Hvað getur náttúran gert fyrir mig?

Sólin skín í gegnum trén sem rétt svo blökta. Það sést örlítið í grasið sem kíkir undan snjónum. Svartþröstur situr á grein og syngur fallega í morgunsárið.

Náttúran er allt um kring. Því miður eigum við til að gleyma henni eða í það minnsta veita henni of litla eftirtekt. Hraði nútímasamfélagsins ýtir okkur áfram og því virðumst við í flýtinum loka augunum fyrir því fallega sem náttúran getur gefið okkur. Við virðumst einnig gleyma því að við getum ekki stjórnað náttúrunni, hún er kraftmeiri en við sjálf. Náttúran er dugleg að minna okkur á mátt sinn hvort sem það er með breytilegu veðri eða kraftmiklu eldgosi.

Innan sálfræði hefur sprottið undirgrein sem kannar áhrif umhverfisins á líðan mannsins. Umhverfissálfræði (e. environmental psychology) skoðar hvernig umhverfið hefur áhrif á líðan, hugsun og samskipti okkar við heiminn. Á nýliðnum árum hafa rannsóknir í sálfræði byrjað að horfa á náttúruna sem tegund af meðferð við þunglyndi, kvíða og öðrum geðsjúkdómum. Þar skiptir öllu máli að vera í djúpum tengslum við náttúruna og leyfa krafti hennar að hjálpa okkur í átt að betri líðan.

Þegar ég finn fyrir stressi eða vanlíðan finnst mér fátt betra en að ná tengslum við náttúruna. Þar sem ég er fædd og uppalin í sveit hef ég blessunarlega átt stutt í að sækja í gífurlega náttúrufegurð. Ég glímdi við kvíðaröskun sem unglingur. Þegar kvíðinn var sem verstur og ég gat lítið annað gert en að gráta og óttast framtíðina átti mamma til að skipa mér með ákveðinni röddu að klæða mig og koma með útí fjós. Þar settist ég oft á gólfið hjá kettlingunum, heyrði í kúnum í fjarska og án efa var hundurinn kominn til að hughreysta mig. Það skipti engu hversu illa mér leið, ég gat treyst á það að eftir eina fjósaferð þá leið mér betur. Í dag nýti ég mér þetta ennþá. Þó að kvíðinn hafi minnkað þá er ég dugleg að drífa mig út í náttúruna þegar tækifæri gefst. Þótt að við tökum ekki alltaf eftir því þá er mikil streita sem safnast upp í lífi okkar. Því er mikilvægt að kúpla sig út úr daglegu stressi nútímasamfélagsins og eiga góða stund með sjálfri/um sér umvafin náttúrunni. Ég hvet þig því að nýta lausa stund og fá þér góða göngu í náttúrunni. Skildu snjallsímann eftir heima. Njóttu þess að ganga í fallegu umhverfi ein/n með sjálfri/um þér eða í góðum félagsskap. Einbeittu þér að því að hlusta á náttúrunna og taka inn alla þá fegurð sem hún hefur upp á að bjóða. Ekki fresta því til morguns sem þú getur gert í dag.

Heimildir

Power of Nature. (2012). Psychology today. Sótt 13. maí 2015 af https://www.psychologytoday.com/blog/out-the-darkness/201204/the-power-nature-ecotherapy-and-awakening.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.