Ritstjórn : Betri húð og heilsa

Fyrir utan fallegan fuglasöng og hækkandi sól þá minnir vorið mig á hversu stutt er í sumarið og sumarfríið. Ég vona að sem flestir Íslendingar hafi fengið nasaþefinn í fyrra hvað landið okkar hefur upp á að bjóða og langi í meira.

Aldrei hafa fleiri gengið á fjöll eða stundað útivist eins og s.l. eitt og hálft ár. 

 Þetta eftirminnilega sumar tileinkuðum við sumarblaðinu þar sem áhersla var lögð á ferðalög innanlands, sem við ætlum að endurtaka í ár. En í  þessu blaði byrjum við með smá upphitun. Aldrei hafa fleiri gengið á fjöll eða stundað útivist eins og s.l. eitt og hálft ár. Ég dró því fram nokkrar góðar hugmyndir sem geta gert skipulagið og fjallgönguna enn skemmtilegri. Þetta eru auðvitað hugmyndir sem hægt er að nota í hvaða ferðalag sem er. Við fengum sérfræðing til að segja okkur hvað er ómissandi í bakpokann á fjöllum. Svo heimsækjum við Rannveigu og Mumma sem stunda fjárbúskap og bjóða upp á hjólaferðir á kindastígunum á landinu sínu.

Vatnsfasta

Það er aldrei of seint að læra, fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt. Ég prófaði t.d. í fyrsta sinn að fara á þriggja daga vatnsföstu í lok síðasta árs, sem ég hélt að ég myndi aldrei gera. Ég mátti til með að deila þessari reynslu með lesendum mínum enda varð ég alveg agndofa yfir heilunarmætti vatnsins. Þá fær húðin, stærsta líffærið okkar, einnig sitt pláss. En mín húðrútína hefur verið einföld í gegnum tíðina, ég er svona eins krems kona. En ég fékk alveg nýja sýn á húðumhirðu eftir viðtalið við Láru G. Sigurðardóttur lækni og mun örugglega bæta einhverju við þetta eina krem mitt í framhaldinu. Sérstaklega þótti mér nálgun Guðfinnu Mjallar áhugaverð sem notar húðumhirðuna sem athöfn til að hlúa að sjálfri sér. Svo toppar auðvitað ekkert gömlu myndirnar sem sýna að hégómi er ekkert nýtt fyrirbæri. Við sem héldum að Photoshop hefði breytt öllu!

Litaðir þræðir

Ef þú átt það sameiginlegt með Unni Jökuldóttur að vera prjónafíkill þá munt þú hafa gaman af hennar umfjöllun. Um allt land eru skapandi konur að lita og búa til sitt eigið garn. Við ákváðum að kortleggja þennan nýja iðnað og töldum 14 litara og framleiðendur sem sendu okkur dokkur til að „dokumentera“.

KOMDU Í ÁSKRIFT!

Þessi ritstjórnarpistill er úr vorblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2021