Á grænni hillu – Rakel Halldórsdóttir

UMSJÓN: Dagný B. Gísladóttir
LJÓSMYND: Hallur Karlsson

Rakel Halldórsdóttir, eigandi Frú Laugu, bændamarkaðar á Laugalæk og Óðinsgötu lítur alltaf vel út enda hefur hún tileinkað sér heilbrigðan og grænan lífstíl sem felur í sér að hún hugsar ekki einungis hvað hún setur ofan í sig heldur einnig hugsar hún vandlega um hvað hún setur á sig. 

HÚÐ

Ég er mjög sérvitur þegar kemur að umhirðu húðar og hárs og fer ekki eftir neinu öðru en eigin tilfinningu og upplifun. Strax á unglingsaldri varð mér mjög umhugað um að halda húðinni fallegri og hef prófað mig áfram með ýmislegt í þeim efnum. Ég hef lært að hlusta á líkamann og læt húðina segja mér hvað hún vill. Ef mér líður vel í húðinni og hún ljómar og er falleg, þá tel ég mig vera á réttri braut varðandi umhirðu hennar.

Ég hef notað sama andlitskremið, Ultra daytime smoothing cream frá Neostrata (spf 15, 10 AHA), frá því um tvítugt og nota það alltaf á daginn. Á sumrin gæti ég mín vel á sólinni og nota sólarvarnarkrem aukalega ofan á þetta. Ég fer alltaf í heitt bað eða sturtu á kvöldin og hreinsa um leið andlitið með Aveda tourmaline charged exfoliating cleanser og hreinsa af augunum með augnhreinsikremi með kamillu frá Body Shop. Ég blæs á sögur um að heitt bað þurrki húðina, það er ekki mín reynsla; því heitara því betra. Eftir kvöldbaðið ber ég þunnt lag af Moisture Surge Intense frá Clinique á andlitið. Húðina á líkamanum hreinsa ég eingöngu með sturtugeli frá Neutral. Fyrir kvöldbaðið þurrbursta ég líkamann með löngum strokum í átt að hjartanu með þar til gerðum grófum hönskum. Í baðinu nudda ég svo andlitið og hálsinn með andlitsnuddrúllu með gúmmínöbbum og húðina á líkamanum með líkamsnuddpúða, líka með gúmmínöbbum. Hanskarnir, rúllan og púðinn eru frá Body Shop.

Þessi aðgerð hljómar ef til vill sem hið mesta fyrirtæki en þetta er hluti af minni rútínu og þetta tekur mig enga stund. Þurrburstun, heitt bað og nudd með gúmmínöbbum sem örva húðina og sogæðakerfið er allt til þess fallið að örva blóðrásina, en það er að mínu mati einhver mikilvægasti þátturinn í því að viðhalda fallegri húð og líkama og almennu heilbrigði. Það er góð blóðrás sem gerir húðina ljómandi, frísklega og fallega.

HÁR

Þegar kemur að hárinu elska ég Aveda-sjampóin og nota þau í ýmsum samsetningum. Á milli nota ég Neutral-sjampó og hárnæringu, eða jafnvel sturtugelið fyrrnefnda fyrir sjampó (ég nota það eingöngu á yngstu börnin). Þegar ég hef þurrkað hárið eftir bað nudda ég Moroccan Argan Oil frá Ogx í allt hárið, sem gefur glans og mildan ilm. Þegar ég greiði hárið á morgnana ber ég svolítið af Aveda Brilliant Emollient Finishing Gloss í hárið fyrir glans og fallega áferð. Svo klippi ég mig sjálf eða læt manninn minn gera það og hef gert í áratugi.

ILMUR

Ég nota lyktarlauan svitalyktareyði frá Neutral og á meðan húðin er enn rök og heit eftir baðið ber ég á hana líkamskrem frá Nivea með lífrænni argan-olíu, sem er létt og notaleg, með mildum ilmi. Í lokin set ég svo örlítið af ilmkremi á háls, axlir og upphandleggi (þetta geri ég þó ekki ef ég er með barn undir 18 mánaða aldri). Þessa dagana nota ég Acqua di Gioia-líkamskremið frá Giorgio Armani. Ég er mjög vandlát þegar kemur að ilmi og nota aldrei ilmvatn heldur eingöngu líkamskrem með mildum og ferskum ilmi. Ég fer aldrei upp í rúm öðruvísi en hrein, mjúk og hóflega ilmandi.

FARÐI

Þegar kemur að farða þá nota ég Inner Light Concealer frá Aveda á andlitið. Ég hef notað það í fjölda ára. Ég nota aldrei meik og aldrei púður, hvorki fast né laust (sem mér þykir loka húðinni og þurrka hana þrátt fyrir að annað sé sagt). Á augun nota ég eingöngu maskara, og hef prófað ýmsar tegundir. Aðalatriðið er að hann sé lyktarlaus og erti ekki augun. Svo er ég alltaf með rauðan varalit og er afar vandlát á litinn, L’ORÉAL Color Riche nr. 115 Rouge Coral er liturinn minn. Ég nota alltaf BLISTEX DCT varasalva undir varalitinn.

ANNAÐ

Þegar mér þykir húðin í andlitinu þurfa sérstaka umhyggju og næringu ber ég eitthvað af eftirfarandi á húðina nokkru áður en ég fer í bað og læt liggja á henni um stund, allt eftir því hvað mér þykir hún þurfa: E-vítamín beint úr E-vítamínbelg, sítrónusafa úr lífrænni sítrónu, lífrænt hrátt hunang í þykku lagi, þorskalýsi beint úr flöskunni eða belg, hrátt kakó blandað með smávegis vatni. Stundum blanda ég tvennu af þessu saman eins og hunangi og kakói eða hunangi og sítrónusafa. C-vítamínið úr sítrónu vinnur líka vel með E-vítamíninu. Einnig stunda ég sjálfs-punktanudd í andliti þegar ég kem því við. Það er afar slakandi en um leið styrkjandi fyrir húð og vöðva í andlitinu.

NÆRING

Ég gæti þess að fá nóg járn til að tryggja að ég hafi nægilegt blóð og góða getu til súrefnisupptöku og borða reglulega fæðu sem örvar og styrkir blóðflæði, eins og hvítlauk og annan lauk, radísur, appelsínur, dökkt súkkulaði, cayenne-pipar, sólblómafræ, graskersfræ og hnetur, ólífur, gojiber, engiferrót, melónu, rautt greip, tómata, apríkósur, lax, silung og annan feitan fisk, avókadó, grænkál, spínat, bláber, rauðrófur, paprikur, baunir og krydd eins og óreganó, steinselju, rósmarín og túrmerik.