Skyrkaka með rúgbrauðskurli

UPPSKRIFT Berglind Guðmundsdóttir

Eftirréttirnir verða ekki mikið þjóðlegri en þessi: Skyr og rúgbrauð, gerið svo vel! Hér er á ferðinni virkilega góður eftirréttur, skyrkaka með rúgbrauðskurli, sem má einnig borða í morgunmat á góðum degi.

Hráefni:
4 rúgbrauðssneiðar
40 g möndlur
500 g skyr
1 vanillustöng
2 tsk hlynsíróp
4 tsk sykur
10 fersk jarðarber
fersk myntublöð

Aðferð:
Saxið möndlurnar gróflega og myljið rúgbrauðið. Blandið saman og þurrristið á pönnu í 5 mínútur. Hellið í skál og blandið sykri saman við. Skerið vanillustöngina í tvennt langsum, skafið fræin úr og fleygið hýðinu. Blandið vanillunni saman við skyrið ásamt hlynsírópi og hrærið vel saman. Hellið skyrblöndunni í 4 glös og stráið rúgbrauðs- og möndlukurlinu yfir. Skerið jarðarberin niður og skreytið með þeim og ferskri myntu.

Veturinn 2018 kom út matreiðslubókin Gulur, rauður, grænn og salt eftir Berglindi Guðmundsdóttur, sem hefur haldið út samnefndu matarbloggi um árabil og notið mikilla vinsælda. Matreiðslubókin inniheldur framandi og fjölbreyttar uppskriftir sem eru jafnframt einfaldar, og gera því öllum kleift að vera meistarar í eldhúsinu. Nú er tilvalið að skipta um gír og elda meira af léttari mat. Þessi skyrkaka með rúgbrauðskurli úr bókinni mun án efa gleðja bragðlaukana.

Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum betur – í boði náttúrunnar 2018.