gefa sér svo tíma og rými til þess að njóta testundarinnar:
1. MAGN. Almennt er talað um 2 g í 200 ml bolla en góð þumalputtaregla er ein góð teskeið fyrir einn bolla af tei. Ef telaufin eru hins vegar mjög gróf, þarf meira magn.
2. HITI. Flest te bragðast best ef notað er u.þ.b. 80°C heitt vatn í tegerðina. Ef vatnið er of heitt getur teið orðið rammt og biturt því laufin leysa þá út meira tannín. Ef hitastigið er hins vegar of lágt getur bragðið orðið flatt og leiðinlegt. Það er því ekki ráðlagt að hella nýsoðnu vatni bent yfir telaufin heldur sýna smá þolinmæði og láta það standa í um mínútu áður en telaufin eru sett út í.
3. TÍMI. Mælt er með því að tímanum sem gefinn er upp á teumbúðunum sé fylgt en svo er um að gera að prófa sig áfram, bragða á teinu eftir tvær mínútur og svo aftur eftir mínútu til viðbótar o.s.frv. Grænt te er hvað viðkvæmast og verður fljótt biturt ef það er látið standa of lengi.
Finndu þá blöndu sem hentar þér og mundu að hágæða telauf er hægt að nota oftar en einu sinni!