Garðyrkjustöðin Akur

AKUR + LIFUM BETUR

TEXTI Þórður G. Halldórsson

Akur er fyrst og fremst ræktunarstöð en svo er hérna líka eins konar bændamarkaður eða sveitasjoppa þar sem fólk getur komið og keypt tómata, gúrkur og papriku og annað sem til fellur. Ef fólk vill koma í heimsókn í gróðurhúsin er hægt að bóka slíkar heimsóknir fyrir fram.

Stemning í gróðurhúsinu

Við bjóðum fólki að  kynna sér ræktunina. Við ræktum tómata, gúrkur og paprikur og alls kyns grænt, salöt og krydd og fleira. Við bjóðum fólki í hringferð um gróðurhúsin, segjum því frá Akri, af hverju við ræktum úr mold en ekki vikri eða steinull eða þess háttar, útskýrum kosti skiptiræktunar og leyfum því að upplifa stemmninguna og andrúmsloftið í gróðurhúsunum.

Skiptiræktun

Skiptiræktun felst í því að rækta ekki sömu tegund á sama stað ár eftir ár því allar plöntur taka ákveðin efni úr jarðveginum og skila frá sér ákveðnum efnum og ef þú ert alltaf með sömu plönturnar á sömu stöðum þá þreytist jarðvegurinn og verður að lokum hálf líflaus. Þess vegna er betra að skipta um tegundir svo plönturnar séu hér og þar og taki það sem þeim hentar best úr lífmassanum í moldinni.  Með skiptiræktun ertu að viðhalda lífi í jarðveginum til að fá það besta úr honum fyrir afurðirnar sem verið er að rækta. Þetta er aldagömul aðferð til að viðhalda frjósemi jarðvegsins og þetta leitumst við að gera inni í gróðurhúsunum.

Bein snerting við matinn

Fólki finnst svo spennandi að fá að koma inn í gróðurhúsin. Það hefur jafnvel aldrei velt fyrir sér hvernig tómataplanta eða gúrkuplanta lítur út, og nýtur þess svo augljóslega  að komast í þetta návígi, fá að snerta plönturnar, tína upp í sig rauða tómata beint af trjánum og komast í beina snertingu við matinn sem við borðum. Síðan finnst fólki spennandi að sjá aðferðirnar sem við notum, við erum til dæmis með býflugur inni hjá tómötunum til að sjá um frjóvgunina. Alls konar skordýr, smápöddur og annað, sem eru í pokum á trjánum og  hjálpa okkur að halda skaðvöldum í skefjum. Það er fyrst og fremst þessi upplifun, þetta návígi sem gleður fólk.

Sprell í moldinni

Svo endar ferðin í pökkuninni þar sem við bjóðum upp á smakk úr gróðurhúsunum, bæði ferskt grænmeti og svo það sem við vinnum sjálf úr afurðum sem komast ekki í búðirnar, við þurrkum tómata, gerum pastasósur og chilimauk og fleira.

Akur er þekkt og viðurkennt vörumerki og fólk kaupir vörurnar okkar. Hjá okkur fá plönturnar að róta sig og sprella í moldinni og leita að þeim næringarefnum sem þeim líkar best. Þetta er það sem gerir gæfumuninn hvað bragð og gæði afurðanna varðar.

Þessi grein er úr sumarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2021