Ofurnæmni er algengari en við höldum

Talið er að 15 til 20% af mannkyninu séu ofurnæmir einstaklingar. Hvað þýðir það að vera ofurnæmur einstaklingur eða „a highly sensitive person”? Það hefur reyndar verið mikið rannsakað af vísindamönnum, hvað þessir einstaklingar eiga sameiginlegt og búið að finna ákveðin einkenni og búa til próf sem hægt er að taka til að athuga hvort að maður falli undir þennan flokk.

Líffræðingar telja að þessi næmni sé meðfædd og að heilinn virki að einhverju leyti öðruvísi í þessum einstaklingum. Allar upplýsingar sem berast frá umhverfinu til heilans eru meðteknar af meiri dýpt, sem hefur þær afleiðingar að þessir einstaklingar eru mjög meðvitaðir um öll áreiti í umhverfinu sínu. Þessum einstaklingum verður auðveldlega misboðið af miklum hávaða, mikilli ringulreið og eiga erfitt með að vera lengi í kringum mikið af fólki. Þar af leiðandi er oft sagt að ofurnæmir einstaklingar séu mjög feimnir þegar þeir koma inn í nýjar kringumstæður, en það að vera feimin er lærð hegðun ekki meðfædd. Í rauninni þá segja vísindamenn að 30% af ofurnæmum einstaklingum séu mjög opnir, þrátt fyrir að oft sé sett samasem merki á milli þess að vera ofurnæmur og að vera feimin/nn, þá er það alls ekki staðan í öllum tilfellum. Í mörgum menningarsamfélögum, líklega flestum, er talið veikleikamerki að vera viðkvæmur. Þá er oft gert lítið úr einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir stríðni, hávaða eða sterkum tilfinningaviðbrögðum annarra og notuð orðræða eins og „þú ert svo viðkvæm/ur, það má ekkert segja neitt við þig”. Það ber að fagna fjölbreytileikanum og að muna að þetta eru meðfædd persónuleikaeinkenni, ekki lærð.

Hér á eftir eru nokkur einkenni þeirra sem flokkast undir “highly sensitive people”, eða ofurnæma einstaklinga. Ef þú tengir við þessi einkenni, þá mæli ég með því að þú kynnir þér málið enn frekar, til er ógrynni af fræðsluefni (meðal annars hér):

14 EINKENNI

1. Ég á auðvelt með að finna fyrir ókyrrð og óþægindum af sterkum áreitum í umhverfi mínu (t.d. hávaða af ýmsu tagi og skært ljós).

2. Ég virðist taka vel eftir og vera næm/ur um nánast allt í mínu umhverfi.

3. Það hvernig öðru fólki líður hefur áhrif á mína eigin líðan.

4. Ég er mjög viðkvæm/ur fyrir sársauka.

5. Ég stend sjálfan mig oft að því að þurfa draga mig í hlé þegar mikið er að gera, þá finnst mér gott að komast í myrkvað herbergi eða í algjört einrúmi til að núllstilla mig.

6. Ég er einstaklega viðkvæm/ur fyrir koffíni.

7. List og tónlist hreyfir virkilega djúpt við mér.

8. Ég á mjög erfitt með hluti eins og: sterka lykt, ákveðna áferð af fötum og eða sírenur í sjúkrabílum.

9. Ég finn sterkt fyrir því þegar fólki líður illa í umhverfi sínu og ég virðist oft vita hvað þarf að gera til að bæta kringumstæður til að fólki líður betur (t.d. breyta ljósum og eða sætaskipan).

10. Ég reyni að komast hjá því eins og ég get að horfa á ofbeldisfullar bíómyndir og eða sjónvarpsþætti, því ég er mjög viðkvæm/ur fyrir ofbeldi á allan hátt.

11. Ég á mjög erfitt með breytingar.

12. Þegar fylgst er grannt með mér leysa verkefni eða við vinnu, þá á ég auðvelt með að stressast upp og stend mig yfirleitt illa.

13. Ég á mjög erfitt með að hafa mikið að gera í einu.

14. Ég legg hart að mér að forðast mistök og að gleyma hlutum.


Heimildir: hsperson.com

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.