Snæfellsjökull horfinn eftir 30 ár!

Kristinn R. Sigurðsson
Kristinn R. Sigurðsson á leiðinni upp á Snæfellsjökul á fjallaskíðum.

Kristinn R. Sigurðsson fer fyrir hópnum Njóta eða þjóta sem er hópur fjallaskíða- og útivistarfólks með brennandi áhuga fyrir náttúruvernd og aðgerðum gegn loftslagsvánni. Með því að halda heimsviðburð á Snæfellsjökli vill hann vekja athygli á þessu mikilvæga málefni og mögulega koma í veg fyrir að jökullinn hverfi.

TEXTI Elín Hrund Þorgeirsdóttir
MYND
Hermann Þór Snorrason

„Undir slagorðinu Allt fyrir náttúruna viljum við vekja almenning til vitundar um nauðsyn þess að við tökum okkur öll tak í umhverfismálum. Nýverið kom út skýrsla Sameinuðu þjóðanna sem staðfestir enn frekar en áður að loftslagsváin er af mannavöldum og því er það líka í mannanna höndum að snúa þróuninni við. Við viljum ráðast í aðgerðir og stefnum að því að halda heimsviðburð á Snæfellsjökli þar sem undirritaður verður sáttmáli um loftslagsaðgerðir.“ 

Aðspurður segir Kristinn ákvörðunina um að láta þetta hverfast um Snæfellsjökul vera tilkomna vegna þess að jökullinn endurspegli með ótvíræðum hætti þá atburðarás sem er óumflýjanleg en síðustu mælingar segja okkur að Snæfellsjökull verði horfinn eftir 30 ár. 

„Sá kraftur sem talinn er búa í jöklinum og sú dulúð sem jökullinn hefur oft verið sveipaður gerir Snæfellsjökul enn áhugaverðari sem miðpunkt þessa viðburðar. Undanfarin ár hefur vinahópurinn margoft lagt leið sína á topp Snæfellsjökuls og í leiðinni tekið ástfóstri við hann enda verður enginn samur eftir að hafa upplifað leyndardóma jökulsins. Við erum flest orðin afar og ömmur og okkur hryllir við tilhugsuninni um þá framtíð sem bíður afkomenda okkar. Þrátt fyrir mikilfengleika Snæfellsjökuls þá er hann aðeins sáralítið brot af þeim endalausu áföllum sem eiga eftir að dynja yfir heimsbyggðina að öllu óbreyttu. Jöklar og þá sérstaklega skriðjöklarnir eru holdgervingar þeirra hörmunga sem við stöndum frammi fyrir.“ 

Hugmyndin er að fá sem flesta ráðamenn þjóðarinnar saman upp á topp Snæfellsjökuls til að undirrita sáttmálann í einum stórum viðburði og í beinu framhaldi getur allur almenningur undirritað hann á netinu.

Undirbúningur viðburðarins er hafinn en ennþá er fjármögnunin í ferli. „Okkur langar til að halda viðburðinn á sumarsólstöðum, en ekki fyrr en 2023. En við gætum haldið „generalprufu“ næsta vor,“ segir Kristinn. Hann bætir því við að hugmyndin um sáttmálann hafa orðið til þegar þau áttuðu sig á því að þrátt fyrir að flestir viti að loftslagsváin sé raunveruleg þá sé engu að síður mikill meirihluti á sama tíma að gera mjög lítið til að sporna við þessari óheillaþróun. „Hugmyndin er að fá sem flesta ráðamenn þjóðarinnar saman upp á topp Snæfellsjökuls til að undirrita sáttmálann í einum stórum viðburði og í beinu framhaldi getur allur almenningur undirritað hann á netinu. Með undirritun felst ákveðin skuldbinding eða viljayfirlýsing um að vilja breyta rétt og við erum ekki ein á ferð heldur höfum við stuðning hvert af öðru.“

Kristinn leggur áherslu á að eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sé í raun að manneskjan sé of eigingjörn, sjálfselsk og skammsýn í eðli sínu til að gera eitthvað í málinu. „90% af öllu hugsandi fólki gerir sér grein fyrir því að loftslagsváin er raunveruleg en það gerir óskaplega lítið í málinu. Við virðumst þurfa að sökkva alveg niður á botninn til að bregðast við af alvöru en þá er það einfaldlega orðið of seint. Almenningur verður að láta til sín taka enda spurning hvort pólitíkusum sé treystandi til þess að leiða þetta stóra mál til lykta. Hafa þeir ekki allir einhverja persónulegra hagsmuna að gæta?“

 

Ætlunin er að bjóða heimsþekktu fólki á sviði umhverfismála og náttúruverndar til landsins vegna þessa viðburðar.

Hjarta á Snæfellsjökli

Nokkrar hugmyndir hafa þegar litið dagsins ljós varðandi uppákomur á viðburðinum og má þar nefna gjörninga, listasýningar, fyrirlestra og tónlistarflutning. „Ætlunin er að bjóða heimsþekktu fólki á sviði umhverfismála og náttúruverndar til landsins vegna þessa viðburðar. Með því að halda svona stóran alþjóðlegan viðburð er í raun verið að búa til hópefli sem veitir okkur almenningi stuðning til að eiga auðveldara með að breyta rétt.“ Kristinn segir að ekkert sé því heldur til fyrirstöðu að fara í samstarf með öðrum þjóðum og gera þetta að alheimsátaki með því að framkvæma sambærilega hugmynd um allan heim þar sem undirritaðir yrðu sáttmálar á jöklum víðsvegar um heiminn. „Við viljum framkvæma og hætta að tala eins og unga fólkið er alltaf að benda á.“

Hópurinn hefur nú þegar fengið með sér í lið rithöfundinn Andra Snæ Magnason sem skrifa mun sáttmálann í samvinnu við fulltrúa yngri kynslóðarinnar. Undirbúningshópur heimsviðburðarins á Snæfellsjökli skipa m.a. áðurnefndur Andri Snær Magnason rithöfundur, Sævar Helgi Bragason jarðfræðingur, Rakel Garðarsdóttir frumkvöðull, Tómas Guðbjartsson læknir, Þórey Edda Elísdóttir ólympíufari og umhverfisverkfræðingur, Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur og Karl Örvarsson tónlistarmaður ásamt Kristni sjálfum. „Allir sem ég hafði samband við voru strax boðnir og búnir að taka þátt í þessu verkefni, sem var að sjálfsögðu ótrúlega ánægjulegt enda virðist áhugi fyrir aðgerðum af þessu tagi vera mikill og fólk gríðarlega jákvætt.“

Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Facebook-síðunni: „Allt fyrir náttúruna.“

Kristinn R. Sigurðsson er framkvæmdastjóri Harðkornadekkja ehf., innflytjanda Green Diamond Harðkornadekkja sem eru íslensk og umhverfisvæn uppfinning.