Í eldhúsinu má finna allt sem þarf til að útbúa heilsulind með heimatílbúnum húðvörum. Margt af þeim góða mat sem að við neytum er einning hægt að nota til að fegra okkur utan frá. Gott ráð er að bera ekkert á húðina nema hægt sé að borða það líka.
HRÁEFNI FYRIR HEILSULIND HEIMA
- Hunang: Græðandi, bakteríudrepandi og rakagefandi.
- Ólívuolía: Rík af andoxunarefnum, dregur úr bólgu og er græðandi.
- Hrásykur: Gróf kornin eru fullkomin og ódýr leið til að fjarlægja dauðar húðfrumur.
- Egg: Fullt hús af næringu!
- Sítróna: Rík af andoxunarefnum, græðandi og nærandi.
- Haframjöl: Bólgueyðandi, bakteríudrepandi og jafnvel talið sveppaeyðandi.
NÆRANDI BLÖNDUR FYRIR HEILSULIND HEIMA
HUNANG + ÓLÍVUOLÍA = DJÚPNÆRING/RAKAMASKI
Hitið örlítið ½ bolla af hunangi (ef þarf) og blandið saman við ¼ bolla af ólívuolíu. Makið því í hárið og setjið það í snúð í 30 mín. Skolið úr og þvoið vel með sjampói. Einnig gott að nota þessa blöndu á þurra húð.
Við bendum einning á þennan andlitsmaska
HUNANG + HRÁSYKUR = ANDLITS- OG LÍKAMSSKRÚBBUR
Takið jafnt hlutfall af hunangi og fínmöluðum hrásykri og blandið saman. Nuddið á raka húð með hringlaga hreyfingu þar til húðin roðnar. Skolið af með volgu vatni og berið gott rakakrem á húðina á eftir.
EGGJARAUÐA + SÍTRÓNUSAFI = ANDLITSMASKI
Blandið saman eggjarauðu og safa úr hálfri sítrónu. Berið á andlitið og passið að það fari ekki í augun. Leyfið blöndunni að vera á í 30 mín. Hreinsið af með volgu vatni og berið á ykkur rakagefandi krem. Nærandi maski, góður gegn bólum og/eða roða í húð.
HAFRAMJÖL + NÆLONSOKKUR = NÆRANDI BAÐ
Setjið handfylli eða tvær af haframjöli í sokk eða ofan í klipptar sokkabuxur. Bindið hnút fyrir gatið og setjið pokann undir vatnsbununa á meðan þið fyllið baðið. Liggið í baðinu í a.m.k. 20 mínútur og nuddið húðina af og til með hafrasokknum! Húðin verður silkimjúk og haframjölið getur haft mjög góð áhrif á exem, sólbruna o.fl.