TEXTI Bergdís Sigurðardóttir
Það er minna mál en flestir halda að búa til góða sósu út á salatið. Einfaldasta salatdressingin og jafnframt sú vinsælasta er hin klassíska franska „vinegrette“, sem samanstendur af ólívuolíu, vínediki, góðu Dijon-sinnepi, skalottulauk, salt og pipar í mismunandi hlutföllum eftir smekk. Ef þú kannt að gera vinegrette þá ertu komin með góðan grunn og getur í framhaldinu prófað þig áfram með ólík hlutföll og ný bragðefni. Það þarf auðvitað ekki að taka fram að gæði og hreinleiki hráefnisins skiptir öllu máli þegar gera skal góða dressingu.
VINEGRETTE – grunnur
2 msk vínedik (hvítt, rautt eða sherry – balsamic er of sætt)
¼ tsk salt
1 tsk Dijon-sinnep
2 msk fínt skorinn skalottulaukur (venjulegur laukur eða einn hvítlauksgeiri)
1 dl ólívuolía
svartur pipar eftir smekk eða sleppa
Blandaðu saman ediki, lauk og salti og láttu standa í nokkrar mínútur í glerkrukku með loki, t.d. í gamalli sultukrukku. Bættu við sinnepi og blandaðu vel saman. Þá er að hella ólívuolíunni út í og síðast piparnum. Sinnepið bindur saman olíuna og edikið. Saltið dregur fram bragð olíunnar, edikið bragðbætir enn frekar og piparinn kemur með kraftinn. Sumir kjósa að hafa meira sinnep en hér er gefið upp en best er að smakka sig áfram. Við þennan grunn má til dæmis bæta við ferskum eða þurrkuðum kryddjurtum, sultum eða hunangi og sýrópi. Þá er um að gera að prófa sig áfram með mismunandi tegundir af sinnepi, ediki og olíu, í ólíkum hlutföllum. Flestar dressingar má geyma í nokkra daga í ísskáp en ef notaður er hvítlaukur þá má ekki geyma hann lengi.
SULTUDRESSING
Sultur af öllum mögulegum tegundum eru frábærar í dressingu og gefa þykkt og sætleika. Best er að bæta sultunni við smám saman, svo dressingin verði ekki of væmin. Jarðaberjasultudressing hentar bæði í einfalt grænt salat, sem meðlæti með lambakjöti eða kjötbollum en líka í flóknara salat, t.d. með hnetum, þurrkuðum berjum og ókrydduðum osti, sem er þá heil máltíð út af fyrir sig.
4 msk balsamedik
½ msk rauður pipar
3 msk jarðaberjasulta
3 msk ólívuolía
3 msk fljótandi kókosolía
SÍRÓPSDRESSING
Hentar vel með flestum mat, t.d. fiski og pastaréttum.
2 msk eplaedik
¼ rauðlaukur, skorinn í bita
¼ bolli gott síróp (alls ekki nota útþynnt síróp)
1 msk sterkt sinnep
2 msk ólívuolía
salt og pipar eftir smekk
Öllu blandað saman í blandara þar til laukurinn hefur verið maukaður.
OREGANÓDRESSING
Hentar vel í salat með tómötum og mozzarella. Frábært eitt og sér með brauði eða sem meðlæti með pastaréttum.
1/2 dl balsamedik
1/2 dl vatn
½ – 1 tsk sterkt sinnep
1-2 tsk sýróp eða hunang
salt og pipar eftir smekk
1 tsk oregano (prófa aðrar kryddjurtir, t.d. steinselju eða basil eða kryddjurtablöndur)
2 dl ólívuolía, blanda smám saman út í þar til ákjósanlegt bragð hefur náðst.
Verði ykkur að góðu.