Asteya er þriðja Yaman í jógafræðunum eða Jógasútrum Patanjali og þýðist sem “að stela ekki.”
Þegar við hugsum um þjófnað sjáum við jafnvel fyrir okkur skugglega náunga sem læðast um að nóttu og ræna mann og annan, eða eitthvað spennandi eins og vel klædda og klára einstaklinga sem leggja á ráðin um að koma höndum yfir ómetanleg listaverk eða brjótast inn í bankahvelfingu fulla af gulli. En það er hægt að stela fleiru en peningum eða eigum annarra. Asteya biður okkur um að hafa í huga að taka ekkert það sem ekki er af frjálsum vilja gefið.
Í hinum Vestræna heimi hættir mörgum til að mæla hamingju útfrá því hversu mikið við eigum af veraldlegum hlutum. Hversu stórt er húsið okkar, eða eigum við flottan bíl. Fara þarf reglulega erlendis, helst tvisvar á ári og pósta svo öllum herlegheitunum á einhverjum af þeim fjölmörgu samfélagsmiðlum sem eru fastur hluti af tilveru nútímamannsins. Þessar sjálfskipuðu kröfur verða svo til þess að okkur finnst við sífellt vera að missa af einhverju. Þær skapa innra með okkur tómarúm sem við reynum svo stöðugt að fylla með meira og meira dóti. Við horfum til allra í kringum okkur og finnst við ekki eiga nóg, að við séum ekki nóg. Þessi vanmáttartilfinning getur fengið okkur til að finnast að við þurfum stöðugt að gera meira, segja meira, vera meira en fólkið í kringum okkur. Sem dæmi má nefna vinkonu þína sem er að segja vinahópnum frá ferð sem hún er búin að plana næsta sumar. Þú stoppar hana í miðri frásögn og ferð að segja frá því að þú hafir nú þegar farið á þennan stað, og í framhaldi að segja frá því hvert þú sért að fara í þínu næsta fríi. Með þessu ertu að stela athyglinni og ánægjunni af komandi ferð frá vinkonu þinni, færa fókusinn yfir á þig og hvað þú og það sem þú ert að fara að gera sé miklu meira spennandi. Þetta þýðir ekki það að þú sért vond manneskja, oft bara áttum við okkur ekki á því hvað við erum að gera. Með því að gefa vini okkar tíma og athygli til að segja frá því sem hún er að fara að upplifa leyfum við henni að njóta stundarinnar, gefum henni og hennar upplifunum svigrúm. Við getum svo sagt frá okkar áætlunum seinna í samtalinu, eða einfaldlega bara seinna.
Við stelum ekki bara frá öðrum, heldur einnig jörðinni og þar með komandi kynslóðum. Hvernig viljum við skilja við umhverfið okkar, við hvaða aðstæður óskum við börnunum okkar að búa. Gríðarleg mengun hlýst til dæmis af verksmiðjubúskap þeim sem stundaður er í dag. Höfin eru stútfull af plasti og allskonar rusli. Þetta hefur svo áhrif á lífkerfi sjávar og þær fiskafurðir sem við neytum. Regnskógarnir, sem sjá til þess að jörðin sé lífvænleg, sjá til þess að við getum andað að okkur súrefni, eru höggnir miskunnarlaust niður til að búa til svæði sem nýtt eru beint eða óbeint til ræktunar á kjöti til manneldis. Ruslahaugar eru fullir af tölvum, símum og allskonar tækjum og förgun þeirra er hættuleg heilsu þeirra sem við það starfa. Mat er hent í tonnavís en samt svelta hópar innan vestrænna samfélaga, hvað þá þegnar landa sem eru verr sett.
Við eigum í raun ekkert á meðan við dveljum hér á jörðinni. Allt það dót, föt og svo framvegis sem við verslum fer klárlega ekki með okkur í gröfina. Næst þegar við VERÐUM að eignast nýjan síma, eða skó, væri gott að staldra aðeins við og spyrja okkur hvort þetta sé eitthvað sem við mögulega gætum verið án. Framtíð barna okkar, komandi kynslóða velta á því að við hægum aðeins á okkur og minnkum þá gengdarlausu neyslu sem talin er eðlileg í dag.
Við getum einnig stolið frá okkur sjálfum. Með því að vera með fókusinn á allt það sem okkur vantar, eða eigum að vera búin að áorka, erum við að auka á okkar innra óöryggi og viðhalda þeirri tilfinningu að við séum ekki nóg. Við erum að stela frá okkur sjálfum ánægjunni yfir því að vera það fallega og einstaka eintak sem birtist eingöngu í einni mynd. Með því að færa fókusinn frá ytri kröfum að okkar innra lífi, velja að njóta þess sem er, að gera okkar besta til að vera hlýjar og kærleiksríkar manneskjur, þá erum við að gefa okkur leyfi til þess að vera eins og við erum. Þegar við gefum okkur sjálfum þetta leyfi, finnum sátt innra með okkur þá fer ytra áreiti að hafa minni áhrif á hamingju okkar. Við þurfum ekki að afneita öllum nútíma þægindum eða flytja i helli til að lifa eins og munkar til að líða svona, heldur hugsa okkur aðeins um. Einföldum lífið og veltum því fyrir okkur hvaða fótspor við viljum skilja eftir okkur, bæði á jörðinni sjálfri sem og í hjörtum þeirra sem við deilum lífinu með, hvort sem þeir eru okkur samferða i lengri eða skemmri tíma.
Læt að lokum fylgja með tilvitnun eftir Sir Thomas Browne;
All the wonders you seek are within yourself