Bókamolar

https://flic.kr/p/268dWSN

Það er alltaf kærkomin stund að setjast niður með góða bók og því tilvalið að gleðja sjálfan sig nú eða einhvern nákominn með vel valinni bók. Eins og venjan er í hverju tölublaði Í boði náttúrunnar þá fjöllum við stuttlega um nokkrar áhugaverðar og fróðlegar bækur. Hér fyrir neðan má sjá þær fjórar bækur sem við fjölluðum um í sumarblaðinu 2019.

 

Krossgötur

Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi

Hvar á Íslandi leynast álfar? Í þessari bráðskemmtilegu bók er farið í máli og myndum yfir fjölda staða þar sem álfar eiga að búa.
Við höfum öll heyrt sögur af samskiptum álfa og manna, af tækjum sem biluðu þegar hrófla átti við álfasteini eða álfahól. Álfasteinar eru nefnilega allt í kringum okkur og hafa haft áhrif á borgarlandslagið, skemmst er að minnast álfhólsins í Kópavogi, en hér er t.d. rakin saga hans.
Í bókinni er fjallað um alls fimmtíu og fjóra álfasteina, huldufólkskletta, dvergasteina og aðra bannhelga staði um allt land.

Höfundur texta: Bryndís Björgvinsdóttir
Ljósmyndir: Svala Ragnarsdóttir

Fæst hér


Þegar kona brotnar

– og leiðin út í lífið á ný

Við heyrum æ meir um kulnun og kvíða. Eru þetta tískuorð eða óhjákvæmilegur fylgifiskur nútímalífsstíls, samanburðar á félagsmiðlum og því að vera sítengdur? Í þessari áhugaverðu bók er fjallað um kulnun og tekin viðtöl við nokkrar ólíkar konur sem eiga það sameiginlegt að hafa „klesst á vegg“.
Hér er fjallað um hvernig best er að vinna sig til baka og hvaða bjargráð standa til boða.
Í bókinni er einnig fjallað um konur fyrri tíma og hvernig þær brugðust við örmögnun. Það er hughreystandi að lesa um konur sem hafa náð að sigrast á erfiðleikunum.

Höfundur: Sigríður Arnardóttir

Fæst hér

Það sem allir umhverfissinnar þurfa að vita um kapítalisma

Handbók alþýðu um kapítalisma og umhverfismál

Það er sífellt fjallað um hagvöxt, eins og hann sé einhvers konar frumskilyrði svo samfélagið dafni, sem er rangt samkvæmt höfundum þessarar bókar.
Hér er farið ofan í saumana á hugmyndum kapítalismans, og tengslum hans við umhverfisvána. Krafan um endalausan hagvöxt, eins og staðan er í dag, er að ganga frá náttúrunni, og það kallar á breytingar. Ekki aðeins á breytingar hjá okkur persónulega heldur á meiri samfélagslegri breytingar, aukinn jöfnuð og hófsemi. Þessi bók horfir til framtíðar og allar líkur á því að breytingarnar, sem hér eru boðaðar, séu það sem koma skal.

Höfundar: Fred Magdoff og John Bellamy Foster
Þýðandi: Þorvaldur Þorvaldsson

Fæst hér

Íslenskar þjóðsögur

– úrval

Í þessu úrvali hafa verið teknar saman allar okkar þekktustu og dáðustu þjóðsögur, sögurnar sem sum okkar kunna, eða finnst við eiga að kunna.
Sögur eins og Átján barna faðir í Álfheimum, Bjarna-Dísa, Fjalla-Eyvindur, Móðir mín í kví kví, og margar fleiri. Í lok hvers kafla koma upplýsingar um hvert sagan rekur uppruna sinn.
Textinn er aðgengilegur og ritmálið er fært til nútímans, svo flestir ættu að geta lesið þær, enda eru þjóðsögurnar okkar skemmtilegar og klassískt lesefni.

Höfundur: Íslenska þjóðin

Fæst hér

 

Þessi grein birtist í sumarblaðinu 2019

Smellið á myndina til að skoða sýnishorn úr blaðinu og/eða kaupa áskrift.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.