TEXTI Sif Ásthildur Guðbjartsdóttir, Guðbjörg Gissurardóttir og Bergdís Sigurðardóttir
Væri ekki frábært ef við tækjum öll höndum saman og ákveddum að taka nokkur auka græn skref sem geta aukið líkurnar á því að komandi kynslóðir hafi sömu tækifæri og lífsgæði og við sem eldri erum og eigum að kallast vitrari. Það er því miður ekki í boði lengur að halda áfram á sömu braut í neyslu okkar og venjum og varpa ábyrgðinni eitthvert annað. Ef við ætlum að komast hjá alvarlegum afleiðingum sem hlýnun jarðar mun hafa í för með sér þá þurfum við fullt af grænum leiðtogum inni á heimilunum. Það hefur ekki bara sýnt sig heldur verið sannað að einstaklingurinn getur haft gríðalega mikil áhrif, m.a. með því að skapa aðhald og þrýsting á fyrirtæki og stjórnvöld.
Að taka eitt grænt skref í einu þarf ekki að vera erfitt eða leiðinlegt, þvert á móti. Þetta getur verið skemmtileg, sameiginleg áskorun allra á heimilinu. Til að einfalda þér og þínum leikin þá höfum við tekið saman gátlista með umhverfisvænum aðgerðum sem allar miða að því að minnka mengun, sóun og kolefnisfótsporinn okkar en um leið bæta lífsgæði okkar. Þetta helst nefnilega allt í hendur.
Nældu þér í Grænu skrefin listann til að eiga!
Grænu skrefin fyrir heimilið
Covid-19 faraldurinn hefur sýnt okkur að við búum yfir öflugum samtakamætti og við getum tileinkað okkur nýjar venjur þegar þörf er á.
Grænu skrefin fyrir heimilið eru byggð á fyrirmynd Grænna skrefa fyrir stofnanir og fyrirtæki og snúast þau um að gera heimili okkar vistvænni og þar af leiðandi betri fyrir heilsu okkar og umhverfið.
Skrefin byggja á nokkrum vel völdum aðgerðum, sem settar hafa verið upp í gátlista sem skiptist í sex flokka, og eru innleidd í fjórum skrefum. Við fókuserum á rafmagn, hita, flokkun, að minnka sóun, eldhúsið og matvæli, innkaup, textíl og fatnað og samgöngur. Þetta eru einfaldar leiðbeiningar og hvatning fyrir ykkur sem eruð að hefja vinnuna með skrefin á heimilinu. Hugsið skrefin eins og líkamsræktarþjálfun. Við byrjum hægt og rólega, styrkjum síðan grunninn jafnt og þétt og byggjum síðan upp dag frá degi.
Að taka eitt grænt skref í einu þarf ekki að vera erfitt eða leiðinlegt, þvert á móti. Þetta getur verið skemmtileg, sameiginleg áskorun allra á heimilinu.
Hefjumst handa
Að innleiða Grænu skrefin á fyrst og fremst að vera skemmtilegt og eitthvað sem allir á heimilinu ráða við. Að setja sér markmið er ávallt góð hugmynd þegar hefjast skal handa við eitthvað nýtt. Það tekur tíma að breyta venjum okkar og búa til nýja rútínu fyrir sig og sitt heimilisfólk og getur þetta tekið eins langan tíma og þið þurfið. Setjið ykkur smærri markmið í upphafi og veltið fyrir ykkur spurningum eins og á hverju er best að byrja til að ná hverju skrefi fyrir sig, á að gera viku- eða mánaðarskipulag, eru einhver vandamál sem þarf að leysa og hver framkvæmir hvað og svo framvegis. Þegar allir eru meðvitaðir um hvað stendur til og gott skipulag er komið í farveg þá verður öll framkvæmdin einfaldari.
Það getur verið heillaráð að halda fjölskyldufund reglulega til að halda uppi góðu upplýsingaflæði. Fundirnir geta verið yfir kvöldmatnum eða um helgar þegar börn og foreldrar eru laus frá vinnu og skóla. Mikilvægast er að gera þetta að skemmtilegu verkefni sem allir eru til í að taka þátt í og jafnvel að finna spennandi umbun sem allir fá notið eftir hvert skref. Verið hvetjandi fyrir hvert annað, skrifið litla minnismiða með heilræðum eða sniðugum hugmyndum og setjið á ísskápshurðina til að gera verkefnið enn skemmtilegra. Möguleikarnir eru óþrjótandi og margt hægt að gera til að brydda upp á skemmtilegheitum, svo sem ýmsar áskoranir, halda þemadag, liða- eða einstaklingskeppni eða jafnvel keppni milli vina og fjölskyldna, nefna umhverfishetju hverrar viku og svo mætti áfram telja.
Góða skemmtun og gangi ykkur vel með innleiðingu Grænna skrefa 🙂
Nældu þér í Grænu skrefin listann til að eiga!
Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2021