Í ýmsum fornum fræðum er fjallað um orkustöðvarnar sjö sem eru á mismunandi stöðum í líkamanum. Líkt og í manninum er talið að jörðin hafi einnig sínar sjö orkustöðvar. Og ekki aðeins jörðin, heldur einnig hvert land fyrir sig.
Við könnumst eflaust flest við þau góðu áhrif sem dvöl úti í náttúrunni getur haft á okkur, hvort sem þau eru andleg eða líkamleg, ímynduð eða raunveruleg. Erla Stefánsdóttir, sem oft er kölluð álfakonan, er gædd þeirri náðargáfu að sjá álfa, orkustrauma og önnur fyrirbæri í náttúrunni sem fæstir gera sér grein fyrir að eru til. Erla fékk styrk til að kortleggja orkulínurnar sem liggja þvers og kruss um landið. „Það er ekki einfalt að kortleggja allar orkubrautirnar. Við verðum að muna að jörðin er lifandi, gædd mætti, vitund og lífi. Æðakerfið er eins og ljós sem streymir um orkulínur en orkupunktar eru þar sem orkulínurnar skerast. Orkubrautirnar hafa einnig mismunandi liti og tíðni. Þær götur sem húsdýrin hafa markað í aldanna rás hafa til dæmis bláan tón og er útgeislun þessara brauta lág og grunn og getur náð fullorðnum manni í ökkla. Á hinn bógin geta dýpstu og stærstu brautirnar verið mörg hundruð metrar á breidd og hæð og eru gullleitar,“ segir Erla. Hún ákvað að einskorða sig við þessar orkubrautir við gerð kortsins, en þær tengjast sjö aðalorkustöðvum landsins.
Að sögn Erlu eru þessar orkustöðvar Hofsjökull, Snæfellsjökull, Kaldbakur í Eyjafirði, Mýrdalsjökull, Snæfell, Hlöðufell og Herðubreið. „Líkt og á mannslíkamanum hafa orkustöðvar landsins mismunandi einkenni eftir staðsetningu á líkamanum og einnig tengingu við mismunandi liti. Hofsjökull er til að mynda höfuðstöð landsins og er eins og hvítt lótusblóm. Sú orkustöð er gríðarlega öflug, enda sendir hún frá sér tvisvar sinnum tólf orkulínur út um allt land,“ segir Erla. Þegar hún er spurð um Snæfellsjökul, sem oftast er tengdur við mikla orku, hefur hún skýringu á reiðum höndum: „Stærstar eru orkubrautirnar milli orkustöðva jarðarinnar og á okkar landi er hjartastöð jarðar, sem sé Snæfellsjökull, og þær brautir sem streyma í suðaustur og vestur eru þær kraftmestu sem finna má.“ Aðspurð hvernig við getum nýtt okkur þessa miklu orku bendir hún á að það sé mikilvægt að tengjast orkuhjúp jarðar, ekki aðeins til þess að njóta aukinnar orku heldur til að viðhalda eigin jafnvægi. „Gott er að finna sér kyrrlátan stað úti í náttúrunni, og ekki er verra ef það er í nálægð við einhverja af þessum sjö orkustöðvum, setjast niður og horfa inn á við og hlusta. Einnig má gera æfingar eins og að anda inn orku ljósstrengjanna í gegnum sínar eigin orkustöðvar,“ segir Erla.
Ferðalangar á leið um landið ættu að geta fundið sér fallega laut í nálægð við þessar sjö stöðvar, sest niður og fengið sér orkuáfyllingu!
Ljósmynd: Jón Árnason