BORGARSÖGUSAFN REYKJAVÍKUR
Hefur þú farið í ferðalag um höfuðborgina og skoðað hvað hún hefur upp á margt spennandi að bjóða?
Undir hatti Borgarsögusafns í Reykjavík eru fimm sýningarstaðir, hver með sínu sniði. Þetta eru Árbæjarsafn, Landnámssýningin í Aðalstræti, Sjóminjasafnið, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Viðey. Að auki stendur Borgarsögusafnið fyrir fróðlegum sögugöngum allt árið um kring þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í sögu borgarinnar og sögulegir staðir skoðaðir.
Landnámssýningin
Landnámssýningin byggir á skálarúst, sem varðveitt er á sínum upprunalegum stað. Með túlkun á fornminjum er ljósi varpað á líf og tilveru fyrstu íbúa Reykjavíkur og tengsl þeirra við umhverfið í nýju landi. Efni Landnámssýningarinnar byggir á niðurstöðum fornleifarannsókna, efnistökin eru vísindaleg og kynna nýjustu túlkanir vísinda- og fræðimanna á þessu tímabili sögunnar. Á sýningunni er leiksvæði fyrir börn.
www.borgarsogusafn.is/landnamssyningin
Árbæjarsafn
Árbæjarsafn er safn gamalla húsa, sem flest hafa verið flutt á safnsvæðið úr miðbæ Reykjavíkur. Það gefur góða mynd af umhverfi og bæjarbrag í Reykjavík á 19. og 20. öld. Á Árbæjarsafni er fjöldi sýninga og viðburða, þar sem einstökum þáttum í sögu Reykjavíkur eru gerð skil. Þar má nefna afmælissýningu Nóa Síríus: Öldin hans Nóa, nýju Hafnarsmiðjuna og jóladagskrána í desember.
www.borgarsogusafn.is/arbaejarsafn
Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Safnið varðveitir um 5 milljónir ljósmynda sem teknar hafa verið af atvinnu- og áhugaljósmyndurum á tímabilinu um 1870 til 2002. Um 30 þúsund þeirra eru aðgengilegar á myndvef safnsins. Safnið stendur fyrir fjölbreyttum sýningum með áherslu á sögulega ljósmyndun sem og samtímaljósmyndun, í listrænu sem og menningarlegu samhengi. Aðalsýningin um þessar mundir er Fjarski og nánd. Íslensk samtímaljósmyndun.
www.borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur
Sjóminjasafnið í Reykjavík
Fiskur og fólk er grunnsýning safnsins, sem fjallar um fiskveiðar Íslendinga, frá því árabátarnir gömlu viku fyrir útgerð stórra skipa á síðustu áratugum 19. aldar og fram yfir aldamótin síðustu. Sagan er sögð frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur, með gripum og textum, myndum og leikjum. Aðalpersónan í þessari sögu er auðvitað fiskurinn! Honum er fylgt eftir úr hafinu í netið, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn. Mjaltastúlkan er sýning á neðri hæð safnsins um neðansjávarfornleifar. Við bryggju safnsins liggur hið fræga varðskip Óðinn en það er stærsti gripur safnsins.
www.borgarsogusafn.is/sjominjasafnid-i-reykjavik
Viðey
Viðey er ein helsta náttúruperla höfuðborgarinnar og merkur sögustaður. Eyjan var öldum saman talin ein besta bújörð landsins. Þar eru mannvistarleifar allt frá landnámstíð, en einnig minjar um klaustur á 13. öld. Í Viðey standa ein elstu hús landsins, Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa frá tímum Skúla Magnússonar á 18. öld. Í Viðey er einnig að finna ein merkustu listaverk borgarinnar, þ.e. Áfanga Richard Serra og Friðarsúlu Yoko Ono.
www.borgarsogusafn.is/videy
Hér má sjá kort af miðbæ Reykjavíkur og græna handvalda staði sem stuðla að betri upplifun, sjálfbærni og gleði.