Eggaldin með geitaosti, valhnetum og hunangi

UPPSKRIFT Berglind Guðmundsdóttir  

Eggaldin vaxa á runnum sem eru yfirleitt um 50–70 cm háir en geta þó vaxið yfir tvo metra! Uppruna þeirra má rekja til Indlands en þau náðu snemma útbreiðslu og eru mikið notuð til matargerðar á Miðjarðarhafssvæðinu. Eggaldin hentar sérstaklega vel í ofninn eða á grillið. Gott er að láta það liggja niðurskorið í salti í smástund áður en matreiðslan hefst til að ná úr því sem mestum vökva. Þá verður það stökkt og safaríkt í senn. Ofnbakað eggaldin með geitaosti, valhnetum og hunangi passar vel saman og þessi himneski forréttur getur ekki klikkað.

Eggaldin með geitaosti, valhnetum og hunangi

Fyrir 3–4 Tími: 45 mín.

Hráefni
1 stórt eggaldin
200 g geitaostur
ólívuolía
100 g valhnetur
hunang
2 hvítlauksrif, pressuð
timjan
chili-flögur
salt og pipar

Aðferð
Skerið eggaldinið niður í sneiðar. Saltið báðum megin. Leggið á eldhúspappír og látið standa í 15–20 mínútur. Skolið saltið síðan af og þerrið. Setjið smjörpappír á ofnplötu og raðið eggaldinsneiðunum þar á. Penslið sneiðarnar með ólívuolíu. Eldið í 180°C heitum ofni í 5 mínútur á hvorri hlið. Skerið geitaostinn niður í sneiðar. Leggið hann á eggaldinsneiðarnar. Stráið söxuðum valhnetum, hvítlauk, timjan, chili-flögum, salti og pipar yfir. Dreypið á þetta dálitlu hunangi og setjið inn í ofn í 15 mínútur.

Veturinn 2018 kom út matreiðslubókin Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur, sem hefur haldið út samnefndu matarbloggi um árabil og notið mikilla vinsælda. Matreiðslubókin inniheldur framandi og fjölbreyttar uppskriftir sem eru jafnframt einfaldar, og gera því öllum kleift að vera meistarar í eldhúsinu. Nú er tilvalið að skipta um gír og elda meira af léttari mat. Þetta eggaldin með geitaosti, valhnetum og hunangi úr bókinni mun án efa gleðja bragðlaukana.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2018.