Þegar þú ekur yfir Hellisheiðina blasir Hellisheiðarvirkjun við á sunnanverðu Hengilsvæðinu þar sem kraftmikilir gufustrókar streyma upp úr jörðinni. Ekki eru allir sem vita að í Hellisheiðarvirkjun er einstaklega áhugaverð sýning sem öllum er velkomið að koma og skoða. Sýningin byggir á margmiðlunartækni, veggspjöldum og kynningum svo gestir geti kynnt sér nýtingu jarðvarma á Íslandi.
Á sýningunni má sjá risavaxnar túrbínur sem eru notaðar í virkjuninni, þar er fjölbreytt steinasafn og sýnt er hvernig lögn sem sér Reykjavík fyrir vatni lítur út. Farið er yfir sögu jarðvarma á Íslandi og hvernig framleiðsluferlið er í Hellisheiðarvirkjun. Að sjálfsögðu tekur starfsfólkið vel á móti þér og svarar öllum spurningum varðandi jarðvarma.