Bragðmikið dal

UPPSKRIFT Berglind Guðmundsdóttir

Ég ákvað nýlega að elda meira úr baunum og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég hef galdrað fram marga dásamlega grænmetisrétti og notið þess í botn. Baunir eru ódýrar og meinhollar og ég skil ekkert í mér að hafa ekki verið duglegri að elda þær alla tíð. Baunarétturinn dal er hversdagslegur grænmetisréttur, ættaður frá Indlandi. Dal kemur í hinum ýmsu útgáfum en samanstendur yfirleitt af linsubaunum, hvítlauk og grænmeti. Okkar leyndarmál er að bæta við jalapeño.

Bragðmikið dal 

Fyrir 4
Tími: 45 mín

Hráefni:
2 msk ólívuolía
1 tsk sinnepsfræ
2 laukar, saxaðir
2 msk engifer, rifið
2–3 jalapeño-piparbelgir, fræhreinsaðir og saxaðir smátt
4–6 hvítlauksrif, pressuð
1 msk kóríanderkrydd
½ tsk túrmerik
1 msk kummin (ath. ekki kúmen)
4 tómatar, saxaðir
240 ml vatn
200 g rauðar linsubaunir
sjávarsalt
ferskt kóríander, saxað

Aðferð:
Hitið olíu á pönnu. Steikið sinnepsfræ í hálfa mínútu. Bætið lauk, engifer, jalapeño og hvítlauk út á pönnuna. Steikið þar til laukurinn fær á sig gylltan lit. Setjið kóríanderkrydd, túrmerik og kummin út á pönnuna. Bætið tómötunum saman við. Steikið þar til tómatarnir eru farnir að linast. Bætið vatni og linsubaunum saman við og látið malla í 15–20 mínútur eða þar til linsubaunirnar eru farnar að mýkjast. Saltið og hrærið vel í blöndunni. Takið af hitanum og stráið fersku kóríander yfir. 

Veturinn 2018 kom út matreiðslubókin Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur, sem hefur haldið út samnefndu matarbloggi um árabil og notið mikilla vinsælda. Matreiðslubókin inniheldur framandi og fjölbreyttar uppskriftir sem eru jafnframt einfaldar, og gera því öllum kleift að vera meistarar í eldhúsinu. Nú er tilvalið að skipta um gír og elda meira af léttari mat. Þetta dal með fetaosti og furuhnetum úr bókinni mun án efa gleðja bragðlaukana.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2018.