Hvort sem við trúum á æðri mátt eða ekki þá held ég að við getum öll verið sammála því að við stjórnum ekki öllu og við vitum ekki allt. Þótt það hljómi ofboðslega einfalt og algjört „common sense“, þá er oft alveg ótrúlega auðvelt að pirra sig á þessu og upplifa kvíða og vanlíðan einmitt yfir þessu. Hversu oft dettur þú í áhyggjur, pirring eða depurð vegna þess að þú einfaldlega veist ekki útkomuna á einhverju í lífi þínu, hvort sem það er í sambandi við vinnu, peninga, samband eða framtíðarplön almennt?
Það er auðvelt að detta í einhversskonar vanlíðan yfir þessum hlutum þegar við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.
Við setjum oft þá kjánalegu kröfu á okkur sjálf að vita hvað gerist í framtíðinni, þegar við höfum alls ekki stjórn á því ein og sér og getum ekki vitað nákvæmlega hvað gerist. Á sama tíma er þetta mjög skiljanlegt þar sem mörg okkar erum alin upp við þetta hugarfar og okkar elskulegi framheili þarf nú að fá að monta sig aðeins á sinni færni að plana og skipuleggja!
Í framhaldi af þessu spyr ég hvernig væri það ef við myndum bara sleppa takinu á þessum væntingum okkar til að vita hvað gerist í framtíðinni varðandi ÖLL þessi mismunandi svið líf okkar? Hvernig væri það ef við myndum bæði treysta okkur sjálfum og framtíðinni til að vinna saman að vellíðan og góðri útkomu? Myndi okkur ekki líða mun betur hér og nú? Það er pínu kaldhæðnislegt að við séum sífellt að skapa vanlíðan í núinu af því að við erum að reyna að tryggja vellíðan í framtíðinni
Það hljómar væntanlega eins og algjör draumur fyrir marga að geta svifið í gegnum daginn án þess að detta í áhyggjuhringi yfir hlutum í framtíðinni sem hvíla í óvissunni. Enn það er hægt að þjálfa sig í þessu alveg eins og það er hægt að þjálfa sig í því að hafa áhyggjur! Það fer allt eftir því hvert maður beinir athyglinni! Og það er eitthvað sem maður getur þjálfað.
Nokkur góð ráð til að læra að sleppa takinu á óvissu:
- Praktískt ráð: Taktu eitt áhyggjuefni fyrir. Farðu yfir það sem þú getur stjórnað í stöðunni einmitt núna og gerðu allt sem þú getur gert í núínu. Skrifaðu jafnvel niður skrefin sem þú getur framkvæmt og skráðu það skýrt hjá þér hvenær þú getur tekið næsta skref. Hér kemur æðruleysisbænin sterk inn:
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
- Hugleiðsluæfing: Sestu eða leggstu niður á þægilegan stað þar sem þú ert í einrúmi. Beindu athyglinni að andardrættinum í smá stund, leyf’ðu honum að vera eins og hann er og fylgstu með honum. Því næst skaltu ímynda þér að vandamálið eða óvissan sem er að valda þér áhyggjum í rólegheitunum. Að lokum skaltu segja í huganum eða upphátt ,,sleppa, sleppa… sleppa” í rólegum takti og ímynda þér að þú sleppir áhyggjunum sem þú hefur út úr líkamanum, að þær svífi í gegnum og úr líkamanum þínum, handleggjum, fótum og höfði. Á meðan þið segið með rólegum takti ,,sleppa, sleppa…sleppa”
- Nýtt viðhorf: Þegar hlutirnir fara ekki eins og þú vilt, ímyndaðu þér þá að það sé önnur betri lausn þarna úti sem mun koma í ljós, það sé ástæða fyrir því að hlutirnir fóru eins og þeir fóru, því að það er betri lausn þarna fyrir þig. Þetta helst í hendur við það sem við höldum að sé okkur fyrir bestu er ekki endilega það besta fyrir okkur.
- Samkennd – Hugleiðsla: Stundum er mikilvægt að finna fyrir tilfinningunum/vanlíðan sem maður finnur fyrir í erfiðum óvissuaðstæðum. Með því að finna fyrir tilfinningunum, getum við sleppt þeim í stað þess að bæla þær niður eða forðast þær. Til þess er góð hugleiðsluæfing samkenndar frá Kristen Neff (2011):
- Sestu niður á þægilegan stað eða leggstu niður í einrúmi. Beindu athyglinni að andardrættinum og finndu fyrir honum alveg eins og hann er. Ekki reyna að breyta honum. Beindu síðan athyglinni að líkamanum, skannaðu yfir hann og finndu fyrir því hvort það séu einhversstaðar óþægindi í líkamanum. Einhversskonar sviði, spenna eða hnútur í höfði, maga og öxlum t.d. Beindu athyglinni rólega að þessum svæðum og finndu fyrir tilfinningunni. Því næst getur þú ímyndað þér að það opnist rými í kringum óþægindin, að það rýmist til í kringum þau og losni aðeins um þau. Á sama tíma getur þú sagt orð eins og ,,opna,opna” þar sem þú ímyndar þér að það opnist til í kringum óþægindin. Gerðu þetta í nokkra stund, allt frá 1 mín. – 10 mín. Því næst skaltu skanna í gegnum líkamann, sjá hvernig þér líður núna í samanborið við áður. Einbeittu þér síðan að andardrættinum, fylgstu með honum án þess að breyta honum og opnaðu síðan augun þegar þú eruð tilbúin.
Neff, K. (2011). Self-compassion: Stop beating yourself up and leave insecurity behind. Hodder and Stoughthon Ltd: London