Morgunvenjur Arnbjargar jógakennara

Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir er kundalini jógakennari, jógískur ráðgjafi, heilari, grafískur hönnuður og listakona. Hún starfar við kennslu á kundalini jóga og hugleiðslu í Reykjavík og á Akureyri, jóga í vatni, gönguhugleiðslu og krakkajóga fyrir krakka sem eru að stíga sín fyrstu skref í skólakerfinu. Hún málar einnig listaverk innblásinn af því andlega sem eru ætluð sem stuðningur við slíka iðkun heima fyrir eða hafa góð áhrif á umhverfið. Við fengum að forvitnast hvernig þessi flotta og fjölhæfa kona byrjar daginn.

ArnbjörgKristínHvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?

Vakna um klukkan 7 við vekjaraklukkuna í skammdeginu, vakna oftast sjálf á öðrum árstímum, fæ mér vanalega sítrónuvatn áður en ég borða nokkuð annað.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Ég geri mitt besta til að viðhalda daglegri jóga og hugleiðsluiðkun á morgnana. Á vorin og sumrin fer ég út hlaupa í um 20 mínútur, stundum lengur og enda stundum í Nauthólsvík þar sem ég geri jóga og hugleiðslu við hafið. Eftir það er sturta og hún er köld í lokin og eftir það ber ég á mig andlitskrem frá Una skincare.

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Með því að passa að fara ekki of seint að sofa svo ég nái að vakna á réttum tíma, gera eðlilegar kröfur á tíma minn og orku og hlusta vel og vandlega á hjartað.  Ég leyfi mér líka að fylgja takti náttúrunnar yfir árið. Ég er ekki vélmenni heldur er ég tengd því sem gerist í náttúrunni. Ég hægi aðeins á mér á veturnar og dreg mig meira inn á við á morgnana í skammdeginu og er aftur á móti kröftugri á morgnana á sumrin. Mér finnst það eðlilegt og hluti af því að vera manneskja í djúpum tengslum við sjálfan sig.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.