RÆKTAÐ OG SPUNNIÐ
TEXTI Unnur Jökulsdóttir MYNDIR Unnur Jökulsdóttir / Hulda Brynjólfsdóttir
Austan við Þjórsá og sunnan við þjóðveg eitt er litla perlu í garnheimum að finna; íslenska, sjálfbæra, vistvæna smáspunaverksmiðju. Fyrirtækið heitir Uppspuni og er á bænum Lækjartúni þar sem hjónin Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson búa með sauðfé og holdanaut. Eingöngu eru notuð umhverfisvæn hreinsiefni við vinnslu ullarinnar og leitast er eftir að fullnýta hvert reyfi og allt
sem af skepnunni kemur.
Hulda býður okkur inn í hlýja ullarverksmiðjuna á köldum regnþrungnum laugardegi. Hún segir okkur strax að þegar komi að kindum sé hún pínu biluð. Kindurnar eru vinir hennar og hún þekkir þær allar tvöhundruð með nafni. Hún hugsar um þær dagana langa og spáir í hvernig hún vilji setja þær saman og hverju hún vilji ná fram þegar kemur að ullinni. Hvaða hrút hún eigi að setja með hvaða kind til að ná fram þeim litum og gæðum sem hún sækist eftir.
Íslenska ullin er ólík annarri ull þar sem hún er tveggja hára, annars vegar togið sem er vatnsfráhrindandi og svo þelið sem er einangrandi. Þessi ull heldur kindinni þurri og heitri og þannig líður okkur líka þegar við erum í ullarflíkum, segir Hulda.
Spunaverksmiðjan var sett í gang 1. júlí 2017, en formleg opnun var í mars ári seinna. Áður hafði Hulda handspunnið og prjónað úr eigin garni árum saman. Á meðan lét hún sig dreyma um spunaverksmiðjuna, sem er í raun heilsteypt hugmynd. Hulda segist hafa verið meðvituð um að hugsa alltaf fram í tímann með allt – nema plássið. Aðstaðan er samt glæsileg, í vélarsalnum standa tólf stórar blámálaðar vélar og hver hefur sína lögun og notagildi.
„Kindurnar eru vinir hennar og hún þekkir þær allar tvöhundruð með nafni. Hún hugsar um þær dagana langa og spáir í hvernig hún vilji setja þær saman og hverju hún vilji ná fram þegar kemur að ullinni.“
Þau taka kindurnar inn á haustin og rýja strax sama dag en á þann hátt er ullin hrein og fín. Síðan er hún borin yfir hlaðið, það skapast því ekkert kolefnisspor. Ullin er þvegin í lítilli þvottavél sem tekur þrjú kíló. Síðan þornar hún yfir nótt í sérstökum rekkum. Vélin þvær við 60 gráður og ullin kemur nánast þurr úr henni. Hulda réttir mér ullarlagið til að leyfa mér að finna að ullin er rétt þvöl viðkomu. Það er engin hætta á að hún þæfist í þessu hólfi því í rauninni snýst hún bara í vatninu, alltaf í sömu áttina, og það er ekki verið að velta ullinni sem myndi þæfa hana. Útkoman er meiriháttar eins og best verður á kosið.
Við þvottinn er notuð mild sítrónusápa, sem er svo náttúruvæn að það má hella henni beint á túnið án þess að sjáist á því. Það er eina efnið sem notað er við framleiðsluna, kemísk efni koma ekki nálægt þessari ull. En margir telja sig vera með ullarofnæmi af þeim sökum en eru oftast ekki með ofnæmi fyrir ullinni heldur fyrir alls kyns kemískum efnum sem eru notuð við vinnslu hennar og litun. En sumir eru með ofnæmi fyrir kindunum og þá skiptir ekki máli hvernig hún er unnin.
Við göngum um salinn og skoðum vélarnar meðan Hulda útskýrir tilgang þeirra. Þetta eru fallegar vélar og allt umhverfið skínandi hreint og fínt. En það hlýtur að vera ærin vinna að halda öllu hreinu.
Ein vélin er að tægja, losa ullina í sundur, og hún er kölluð tætari. Síðan er þarna vél sem þau kalla hárskilju, hún er að skilja að grófari og fínni hár. Loks komum við að kembivélinni sem Hulda kallar drottninguna sína, og reyndar er spunavélin líka í drottningarflokknum. Spunavélin, eða rokkurinn, jafnast á við tólf rokka. Tyrfingur, sem er tæknifræðingur að mennt, hjálpar henni við vélarnar. Hann kemur til okkar og spyr Huldu hvað hún vilji að vélin geri. Hulda segir honum það og þá stillir hann vélina nákvæmlega eins og hún vill hafa hana.
„Þau taka kindurnar inn á haustin og rýja strax sama dag en á þann hátt er ullin hrein og fín. Síðan er hún borin yfir hlaðið, það er því ekkert kolefnisspor.“
Hún bendir á að það sé mjög mikil litafjölbreytni í íslensku fé. Bændur voru beðnir um það árum saman að rækta hvítt fé því stóru ullarverksmiðjurnar lita alla ull. Til að tryggja að fá sama litatón ár eftir ár þurfa þær hvíta ull, svo þær geti þjónustað sitt prjónafólk. En í Uppspuna hafa Hulda og Tyrfingur ræktað alla liti. Þau fagna fjölbreytninni og segja stundum að það sé börnum og konum að þakka að allir þessir litir hafi haldist í íslenska fjárstofninum. Börnin sögðu oft, æ pabbi, viltu láta þessa lifa, hún er svo falleg á litinn. Þannig höfum við haldið í litina og svo eru auðvitað margir sem vilja einfaldlega hafa litafjölbreytni í sínum fjárhóp.
Hulda segir að áður fyrr hafi hún alltaf verið hrifin af hreinum litum en ekki flekkóttum. Hreinn grár litur, svartur eða mórauður og svo framvegis. En eftir að hafa unnið svona mikið með ullina hefur Hulda komist að því að flekkótt ull er mjög góð ull, hún er því alltaf að verða hrifnari af fjölbreytninni í öllu saman. Og af því að Hulda þekkir kindurnar sínar svo vel getur hún merkt að ullin af þeim er mismunandi milli ára. Það fer eftir veðri og hvar þær halda til.
Kindur sem fara ekki á fjall eru með síðri ull en þær sem fara á fjall. Ull fjallkindanna er miklu fallegri, loftkenndari og mýkri heldur en kinda sem fara ekki á fjall. Eins er hægt að finna ef kind hefur orðið veik, þá er ullin síðri. Rétt eins og með hárið á okkur, okkar líðan og það sem við látum ofan í okkur hefur áhrif á það, segir Hulda og brosir. Litirnir eru því ekki aðeins breytilegir milli ára, þeir eru líka breytilegir milli kinda og eftir aldri. Maður getur því fengið ansi marga liti, segir Hulda og þess má geta að Uppspunaféð fer allt á fjall.
„Þau fagna fjölbreytninni og segja stundum að það sé börnum og konum að þakka að þessir litir hafi allir haldist í íslenska fjárstofninum.“
Á bænum Uppspuna eru rétt um 200 kindur, ekkert mjög margar en dugar fyrir framleiðsluna. Lömbunum er líka slátrað fyrir kjötvinnslu á hefðbundinn hátt. Markmiðið í Uppspuna er að reyna að nýta allt til fulls. Að sýna skepnunni þá virðingu að henda ekki neinu. Það er partur af hringrás lífsins að forðast sóun. Að henda ull eða kjöti finnst Huldu vera sóun og virðingarleysi gagnvart skepnunum sem eru vinir hennar.
Við skoðum ull sem er í vinnslu í verksmiðjunni og dáumst að því hvað hún er miklu mýkri en hinn hefðbundni lopi. Framleitt er mest af huldubandi í Uppspuna sem er langvinsælast. Það heitir hulduband í höfuðið á huldukonunni, segir Hulda og hlær. Hún sjálf heitir í höfuðið á henni, hún er tvíburi sem birtist óvænt á eftir bróður sínum, enginn átti von á henni þegar hún fæddist.
Hulda sýnir okkur garn í mismunandi grófleika, dvergaband og tröllaband og dís, sem er það fíngerðasta. Dísin er mest notuð í sjöl. Þarna eru dvergasokkar því það er sama þykkt og dvergabandið og síðan eru huldusokkar annarsstaðar, sem fengu nafnið út af huldubandinu. ,,Jafnvel huldufólk notar ullarsokka“ er slagorðið á sokkagarninu. Það er sami grófleiki og hægt að nota það saman. Það er þema í Uppspuna að vera með dverga, álfa og huldufólk og Hulda segir að stundum séu þessar verur þarna að hjálpa sér. Eða hrekkja, bætir hún við og skellihlær.
Það er skemmtileg tilraunastarfsemi í gangi í Uppspuna, þau hafa prófað eitt og annað. Til dæmis spunnið garn úr hundahárum. Vinkona, sem er hundasnyrtir, gaukaði að henni poka með blönduðu hundahári. Örlítilli ull, tíu prósent eða svo, var blandað saman við því hundahárin voru svo létt að það þurfti að stoppa þau af. Svo er hár af geit, eða geitafiða eins og það heitir.
Tröllabandið er líka mjög skemmtilegt og sérstakt, eins og hroðalokkar eða dreadlocks, gert úr því sem er afgangs og safnað saman. Frábært garn sem gaman væri að gera úr teppi, hitaplatta eða hvað sem er. Þarna er líka garn blandað með kanínuhárum og þræðir úr mjólkurpróteini, sem Hulda kembir saman við ull og rósir. Gulgrænn þari úr Breiðafirði er settur saman við mórauða ull. Hann er svolítið eins og hampur eða bambus. Það mun vera eitthvað í þaranum sem vinnur gegn bakteríum og þá táfýlu, og það er því upplagt að nota það garn til að prjóna táfýlusokka.
Uppspuni heldur úti fínni sölusíðu á netinu en langmest af sölunni fer hins vegar fram í versluninni, sem er til húsa á loftinu yfir verksmiðjunni. Hulda segist vera mjög heppin með ættingja og vini en í búðinni er boðið upp á ýmsar handgerðar vörur frá þeim. Mágkonan gerir sápur, tengdamamma prjónar og tengdapabbi gerir prjóna, meðal annars risaprjóna fyrir tröllabandið eða allt upp í 25 mm. Í búðinni á loftinu er líka jurtalitaða garnið hennar Huldu, pakkar með garni og uppskriftum fyrir vettlinga, sjöl og útivistarpils. Já, tölur og bækur með sögum um kindur, þetta er heill ævintýraheimur!