Að heila sársauka

Hvað þýðir það að heila sársauka? Heilun vísar til orðsins að verða heill og markmið með heilun er því í sinni einföldustu mynd að verða heill. Hægt er að gera sjálfan sig heilli með margvíslegum leiðum, í rauninni þá veit hver manneskja hver sín leið er, jafnvel þótt að hún haldi að hún viti það ekki – þitt æðra sjálf kallar á þá reynslu sem þú þarft til þess að þroskast og vaxa í þessu lífi.

Það er engin tilviljun hvar þú ert stödd/staddur á þessu augnabliki í lífinu þínu, við erum öll á okkar persónulega andlega ferðalagi með tilheyrandi upp- og niðursveiflum sem eru allar gerðar til þess að við komumst nær sannleikanum um hver við virkilega erum. Það að heila sársauka er nátengt fortíðinni – að vera fastur í viðjum sársauka fortíðarinnar hefur þær afleiðingar að við náum ekki að vera fullkomlega í núinu þar sem hugurinn togar okkur í gamlar minningar og hýfir upp gamlan sársauka upp á yfirborðið og því dröslast þessar gömlu tilfinningar með okkur inn í núið. Algjörlega óboðinn gestur sem við samt á einhvern ómeðvitaðan máta buðum með í partýið. Ekki nóg með að þessi gamli sársauki eyðileggi núið fyrir okkur þá laumar hann einnig inn kvíða fyrir framtíðinni. Erfið reynsla fortíðarinnar hlýtur bara að þýða að það muni koma erfiðar reynslur í framtíðinni og við getum ekki tekist á við það ofan á allt annað.

Það sem þarf að gerast til þess að við heilum þennan sársauka og verðum frjáls er það erfiðasta sem nokkur manneskja gengur í gegnum, en það er að mæta sársauka og leyfa honum að koma án þess að berjast á móti. Þetta eru óuppgerðar tilfinningar, ákveðið myrkur af erfiðum tilfinningum sem við höfum enga getu til að sortera, tilfinningarþroskinn er lítill þar sem við höfum reynt eftir bestu getu allt okkar líf að forðast einmitt það eina sem upprætir sársauka, að finna þessar tilfinningar, að gráta, að öskra, að gefast upp fyrir þeim.

Eftir margra ára flótta frá þessum sársauka þá gefur auga leið að það tekur aðeins lengur en einn dag að fara í gegnum hann. Hægt er að leita aðstoðar margra fagaðila eftir hvers eðlis sársaukinn er, það er hægt að fá hjálp sama hversu erfiðar þessar tilfinningar eru. Þú ert ekki ein/nn og við erum öll á einhvern hátt að ganga í gegnum okkar eigin útgáfur af sársauka og þótt að reynslan sé ólík þá er sársauki alltaf bara sársauki, höfnunartilfinning er bara höfnunartilfinning sama í hvernig mynd hún birtist í ytri veröld þinni. Það er ekki bara hægt að leita til opinberlegra fagaðila heldur er til ógrynni af yndislegu kærleiksríku fólki fullu af ljósi til að gefa og með persónulega reynslu af uppgjöri og hefur tileinkað lífi sínu til að hjálpa öðrum. Þetta er fólk sem kallar sig ef til vill heilara, miðil, náttúrulækni, fólk sem vinnur með listir sem meðferðarform og svo eru líka til fullt af hópum sérhæfðum í alls konar sársauka líkt og kvíða, áfengissýki, uppkomnum börnum alkahólista eða geðsjúkra, matarfíkn (fólk sem notar mat til að deyfa sársaukann sinn og hefur þróað með sér matarfíkn) og fullt af öðrum samtökum sem geta hjálpað þér að heila sársaukann þinn ef þú ert tibúin/nn til þess.

Ég hvet þig eindregið með öllu mínu hjarta og velvilja að finna hugrekkið og styrkinn sem þú býrð yfir og ganga í þetta erfiða verkefni að gera upp sársauka fortíðarinnar, það er eina leiðin til þess að þú verðir frjáls og ferð virkilega að njóta þversagna lífsins. Þegar við deyfum erfiðu tilfinningarnar þá deyfum við líka þær góðu, við getum því miður ekki valið að vera bara alltaf glöð, við erum bara ekki hönnuð þannig. Það er eðlilegt að finna fyrir depurð, einmannaleika, reiði, þreytu, pirring, óöryggi og tilgangsleysi annað slagið en þegar þær eru farnar að stjórna öllu okkar lífi þá þurfum við að staldra við og fara aðeins að grafa í þessu óþæginlega.

Ég veit af persónulegri reynslu að þetta er eitt það erfiðasta sem maður gerir, að skoða sjálfan sig og fara í gegnum allar þessar erfiðu bældu tilfinningar sem ég hafði ekki hugmynd að ég ætti í farteskinu en uppskeran sem fylgir í kjölfarið er þess virði og frelsið sem þú manst að þú bjóst einhvern tímann yfir er innan seilingar, það er reynslan mín og þúsund annarra sem hafa leitast eftir að verða heilli og gengið í verkið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.