2. orkustöðin – Appelsínugulur sköpunardrykkur

Sáðu sköpunarfræjunum

Nú fikrum við okkur upp eftir líkamanum og kveikjum elda eftir að hafa tengt við rætur 1. orkurstöðvarinnar. Miðmorguns virkjum við hvatastöðina, sköpunarkraftinn, sem er appelsínugul að lit. Því mælum við með gulrótarsafa með dassi af appelsínu og -berki, spíruðum sólblómafræjum, túrmerki og heimagerðu gheei úr kúm sem hafa fengið að jórtra gras.

Gulrætur, sem eiga raunar bæði heima í 1. og 2. orkustöðinni, geyma mikið karótín sem skerpir sjón, appelsínur eru C-vítamínríkar og sólblómafræ: “Ef þú þyrftir að lifa á aðeins einni fæðutegund, myndir þú sennilega lifa lengur á þessum litlu tyggjanlegu ögnum, en á nokkru öðru,” skrifaði Ævar Jóhannesson frumkvöðull og höfundur Lúpínuseyðisins. Sólblómafræ eru bæði rík af lífsnauðsynlegum fitusýrum og próteinum og næring þeirra margfaldast ef við spírum þau. Allt líf hefst jú á einu fræi.
Túrmerkið er líklega spútnik 21. aldarinnar; bólgueyðandi, hefur áhrif á geð okkar og margt bendir til að það vinni á Alzheimer sem nú er gjarnan kallaður sykursýki III. Ghee (smjörolía) hefur tilheyrt Ayurveda mataræði frá örófi. Í indversku lífsvísindum er ghee þekkt sem tærasta og næringarríkasta fita sem völ er á.

Eftir að við höfum náð sambandi við rótina í 1. orkustöðinni þrufum við að kveikja upp ástríður okkar, kynhvöt og sköpunarkraft, sem er að finna í 2. orkustöðinni (staðsett rétt fyrir neðan nafla). Vatnið er frumefni þessarrar orkustöðvar og appelsínugult grænmeti, ávextir og fræ virkja vatnsaflið innra með okkur. En einnig er gott að neyta lífsnauðsynlegra fitusýra með til þessa að sköpunarkrafturinn endist okkur út daginn (þess vegna setjum við líka ghee í kaffið okkar). Þekkt er að ghee færir okkur jafna og góða orku yfir daginn.

Ef við náum ekki að virkja vatnsaflið er hætt við því að okkur leiðist, við verðum döpur, kynköld og skapandi orkan í lágmarki. Talað er um að fíknir eru versta birtingamynd vannærðrar hvatastöðvar.

Sköpunardrykkurinn:

2 glös

4 til 5 gulrætur,

1 appelsína

1 msk sóllblómafræ

2 sm túrmerikrót

2 tsk ghee

2 msk rifinn appelsínubörkur

Setjið gulrætur og appelsínu í gegnum safapressu, en hafið aðeins ¼ til helming appelsínunnar með berki (mjög mikilvægt að appelsínan sé lífræn fyrir eiturefnalausan börk). Það má líka raspa börkinn á appelsínunni áður en hýðið er tekið af og hún sett í safapressuna. Þá er að setja safann í blandara ásamt spíruðum sólblómafræjum, röspuðum berkinum, túrmerikrótinni og gheeinu. Betra er að sleppa því að setja túrmerikrótina í safapressu því hún gefur mjög mikinn lit. Blandið saman af fullum þunga þar til ghee-ið er hefur leyst upp. Hellið strax í tvö glös og þrífið blandarann undir eins svo liturinn af túrmerkinu festist ekki.

PS. Það eru til margar leiðbeiningar um hvernig spíra má sólblómafræ og búa til ghee, t.d. á internetinu.

Hvatastöðin er í beinu sambandi við nýru, ristil (þar sem vitið okkar sé geymt), milta og æxlunarfæri.

—-

Ljósmynd eftir Áslaugu Snorradóttur úr Íslensk náttúra villt og tamin.

Bókin Íslensk ofurfæða
Bókin Íslensk ofurfæða