Bókamolar

Í hverju tölublaði Í boði náttúrunnar er að finna fastan lið þar sem við tökum saman áhugaverðar og fróðlegar bækur sem okkur þykir vert að deila með lesendum. Hér fyrir neðan getið þið fræðst um þá fimm titla sem nýútgefna sumarblaðið okkar skartar. 

HUGLEIÐSLA
– NÚVITUND

Núvitund er sú aðferð hugleiðslu sem hefur verið hvað mest rannsökuð og er talin jafnáhrifarík og lyfjagjafir til forvarnar þunglyndi! Ég hafði reynt núvitund áður en aldrei stundað hana af viti og var því opin fyrir því að læra eitthvað nýtt þegar ég tók upp bókina Núvitund: Hagnýt leiðsögn til að finna frið í hamstola heimi. Bókin kom mér skemmtilega á óvart, hún er auðlesanleg og inniheldur 8 vikna nútvitundarprógramm sem felur í sér alls kyns hugleiðslur og áhugaverðar lesningar. Lesendum eru gefin einföld verkefni sem eru geranleg en á sama tíma stórbrotin. Hún hentar bæði byrjendum í hugleiðslu og lengra komnum!

Höf. Mark Williams og Danny Penman

Fæst í Forlagið


NÁTTÚRAN
– FUGLAR

Ég man hversu hrikalega spennt ég var í fyrsta skipti sem ég fann fuglahreiður sem barn. Ég heimsótti það daglega, dáðist af eggjunum og þegar ungarnir svo klöktust út beitti ég öllum mínum viljastyrk í að taka þá ekki upp, eins sætir og þeir nú voru. Þessi barnslega aðdáun kviknaði aftur við lestur bókarinnar FUGLAR, sem er skrifuð af fuglanördinum Hjörleifi Hjartarsyni og fallega myndskreytt af Rán Flyering. Bókin fjallar um fugla á fræðandi og fyndinn hátt og kallar fram hjá lesendum sannan áhuga á dýralífi íslenska himinsins. Frábær bók fyrir alla fjölskylduna!

 Höf. Hjörleifur Hjartarson

Fæst í Forlagið


HEILSA
– SÚRKÁL

 Að sýra grænmeti er með sanni sagt listgrein. Dagný Hermannsdóttir höfundur bókarinnar Súrkál fyrir sælkera er ötull talsmaður súrkáls, enda fann hún hvernig það hjálpaði meltingunni. Dagný hefur sett í sölu vörulínu af súrkáli sem er afskaplega bragðgott. Hún hefur haldið námskeið um súrkálsgerð og nú gefið út þessa frábæru bók. Bókin sýnir í einföldum en nákvæmum skrefum hvernig allir geta orðið súrkálsmeistarar og inniheldur bókin einnig uppskriftir af alls kyns spennandi leiðum fyrir lengra komna.

Höf. Dagný Hermannsdóttir

Fæst í Forlagið


HANDVERK
– EINRÚM

Kristín Gunnarsdóttir arkitekt þróaði garnið Einrúm fyrir nokkrum árum sem er mjúk blanda af íslenskri ull og tælensku silki. Nú hefur Einrúm gefið út prjónabók sem færir þetta handverk svo sannarlega inn í nútímann með fallegri hönnun og ljósmyndum. Uppskriftirnar í bókinni, sem eru peysur í alls kyns gerðum á fullorðna, eru svo klassískar og smekklegar að jafnvel ég, sem er með tíu þumalfingur, ætla að láta á reyna! Svo er líka komin út önnur jafnfalleg bók frá Einrúmi sem inniheldur prjónauppskriftir á börn.

Höf. Kristín Brynja Gunnarsdóttir.

Fæst í Pennin Eymundsson


FERÐALÖG
– 171 ÍSLAND

Páll Ásgeir Ásgeirsson, fararstjóri, útivistarmaður og ferðabókahöfundur fjallar um 171 stað í þessari fróðlegu og skemmtilegu ferðahandbók. Bókin er fullkomin til að hafa með sér í ferðalagið í sumar en hún sýnir bæði nýjar hliðar á vinsælum áfangastöðum og aðrar gersemar, sem hingað til hafa verið á fárra vitorði. Páll gerir úttekt á áhugaverðum stöðum ásamt því að benda fólki á hvar hægt er að staldra aðeins við úr alfaraleið og njóta. Laugum og baðstofum eru einnig gerð sérstök skil ásamt sögu lands og þjóðar. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Höf. Páll Ásgeir Ásgeirsson

Fæst í Forlagið 


 

SaveSave

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.