Í síðasta pistli lofaði ég naflaskoðun. Hluti af því ferli var að gera lesendakönnun og þannig vonaðist ég til að geta gert mér enn betur grein fyrir því hvernig lesendahópurinn væri saman settur; á hverju þið hefðuð áhuga, væruð ánægð með og hvað ykkur fyndist að betur mætti fara.
Það hljómar kannski örlítið sjálfhverft en ég hef alla tíð valið og unnið efni út frá eigin áhuga og því sem mér finnst verðugt og mikilvægt að fjalla um í blaðinu hverju sinni. Það getur jú verið mjög þægilegt að þekkja lesandann sinn út og inn, þ.e.a.s. mig, en að sama skapi er auðvitað líka mikilvægt að líta fram fyrir eigið nef og fara í samtal við ykkur, lesendur. Ég vil í fyrsta lagi nota tækifærið og þakka öllum (700 manns) sem gáfu sér tíma til að svara lesendakönnuninni og gefa mér ómetanlega endurgjöf sem hefur bæði veitt mér hvatningu til að breyta og bæta en líka staðfest að við erum á réttri braut. Það sem liggur sem sagt fyrir er: að gera gott blað betra. Það verður ekki gert í einu vetfangi en þið sjáið vonandi smávægilegar breytingar í næstu blöðum.
(SJÁ FRÁBÆRT ÁSKRIFTAR VORTILBOÐ)
Til gamans langar mig að deila nokkrum niðurstöðum með ykkur:
– Uppáhaldsefnisþættirnir eru: 1. matur, 2. heilsa, 3. ræktun, 4. handverk og 5. umhverfismál.
– Lesendur vildu sjá meira af: 1. andlegri heilsu, 2. ræktun, 3. jóga og hugleiðslu, 4. líkamlegri heilsu, 5. umhverfismálum.
- 75% lesenda lesa næstum því ALLT blaðið.
Um leið og ég vona að þið njótið nýja vor-blaðsins ætla ég að enda á uppáhaldsspurningunni úr könnuninni: Hvað finnst þér best við blaðið?
„Mér finnst þetta vera eina tímaritið sem er peninganna virði að kaupa.“
„Ég elska blaðið — pappírinn, vinnan, myndirnar og hversu fjölbreytt og fræðandi það er.“
„Fallegasta tímarit á landinu og þó víðar væri leitað.“
„Sjálfbærnihugsjónin.“
„Áferðarfallegt og eitthvað yndislegt … get ekki útskýrt það.“
„Áhugavert efni, tillögur að hlutum/stöðum, samfélagsábyrgð og fallegt yfirbragð.“
„Það er fallegt, laust við yfirborðskennd, áhersla á sjálfbærni, nýtingu og raunverulega hollustu.“
„Hugsjónin og kærleikurinn.“
„Það er svo fallegt og veglegt. Það eru líka alltaf áhugaverðar greinar og viðtöl.“
„Mér finnst mjög gott að koma við þennan frábæra endurunna pappír og finna lyktina, það veitir álíka gleði og að fá góða bók. Ég tel líka að blaðið veki fólk til umhugsunar um umhverfið okkar.“
„Áhersla á íslenska náttúru og aðstæður.“
„Hvetur til andlegrar og líkamlegrar sjálfsræktar.“
Vorblaðið er stútfullt af áhugaverðum greinum um ræktun, heilsu og umhverfismál. Meðal annars köfum við djúpt ofan í plastneyslu í heiminum og tökum á því áhugaverða listræna vinkla sem og hvað er hægt að gera betur. Einnig er kafli um ræktun þar sem við kíkjum í fallegt gróðurhús í Mosfellsdal, lærum meira um ræktun basilika, radísa og blóma. Þá kynnum við okkur minimalískan lífstíl, gefum góðar uppskriftir og kynnum okkur fyrirbærið víxlböð sem margir nota í heilsueflandi tilgangi. Að auki kynnum við okkur heilsueflandi ferðir í boði á Íslandi, hittum áhugavert par sem siglir um heiminn á skútu! Þetta og margt fleira!
SÉRSTAKT VORTILBOÐ Á ÁSKRIFT – SMELLTU HÉR TIL AÐ SKOÐA
kv. Guðbjörg Gissurardóttir