Fimm náttúrulegar leiðir til að losna við höfuðverk

Eins og það er gott að komast aftur í rútínu þá getur stress og hraði fylgt fullri dagskrá haustsins. Þessi streita getur aukið líkurnar á höfuðverk og að meðaltali eru það víst konur sem fá oftar hausverk en karlmenn.

Vinna, ferðalög, of lítill svefn eru allt áhrifavaldar sem geta valdið höfuðverk. Það er oftast hægt að rekja verkinn til einhvers í lífstílnum sem hægt er að laga á einfaldan hátt. Í stað þess að ná samstundis í verkjalyfin reyndu frekar að fylgjast með hvað getur verið að valda hausverknum. Þegar við tökum okkur tíma til að hægja á okkur þá koma oft svörin í ljós.

Þegar kemur að því að losna við höfuðverk eru margir sem ranghvolfa augunum þegar þeir heyra orðasambandið „náttúrulegar leiðir“ og hugsa með sér að þær virki ekki. Þó að það geti tekið „náttúrulegu leiðina“ örlítið lengur að virka, þá til lengri tíma litið er betra að líkami þinn sé ekki háður því að fá pillu í hvert skipti sem þú finnur fyrir verk. Það er mikilvægt að hlusta á líkamann og reyna að skynja hvað hann er að segja okkur.

Hér eru 5 leiðir sem hafa reynst vel:

Piparmyntu ilmkjarnaolía

Ilmkjarnaolíur er húsráð sem hefur verið notað við ýmsum kvillum í aldaraðir. Piparmynta er mjög kælandi í eðli sínu. Hún hjálpar til við að slaka á vöðvum, róa hugann og minnka sársauka. Settu nokkra dropa við hárlínuna, á gagnaugað, kjálka eða háls og nuddaðu inn í húðina. Taktu tíma til að njóta áhrifanna með lokuð augun.

Að drekka nóg

Þetta hljómar augljóst en flest okkar eru ekki að drekka nóg vatn. Ef þú ert að æfa og svitna daglega þarftu ennþá meira en sá sem situr allan daginn en sá þarf samt 1-2 lítra! Sumir drykkir eins og kaffi og alkóhól taka vatn frá líkamanum og því mikilvægt að drekka mikið vatn til að vega upp á móti. Til þess að koma meiri vatnsdrykkju í vana byrjaðu þá daginn á að drekka stórt vatnsglas um leið og þú vaknar. Svo er ráð að vera alltaf með vatnsflösku á sér!

Ferskt engifer

Engifer er eitt af gömlu húsráðunum við hausverk. Sterku olíurnar í engifernum eru sagðar slaka á vöðvaspennu og vinna gegn sársauka. Þegar þú finnur fyrir höfuðverk fáðu þér þá rjúkandi engifer te eða tyggðu á sneið af hráum, lífrænum og skræludum engifer og leyfðu honum að milda sársaukann.

Þrýstingur og nudd

Í austurlenskum hefðum og vísindum hafa heilunaraðferðir eins og Acupressure eða þrýstingur og nudd á viðbragðspunkta verið notað öldum saman til að vinna gegn sársauka ýmiss konar og jafna orkustig. Þess konar nudd er áhrifarík leið þar sem þrýstingur er settur á ákveðna punkta, svæði sem tengjast ákveðnum líffærum. Hér eru þrír punktar til að koma þér á bragðið:

  1. Enni: Settu vísifingur á milli augabrúna og þrýstu miðlungs fast. Andaðu djúpt og haltu fingrinum þarna í eina míntútu. Slepptu og endurtaktu eins oft og þú vilt.
  2. Hendur: Settu þrýsting á bilið á milli þumalfingurs og vísifingurs vinstri handar, með þumli og vísifingri hægri handar (sjá HÉR) Andaðu djúpt á meðan þú heldur þrýstingnum í eina mínútu. Skiptu nú um hendi. Endurtaktu eins oft og þú vilt.
  3. Fætur: Settu þrýsting á svæðið á milli stóru táar og þeirrar næstu (sjá HÉR). Andaðu djúpt á meðan þú heldur í eina mínútu. Skiptu um fót. Endurtaktu eins oft og þú vilt.

Glitbrá (e. Feverfew)

Glitbrá er lækningajurt sem hefur verið notuð gegn höfuðverk lengi vel og nýlegar vísindarannsóknir sýna að það eru efni í henni sem lækna mígreni höfuðverk. Blómin á henni líkjast blómum á baldursbrá eða kamillu. Hún virkar vel þegar þú ert komin með höfuðverk en einnig sem forvörn þar sem hún slakar á vöðvaspennu og taugakerfinu. Bæði hægt að neyta hennar sem jurtates eða taka hana inn sem bætiefni.


Færðu oft höfuðverk? Lumar þú á góðu ráði?

Láttu okkur vita í athugasemdum eða deildu og skrifaðu þitt ráð!