Ég fór í fyrsta skipti til sálfræðings þegar ég var 17 ára. Ég hafði verið þunglynd í grunnskóla en þjáðist á þessum tíma aðallega af miklum kvíða. Sá kvíði fólst í því að ég átti erfitt með að setja mig í ókunnar aðstæður, eiga í samskiptum við fólk og kynnast nýju fólki, fara út fyrir þægindarammann og raunar almennt að fúnkera í lífinu.
Mér fannst hins vegar að lífið ætti ekki að vera svona erfitt og tók þessa ákvörðun því af sjálfsdáðum. Ég fór tvisvar sinnum að hitta sálfræðinginn þar sem ég lýsti hreinskilningslega upplifun minni af því að alast upp við alkóhólisma og verða fyrir einelti í grunnskóla og grét. Í lok seinna skiptisins tilkynnti sálfræðingurinn mér að hún teldi mig ekki þurfa á þunglyndislyfjum að halda.
Ég varð orðlaus við þessa yfirlýsingu enda var ég ekki komin til hennar til þess að fá þunglyndislyf heldur til þess að skilja sjálfa mig og það sem ég hafði gengið í gegnum. Þessu var þó ekki lokið því næst kom greiningin en að hennar mati var vandamál mitt það að mér leiddist. Hún spurði því næst hvort það væri ekki eitthvað félag í skólanum mínum sem ég gæti gengið í. Ég yfirgaf skrifstofu hennar ákveðin í að heimsækja þessa manneskju ekki aftur.
Ég verð að játa að ég er ennþá reið yfir þessu atviki. Ég tók fyrsta skrefið sem nauðsynlegt er að taka þegar einstaklingi líður illa; ég leitaði mér hjálpar. Ég taldi sálfræðinginn vera að hlusta á mig, skilja mig, en þess í stað greindi hún mig líkt og um hlut eða hugtak væri að ræða en ekki manneskju sem hefði mögulega eitthvað vit á því sem hún var að ganga í gegnum.
Hefði sálfræðingurinn spurt mig frá byrjun hverju ég væri að leitast eftir þá hefðum við kannski komist að annarri niðurstöðu í sameiningu. Þess í stað varð ég afar vonbrigðin og gekk þaðan út sár og svekkt. Það sem gerir mig reiðasta er að þetta atvik varð ekki til þess að ég leitaði mér aðstoðar fagmanneskju aftur fyrr en að sjö árum liðnum.
Sem betur fer hef ég nýtt tímann vel síðastliðinn fimm ár og kynnst frábæru fólki sem hefur hjálpað mér að ná gríðarlegum árangri með hjálp viðtalsmeðferðar, sem er það sem ég var að leitast eftir á sínum tíma. Þetta ferli varð til þess að ég uppgötvaði að ég var raunverulega ekki að vinna mig út úr þunglyndi og kvíða heldur áföllum úr barnæsku sem urðu þess valdandi að ég þjáðist, eðlilega, af vanlíðan sem lýsti sér í þunglyndi og kvíða.
Ég veit að það eru engar töfralausnir þegar kemur að slíkum áföllum því það tekur langan tíma að vinna í sjálfum sér og skilningurinn eykst hægt og rólega eftir því sem árin líða. Þó enn sé langt í land og margt óuppgert líður mér hins vegar margfalt betur með sjálfa mig og lífið í dag vegna þess að ég leitaði mér hjálpar.
Ég hvet þig til þess að gera hið sama!