Að raða í bakpoka fyrir gönguferð

Raðað í bakpoka

HVERNIG Á AÐ RAÐA Í BAKPOKA?

GÓÐ RÁÐ TIL AÐ HAFA Í HUGA ÞEGAR RAÐAÐ ER Í BAKPOKA FYRIR GÖNGUFERÐINA.

ÞYNGD: Reynið að taka með ykkur eins lítið af búnaði og hægt er. Gott ráð er að raða fyrst öllu dótinu á stofugólfið og skoða vel hvort það sé virkilega nauðsynlegt að taka allt með.

RÝMI: Notið plássið vel – lofttæmið mat, föt, svefnpoka og aukahluti.

SKIPULAGNING: Setjið þá hluti sem þið þurfið ekki að nota fyrr en á áfangastað neðst í bakpokann t.d. aukafatnað sem á að nota á náttstað og svefnpokann. Hafið þá hluti sem þið þurfið að nálgast auðveldlega eins og áttavita og myndavél efst eða þar sem er aðgengi er auðvelt. Munið eftir því hvar þið setjið höfuðljósið. Þá þurfið þið ekki að leita af því þegar myrkrið skellur á.

JAFNVÆGI: Hafið þunga hluti nálægt hryggnum til þess að halda jafnvægispunktinum í lagi. Líkamsstaðan verður betri og gangan jákvæðari fyrir vikið.

VATNSÞÉTTLEIKI: Vatnsþéttir pokar eru dásamlegir. Þeir fást í flestum útivistarbúðum og geta gert kraftaverk þegar rignir og bleyta verður áskorun. Fátt er betra en að vita af hlutunum sínum þurrum þegar komið er á náttstað.

DRYKKJARVATN: Drekkið nóg af vatni! Mikilvægi vatnsdrykkju er afskaplega stór þáttur í vel heppnaðari göngu. Ef þið gleymið að drekka vatn á göngu þá mæli ég með vatnspokum með drykkjarslöngu sem þið getið sett í bakpokann ykkar. Þessir pokar eru auðveldir í notkun, fást í flestum útivistarbúðum.

AÐ LOKUM: Gætið þess að fylla vel út í neðsta hlutann af bakpokanum og hafa frauðdýnur og tjaldið ykkar utan á honum.

Góða ferð og njótið þess að búa til flottar minningar á göngu um landið.