Á haustin eru litasamsetningar náttúrunnar betri en nokkurt manngert málverk. Þetta er svo sannarlega árstíminn til að nýta náttúruna til skreytinga á heimilinu. Það er bæði afslappandi og skapandi verkefni að búa til skreytingar eftir eigin höfði. Fáðu þér göngutúr, líttu í kringum þig og skoðaðu hvað náttúran býður þér upp á. Taktu með þér klippur og körfu og safnaðu því saman sem grípur augað. Mundu þó að rífa ekki plöntur upp heldur klippa svo að það sjáist ekki á náttúrunni. Við fengum Hlín Eyrúnu Sveinsdóttur blómaskreyti til þess að sýna okkur hvernig hún býr til haustkrans úr skrúðgarði náttúrunnar.