10 SKAÐLEG EFNI Í SJAMPÓI SEM VIÐ VILJUM FORÐAST

Það er erfitt að forðast öll þessi óæskilegu efni þegar keypt er sjampó en það er mikilvægt að taka upplýstar ákvarðanir og velja það sem er best fyrir okkur og dýrin í sjónum. Einnig er hægt að minnka skaðann með því að fækka hárþvottunum. Einu sinni til tvisvar í viku á að duga!

1. Ammonium Lauryl Sulfate og Sodium Laureth Sulfate (SLES)

Súlföt eru mjög algeng í sjampói en það eru hreinsiefni sem fjarlægja fitu og óhreinindi og láta sjampó freyða. Þessi efni geta verið of sterk og skemmt hárið, sérstaklega fíngert og þurrt hár með því að ræna það raka og gera það þurrt og úfið. Einnig er talið að þau geti dregið úr lit í lituðu hári. Þá geta súlföt valdið ofnæmisviðbrögðum hjá þeim sem hafa viðkvæma húð.

2. Sodium Lauryl Sulfate (SLS)

Þetta efni fær sjampó til að freyða sem mörgum finnst bráðnauðsynlegur hluti af hárþvotti. Það er þó ekki raunin og ætti að forðast. SLS er talið geta eyðilagt rakavarnir húðarinnar og er tengt við ertingu í húð og augum, röskun á æxlunarkerfi og þroska og talið auka líkur á krabbameini.

3. Paraben

Paraben efni eru notuð sem rotvarnarefni í snyrtivörum og sjampói þar sem þau eru bakteríu- og sveppadrepandi. Efnið frásogast auðveldlega í gegnum húðina og inn í líkamann. Paraben geta líkt eftir estrógeni og talin eru vera tengsl milli parabena og auknum vexti brjóstakrabbameinsfruma. Sum paraben hafa verið bönnuð af ESB löndum og sérstaklega í vörum sem ætlaðar eru á bleyjusvæði ungra barna vegna mögulegra hormónahermandi áhrifa.  Önnur rotvarnarefni sem hafa komið í staðinn eru einnig á lista yfir varhugaverð efni: Hydantoin, quaternium-15, imidazolidinyl urea, diazolidinyl urea. En sem betur fer eru einnig til rotvarnarefni sem eru skaðlaus eins og jurtaglýserín (glycerin), sodium benzoate eða hreinar ilmkjarnaolíur sem eru bakteríu- og sveppadrepandi.

4. Polyethylene Glycols (PEG)

Þessi flokkur efna er hliðarafurð bensín framleiðslu, notað til að þykkja sjampóvökva og eru oft menguð af skaðlegum hliðarafurðum. Þau eru talin geta truflað þroska og verið krabbameinsvaldandi.

5 – 6. Diethanolamine (DEA) og Triethanolamine (TEA)

Bæði þessi efni eru ýruefni (emulsifiers) og eru notuð þegar blanda þarf saman vatni og fitu og þegar um sjampó er að ræða auka þau einnig froðumyndun. Árið 1998 fundu vísindamenn tengsl milli DEA og krabbameins í tilraunadýrum á rannsóknarstofu. Engin bein tengsl hafa þó fundist í mönnum en Alþjóðastofnun Krabbameinsrannsókna metur efnið sem mögulega krabbameinsvaldandi.  

7. Formaldehyde

Þetta rokgjarna efni er sennilega það hættulegasta sem finna má í hárvörum. Formaldehýð er þekkt krabbameinsvaldandi efni sem fer í gegnum húð í líkamann.  Það gengur undir ýmsum nöfnum í sjampói en það algengast er sennilega quaternium-15.

8. Alkóhól

Alkóhól er mjög algengt innihaldsefni í sjampói. Alkóhól þurrkar og því framar sem það er í upptalningu innihaldsefna því meira er af því í vörunni. Sum alkóhól geta reyndar hjálpað hárinu að halda í raka og þau bera nöfn sem byrja gjarnan á C eða S eins og til dæmis Cetearyl og Stearyl. Þau slæmu fyrir þurrt hár má þekkja á því að þau innihalda „prop“ einhversstaðar í nafninu, eins og Isopropyl alcohol eða propanol.

9. Gerviilm- og litarefni

Ilmefni í hárvörum (fragrance eða perfume) innihalda oft fjölda efna sem ekki þarf að taka fram. Ef ilmurinn afturámóti kemur frá náttúrulegum ilmkjarnaolíum (essential oils) þá er það tekið fram. Benda má á að sumir eru samt með ofnæmi fyrir slíkum olíum. Sum innihaldsefni í  gerviilmefnum geta truflað æxlunarkerfi auk þess að valda krabbameini og ýmisskonar ofnæmi og þá komast þau einnig í brjóstamjólk. Að auki geta þau valdið pirringi í höfuðleðri og hárlosi. Alltaf ætti að halda gerviilmum frá ungum börnum.

Gervilitarefni eru í flestum sjampóum og næringum til að þau líti betur út. Þessir litir geta innihaldið meðal annars bensín og kolatjöru sem geta valdið ýmsum skaða enda eru margir þeirra bannaðir í ýmsum löndum. Litarefnin kallast yfirleitt númeraröðum sem byrja á FD&C eða D&C.

10. Dimethicone – sílikon

Dimethicone er í rauninni plast eða sílíkonefni sem hjúpar hárið og gefur því gljáa. Þegar efni hefur safnast saman yfir tíma þyngir það hárið og gerir það lint og líflaust. Þegar efnið safnast upp lokar það bæði hárinu og hársverðinum og kemur í veg fyrir að raki og næring komist að sem veldur pirringi, hárlosi og jafnvel ofnæmi.

Heimild: https://www.vanillaluxury.sg/magazine/15-most-common-harmful-ingredients-your-shampoo
Listi og frekari fróðleikur um hættuleg efni: https://www.madesafe.org/science/hazard-list/
Áhugaverð vefsíða samtakanna EWG. þar er hægt að fletta upp hár og -snyrtivörum til að skoða innihaldsefnin https: https://www.ewg.org/skindeep/
Hér má finna appið Kemiluppen frá dönsku neytendasamtökunum. Þar er hægt að fletta upp hár og -snyrtivörum eftir nafni og strikamerki: https://kemi.taenk.dk/bliv-groennere/kemiluppen-tjek-din-personlige-pleje-uoensket-kemi
Tögg úr greininni
, ,