Að trúa á það góða

Við könnumst flest við það að vera í þeim aðstæðum í lífinu að bíða eftir niðurstöðum í einhverju sem er okkur mikilvægt. Bíða eftir niðurstöðum, útkomu eða vita hvort eitthvað sem okkur dreymir um muni ganga upp. Hvort sem það er að komast inn í skóla, fá atvinnustöðu, fá samþykkta umsókn, eignast nýjan vin eða ástvin, vita niðurstöður úr prófum eða rannsóknum. Bara hvað sem er sem er okkur mikilvægt og við höfum ákveðna ósk um útkomu í því.

Þetta geta verið ótrúlega erfiðar aðstæður, að vera í biðstöðu eftir einhverju sem er okkur svo ótrúlega mikilvægt. Eitthvað sem varðar drauma okkar og framtíð og snertir oft hjarta okkar. Ssannleikurinn er samt sá að í þessari stöðu vitum við einfaldlega ekki hvað kemur út úr þessu. Það kann að hljóma eins og einfalt mál en oft á tíðum er það ekki auðvelt að horfast í augu við. Það getur verið erfitt að sætta sig við það að við höfum ekki stjórn á niðurstöðunum og að eitthvað fyrir utan okkur ræður þeim. Einmitt þessi staðreynd að við stjórnum þeim ekki getur valdið okkur pirringi og jafnvel vonleysi. Það getur verið að við upplifum eins og eitthvað í ytra umhverfi hafi áhrif á hamingju okkar, að hamingja okkar sé háð þessari niðurstöðu sem við höfum ekki stjórn á.

Það getur verið auðvelt að túlka hlutina á slíkan hátt, sérstaklega þegar við erum í biðstöðu eftir ákveðinni útkomu í lífi okkar, að ytri aðstæður stjórni hamingju okkar. En spurningin er hvort okkur langi að halda áfram að trúa því. Að trúa því að þessi ákveðna niðurstaða ráði úrslitum um hamingju okkar. Eða erum við tilbúin til að trúa öðru? Erum við tilbúin til að líta á hlutina í öðru ljósi? Erum við tilbúin til að túlka aðstæðurnar á annan hátt?

Erum við mögulega tilbúin til að trúa því að þótt þessi útkoma sem við leitumst eftir, verði ekki að veruleika, séu aðrar útkomur og aðrir valkostir í boði í lífi okkar, tengdu þessu málefni sem geta gert okkur hamingjusöm, sumar jafnvel ennþá meira.

Einmitt með því að breyta viðhorfi okkar í þessa átt, að trúa því frekar að sama hvaða útkoma kemur í ljós á þessu sviði lífs okkar þá muni hún verða okkur til góðs, erum við að hafa áhrif á hamingju okkar en ekki ytri aðstæður. Með því að breyta viðhorfi okkar og trú á framtíðinni getum við haft áhrif á líðan okkar hér og nú, sem er oft mikil þörf á þegar okkur líður illa í biðstöðu eftir ákveðinni útkomu í lífi okkar.

Ímyndið ykkur hversu frelsandi það yrði að geta losað sig frá ákveðinni útkomu, ákveðinni niðurstöðu sem við sækjumst eftir. Hversu frelsandi það væri að geta trúað því að hvað sem kemur út úr niðurstöðum lífs okkar þá mun niðurstaðan vera góð fyrir okkur. Þetta er ekkert nema viðhorfsbreyting, við erum ekki að reyna að stjórna eða breyta útkomum lífs okkar, heldur einungis trú okkar á framtíðar upplifunum okkar.

Megið öðlast þann styrk í erfiðum aðstæðum í lífi ykkur að trúa því að þið eigið allt það besta skilið.

Sigrún

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.