Það er margt að gerjast undirheimum Íslands. Meira en marga grunar. Þannig fréttum við af forstjóra rótgróins fyrirtækis sem leiðist óskaplega stíf fundarseta. Ef andrúmsloftið er þrungið og allt situr fast bregður hann gjarnan á það ráð að láta fundagesti þefa af ilmkjarnaolíum. Og eins og hendi sé veifað breytist andrúmsloft fundanna og vandamálin finna sinn farveg. Góðar kjarnaolíur hafa nefnilega áhrif. Þær geta ýmist verið róandi, upplífgandi, hressandi, skerpt hugann, bætt meltinguna, aukið kynhvötina og/eða gefið orku.
Nokkrar tegundir kjarnaolía ættu að mati nútíma jóga að vera til á hverju einasta heimili. Þetta eru lofnarblómaolía, piparmintuolía, júkalyptusolía, ylang ylang, vetiver, nerolí, sandalviður, sítrónuolía, citronelluolía, salvíuolía og síðast en ekki síst tea tree-olía.
Þegar þið lesið textann munuð skilja fullkomlega hvers vegna:
Lofnarblómaolía (lavender) hefur unaðslegan ilm. Ferska sæta angan af blómum. Lofnarblóm hefur almennt róandi áhrif og góð áhrif á þá sem þjást af ótta. Læknisfræðilega hefur hún verið notuð sem sótthreinsir og verkjastillandi á minniháttar brunasár og liðverki. Það er frábært að nota lofnarblómaolíu í slökun eftir jóga. Það kallar fram alsælu og nokkrir dropar á koddann bæta svefninn. Bættu lavender út í vatnið þegar þú straujar sænguverin og ekki bara fyrir jólin.
Piparmyntuolían er örvandi. Hún skerpir hugann og slær á hausverk og mígreni, örvar meltinguna og er góð á stífa og auma vöðva. Frábært að nudda á gagnaugun til að draga úr spennu og höfuðverk. Einnig er gott að blanda henni saman við möndluolíu eða aðra grunnolíu og nudda á aum svæði líkamans.
Júkalyptusolía hefur ferska og hreina angan sem opnar öndunina. Stundum er sagt að júkalyptus virki vel gegn öllu, sem er að sjálfsögðu hið besta mál. Hún er frábær á slímhúðarvandamál, gegn sveppasýkingu, örverum og vírusum og er bólgueyðandi. Júkalyptus hefur reynst frábærlega gegn kvefi, hósta, astma, stíflum, á sár og vöðvaverki og við þreytu, hún er tannhreinsandi og líka góð til hreinsunar á húð. Það er bæði hressandi og hreinsandi að setja nokkra dropa út í baðið.
Citronella er alltaf fersk og upplífgandi og eflir sköpunarkraftinn og vermir bæði líkama og anda. Ilmurinn er blanda af jörð, grasi og sítrónu sem m.a. hefur góð áhrif á miðtaugakerfið. Vinnur gegn mígreni og höfuðverk. Hún er þekkt fyrir að fæla burt moskító og jafnvel geitunga. Samkvæmt Ayurveda fræðunum hefur Citronella herpandi eiginleika sem þýðir að hún er góð á feita húð og svo ilmar hún dásamlega.
Tea Tree-olían er fyrir löngu orðin þekkt í óhefðbundnum lækningum enda framúrskarandi góð og mjög vinsæl. Hún hefur herpandi eiginleika og er frábær á feita húð eða feitan hársvörð, um leið sefar hún viðkvæma húð og er góð á minniháttar sár og veldur ekki ertingu. Margir setja fáeina dropa af Tea Tree út í sjampóið sitt með góðum árangri.
Ylang ylang er ein af uppáhalds ilmkjaranolíum okkar systra. Ilmurinn er engu líkur. Það er rómantísk yfirbragð yfir ylang ylang enda er hún eitt það mest róandi sem náttúran gefur af sér (getur gjörbreytt leiðinlegum fundum). Hún er líka þekkt fegrunarolía og stuðlar að mýkri og sléttari húð en er þó aðallega notuð til að gera hárið glansandi fallegt. Að auki hefur hún bakteríudrepandi áhrif.
Vetiver ilmkjarnaolían dregur þig út í náttúruna og er sannkölluð “núvitundar” ilmkjarnaolía (og hin uppáhaldsolía systra). Hún er notuð gegn streitu og er líka sögð draga úr áhrifum áfalla og er róandi. Vetiver virkar líka vel gegn liðagigt og vefjagigt. Ilmar ekki ósvipað og patchouli með dassi af sítrónu. Í Vetiver er mikið af svökölluðum Sesquiterpene mólíkúlum sem færa súrefni til frumnanna líkt og hemóglópin gerir fyrir blóðið, svo alls ekki vanmeta áhrifamátt vandaðra lífrænna ilmlkjarnaolía, sem hafa meiri áhrif en þig grunar.
Sítróna er frískandi og líkt og Citronella eflir hún sköpunarkraftinn. Sítrónu ilmkjarnaolía eykur snerpu en er líka sótthreinsandi og sveppadrepandi og frábær á rispur, minniháttar skurði og önnur opin sár. Gott ráð er að nudda sítrónuolíu á axlir, bringu og háls. Það örvar innra flæði og stuðlar að því að þú komir áformum þínum í framkvæmd.
Sandalviður er einn mest aðlaðandi allra ilma. Sætur, mjúkur viðarilmurinn útskýrir vinsældir sandalviðs. Þessa viðar er getið í 4000 ára gömlum heimildum en hann hefur bæði verið notaður í læknisfræðilegum og líka trúarlegum tilgangi. Sandalviður er róandi og slakandi en líka sótthreinsandi og vatnslosandi. Olíurnar í viðnum róa magann og styrkja taugarnar. Góð blanda fyrir hormónajafnvægið er: 3 dropar sandalviðarolía, 2 dropar salvíuolía og 3 dropar lavender. Setjið út í grunnolíu og notið daglega.
Salvíu/ilmkjarnaolía er sögð duga gegn flestum sálrænum og líkamlegum kvillum, ef þú notar nokkra dropa í bað. Hún er líka frábær gegn streitu, doða, hausverk og særindum í hálsi en hjálpar líka meltingunni og vinnur gegn fyrirtíðarspennu. Gott er t.d. að setja 2 til 3 dropa út í lítið vatn til að hreinsa hálsinn. Vegna alls þessa kemur ekki óvart að salvían sé sú jurt sem notuð er til að reka burt illa anda (ábyggilega frábær á hrútleiðinlegum fundum).
Nerolí ilmkjarnaolía kemur úr beiska hluta appelsínubarkarins. Hún vinnur mjög vel á taugakerfinu öllu og tilfinningalífinu. Nerolí er kvíðastillandi, notuð gegn höfuðverk, græðandi, róandi og lyktareyðandi. Það sem hún örvar líka frumuvöxt er hún frábær á ör og þar af leiðandi uppáhald margra snyrtivöruframleiðenda, í vörur sem eiga að vinna gegn öldrun húðar. Ef þú ert stressaður/stressuð með öran hjartslátt þefaðu þá hressilega af góðri nerolí og ró færist yfir. Nær samstundis.
Þegar þið fjárfestið í kjarnaolíum skuluð þið ALLTAF gæta þess að þær séu 100% lífrænar og vandaðar. Það líka gott að eiga góðar grunnolíur til þess að setja fáeina dropa af kjarnaolíum út í. Kjarnaolíur eru í raun alveg kyngimagnaðar, kunni maður að nota þær rétt, eins og forstjórinn sem við greindum frá í inngangi.
Við eigum allar þessar kjarnaolíur í Systrasamlaginu af bestu hugsanlegum gæðum frá Primavera. Lífrænt vottaðar, að sjálfsögðu.