Allir litir regnbogans…

Allt í lífinu hefur tvær hliðar. Sól // Máni, myrkur // birta, mjúkt // hart og svona mætti lengi telja. Allar andstæður þurfa á hvor annarri að halda til að varpa ljósi á hina, ef svo má að orði komast, annað getur ekki verið án hins, báðar hliðar jafn mikilvægar. Náttúran gerir ekki upp á milli dulmagnaðrar birtu mánans sem sveipar nóttina ævintýralegum bláma sínum, eða glampandi geislum sólarinnar sem dansa á haffletinum eins og glöð börn í ævintýralandi. Hvorutveggja býr yfir fegurð á sinn hátt. Ef sólin skini alla daga og jafnvel allan sólarhringinn, hvernig ættum við þá að hvílast? Við þekkjum það til dæmis vel hér á landi að eiga erfitt með svefn þegar sólin sest því sem næst ekkert yfir hásumarið. Of mikil sól getur líka verið til vandræða, þar sem jörðin, gróðurinn og við sjálf þurfum á vatni að halda til að geta lifað, og rigningin því nauðslynleg. Til að allt virki sem best þarf jafnvægi, Yin á móti Yang, bæði í náttúrunni sem og innra með okkur sjálfum. Við mannverurnar eigum það hinsvegar til að flokka veðrið, upplifanir og jafnvel tilfinningar okkar sem gott eða slæmt.

Það er eins með tilfinningar okkar og náttúruna, andstæðurnar gefa hvor annarri gildi. Til að kunna að meta gleði verðum við að þekkja sorg og ást getur snúist upp í hatur. Við viljum hinsvegar sem minnst vita af þeim tilfinningum sem okkur finnst erfiðar, reynum að forðast þær eftir fremsta megni og ríghöldum í allt sem vekur með okkur ánægju. Samkvæmt jógafræðunum er það að vilja ekki að hlutirnir breytist ein stærsta ástæðan fyrir vanlíðan okkar, því að eins og máltækið segir þá er allt breytingum háð og í raun ómöguegt að halda “Status Quo.” Það er hinsvegar svo fullkomlega eðlilegt að vilja halda í góðar stundir og tilfinningarnar sem þær vekja. Verra er hinsvegar skömmin og jafnvel sektarkenndin sem fylgir þeim tilfinningum sem okkur þykja síðri eins og reiði, pirringur, og jafnvel sorg hefur ákveðin leyfilegan líftíma.

Við notum allskonar aðferðir til að reyna að deyfa erfiðu tilfinningarnar þegar þær koma, kveikjum á sjónvarpinu, borðum, förum á Facebook, allt til að reyna að forðast að finna það sem er að gerast innra með okkur. Málið er hinsvega að þessar krefjandi tilfinningar fara ekki neitt ef við leyfum þeim ekki að koma upp á yfirborðið. Þær safnast saman í líkamanum sem spenna og vanlíðan og brjótast að lokum út á einhvern hátt, jafnvel sem veikindi. Við höfum öll heyrt sögur af fólki sem er búið að keyra sig áfram í of mikilli vinnu eða öðru álagi sem veikist svo alvarlega, og verður að endurskoða forgangsröðunina í lífinu. Jógafræðin, ásamt svo mörgum öðrum möguleikum til sjálfsræktar sem finnast í dag, hvetja okkur til að vera til staðar fyrir okkur sjálf. Að við leyfum okkur að finna og taka á móti öllum þeim tilfinningum sem við upplifum, ekki bara þessum “góðu”. Að sama skapi getur það, að vera til staðar fyrir ástvini eða vini án þess að reyna að breyta einhverju, verið það dýrmætasta sem þú getur gefið.

Við þekkjum það flest að vera í aðstæðum þar sem ástvini okkar líður illa og viljað gera allt sem við getum til þess að viðkomandi líði betur. En það að vera til staðar er dýrmætara en margur heldur. Að geta leyft viðkomandi að líða eins og honum líður, og einfaldlega hlustað. Oft þarf einstaklingurinn bara að fá að segja hlutina upphátt og kemst jafnvel sjálfur að niðurstöðu eða uppgvötvar nýjar hliðar á því sem hann er að glíma við. Við þurfum ekki að koma með neina töfralausn, það að fá að tala um það hvernig manni líður getur verið besta lækningin. Það að tala losar um þær tilfinningar sem eru í gangi og hleypir þeim út á heilbrigðan hátt. Allar tilfinningar hafa rétt á sér, við erum mannverur og því fylgir allskonar drama. Vissulega er ekkert sérstakt að missa stjórn á skapi sínu í reiði eða leyfa pirringi á ná yfirhöndinni í samskiptum við fólk, en það hjálpar okkur ekki að rífa okkur niður fyrir þær stundir sem það gerist. Það sem við getum gert er að leggja okkur fram um að gera betur næst þegar við lendum í svipuðum aðstæðum. Flest þráum við jafnvægi innra með okkur, og með sjálfsskoðun og vinnu þá trúi ég því að við færumst hægt og rólega í þá átt. Að við hættum að sveiflast úr einum öfgunum yfir í aðra og getum tekist á við lífið í sama jafnvægi og náttúran í kringum okkur.

Læt fylgja með hluta af einu af mínum uppáhaldsljóðum;

The Invitation by Oriah Mountain Dreamer

It doesn’t interest me what you do for a living. I want to know what you ache for and if you dare to dream of meeting your heart’s longing.

It doesn’t interest me how old you are. I want to know if you will risk looking like a fool for love, for your dream, for the adventure of being alive.

I want to know if you can sit with pain, mine or your own, without moving to hide it, or fade it, or fix it.

I want to know if you can be with joy, mine or your own; if you can dance with wildness and let the ecstasy fill you to the tips of your fingers and toes without cautioning us to be careful, be realistic, remember the limitations of being human.

I want to know if you can see Beauty even when it is not pretty every day. And if you can source your own life from its presence.

I want to know if you can live with failure, yours and mine, and still stand at the edge of the lake and shout to the silver of the full moon, ‘Yes.’

María Hólm