Við höldum áfram með fasta liðinn okkar Morgunvenjur þar sem við forvitnumst um hvernig heilsusamlegir Íslendingar byrja daginn. Þennan mánudagsmorgunn er það fasti penninn okkar hún Sara Snædís Ólafsdóttir sem situr fyrir svörum. Hún starfar hjá Fjárvakri ásamt því að kenna jóga í Hreyfingu. Hún hefur dansað ballet og nútímadans frá unga aldri hjá Klassíska Listdansskólanum og kláraði einnig ár við dansháskólann Laban í London. Síðustu ár hefur hún einbeitt sér meira að jóga og er ný komin frá Goa á Indlandi þar sem hún lærði jóga hjá Mark Darby, Kino MacGregor og Tim Feldmann.
Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?
Ég vakna oftast í kringum hálf 8 en suma morgna þá erum við snooze takkinn bestu vinir og þá fer ég á fætur klukkan 8. Ég vakna við vekjaraklukkuna mína en mitt helsta trikk er að breyta reglulega um hringitón svo að ég venjist ekki hringitóninum of vel því þá er hætta á að ég taki ekki eftir klukkunni og leyfi tónunum að verða part af draumunum mínum. Það getur verið mjög ruglandi og óþæginlegt að fara þannig inn í daginn!
Hvernig eru morgunvenjurnar?
Fyrsta sem ég geri þegar ég fer framúr er að kveikja undir hraðsuðuketlinum og hita vatnið fyrir grautinn minn og að fá mér volgt vatnsglas. Síðan finnst mér gott að gera nokkrar jóga æfingar en tíminn sem fer í þær fer allt eftir því hvenær ég vakna. Mér líður best ef ég næ að minnsta kosti að gera æfingar í 8-10 mínútur. Ég fer síðan í hina týpísku rútínu sem flestar konur þekkja og klára síðan að útbúa grautinn minn. Ég set 2 dl af höfrum í krukku, smá sjávarsalt og ca 1 dl af heita vatninu sem ég var búin að hita og læt standa í svolitla stund. Ég hræri síðan í grautnum og set í hann kanil, kókosmjöl, goji ber, rúsínur og hörfræ og stundum bæti ég útí sólblóma- eða graskersfræjum. Að lokum helli ég smá mjólk útí grautinn.
Ég tek grautinn með mér í vinnuna því mér finnst betra að borða morgunmat 1-2 klst eftir að ég vakna. Síðan fæ ég mér grænt te eða engifer te þegar ég hef lokið við grautinn.
Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?
Mér líður miku betur yfir daginn ef ég borða hollan morgunmat og næ aðeins að liðka mig við með jóga æfingum. Það finnst mér ómissandi og það hvetur mig fyrr á fætur. Annað sem hjálpar mér að flýta fyrir er að undirbúa íþróttatöskuna og veskið og jafnvel föt kvöldið áður svo að það fari ekki of mikill tími í að taka það til um morguninn.