BÓKAMOLAR Í boði náttúrunnar

MYND: https://www.flickr.com/photos/katerha/8435321969/

Í hverju tölublaði Í boði náttúrunnar þá skrifum við um bækur tengdar heilsu, vellíðan og lífsstíl og sem við höfum raunverulega lesið spjaldanna á milli og segjum lesendum frá. Nú birtum við bókamolana okkar á vefnum í fyrsta sinn í samstarfi við PENNAN – EYMUNDSSON ykkur til fróðleiks.


allrameinabot

HREYFING

– Allra meina bót

Ég hef lesið ófáar bækur um kosti þess að hreyfa sig reglulega en engin þeirra náði að draga mig upp úr sófanum fyrr en ég las Allra meina bót. Eftir fyrsta kaflann dreif ég mig út í göngutúr, enda ekki annað hægt eftir að hafa lesið að líf mitt lengist um tvær til fimm klukkustun´dir fyrir hverja klukkustund sem ég hreyfi mig. Í bókinni eru nýjar upplýsingar um jákvæð áhrif hreyfingar. Farið er um víðan völl og sýnt fram á að hreyfing hefur góð áhrif á líkama og sál, getur haft góð áhrif á einbeitingu, kvíða, depurð og fælni, hægt á öldrun og lengt lífið. Rætt er um hvað gerist í líkamanum við hreyfingu og hvernig öll líffæri líkamans verða fyrir áhrifum þótt við verðum ekki vör við það. Þá er farið yfir hvernig erfðir spila inni í og hafa áhrif á árangur þjálfunar. Allra meina bót er stútfull af gagnlegum upplýsingum, jafnt fyrir þá sem hreyfa sig ekki neitt en langar til að taka fyrsta skrefið í þá átt, og hina sem stunda mikla hreyfingu. Höfundarnir eru sænskir læknar sem kunna að skrifa á mannamáli.


thridja-midid-1

VELGENGNI

– Þriðja miðið

Streita og álag til lengri tíma tekur á og bitnar oft og tíðum á andlegri og líkamlegri heilsu og þeim sem standa okkur næst. Þriðja miðið, eftir fjölmiðlakonuna Arianna Huffington, var skrifuð eftir að hún rankaði einn daginn við sér, liggjandi í blóði sínu á gólfinu og vissi það eitt að hún gæti ekki haldið áfram að ganga fram af sjálfri sér. Hún tók U-beygju og ákvað að endurskilgreina hvað hugtakið velgengni táknaði í hennar huga. Í bókinni leggur hún gríðarlega miklá áherslu á góðan svefn, að stunda reglulega hugleiðslu og að við leitumst við að eiga innihaldsríkt og gott líf. Hún styður sína sannfæringu með vísindalegum rannsóknum á sviði sálfræði og svefnrannsókna sem fær mann til að leggja við hlustir. Það hafa allir gott af því að staldra við og endumeta það hvernig við hugsum, lifum og vinnum. Frábær bók fyrir alla sem vilja lifa betur!


taktu-til-l-fi-nu-icelandic-edition-b01eyjn09k

VELLÍÐAN

– Taktu til í lífi þínu

Það er hálfótrúlegt að tiltekt geti verið spennandi, en eftir lestur þessarar bókar muntu sannfærast! Frumkvöðullinn Marie Kondo kynnir eigin aðferðafræði, svonefnda KonMari-aðferð, og leiðir lesendur í allan sannleika um hvernig á að gera allsherjar tiltekt í eitt skipti fyrir öll þannig að aldrei þurfi að taka til aftur. Hljómar það ekki nokkuð vel? Bókin kennir kennir þér að nálgast tiltektina á heildrænan hátt og slær alls kyns tiltektarmýtur út af borðinu, eins og að henda einum hlut á dag eða taka eitt horn í einu. Slíkt virkar ekki! Til að útrýma draslinu til frambúðar þarf að byrja á að breyta viðhorfinu og gera ákveðna hugarfarsbreytingu; síðan skal henda eftir kúnstarinnar reglum og skipuleggja rýmið vandlega að lokum, allt í einni lotu. Þegar óreiðunni hefur verið útrýmt gefst frekara rými til að lifa lífinu!


download-2
HÚSRÁÐ

– Allt á hreinu

Hver kannast ekki við það að koma heim eftir langan dag og allt er á hvolfi? Uppvaskið síðan um morguninn hefur þurft að bíða, að þvottinum ógleymdum. Þú ert svo þreytt/ur að þú getur ekki hugsað þér að takast á við húsverkin og þau verða því að bíða einn dag til viðbótar. Allt á hreinu er einmitt hugsuð til að koma í veg fyrir eða fækka þessum stundum. Bókin er stútfull af húsráðum sem margir telja almenna þekkingu en eiga það til að gleymast í amstri nútímans. Húsráðin eiga það sameiginlegt að vera einfaldar og umhverfisvænar leiðir til að halda heimilinu hreinu og skipulögðu. Allt á hreinu hjálpar sem sagt fólki að – vera með allt á hreinu þegar kemur að umönnun heimilisins. Dæmi um góð ráð úr bókinni eru m.a. að þurrkuð eggjaskurn getur verið gott kalk fyrir blómin og að sokkabuxur séu kjörnar til að pússa yfir skó og fá flottan gljáa. Þessi bók minnir okkur á það að góð húsráð falla aldrei úr gildi!

Höfundur: Margrét D. Sigfúsdóttir


PENNINN X Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR

Tögg úr greininni
, ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.