Bjart og litríkt ár framundan

Elísabet Brynhildardóttir útskrifaðist frá University College for the Creative Arts 2007 með BA í illustrations. Þremur árum síðar eða 2010 teiknaði hún sína fyrstu teikningu fyrir tímaritið Í boði náttúrunnar. Það var íslandskort þar sem við kortlögðum góð matarstopp um landið. Þetta varð upphafið að HandPicked kortunum okkar sem eru fjögur í dag og einnig upphafið að löngu og farsælu samstarfi og verkefnum fyrir tímaritið. Hún hefur verið með teikningar í nánast öllum blöðunum okkar ásamt því að hafa tekið þátt í margvíslegum hliðar verkefnum.

Elísabet er einnig virk í myndlistarsenunni og hefur frá útskrift tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og myndlistartengdu starfi. Verk hennar hafa verið sýnd í Kling & Bang, i8 Gallery, Listasafni Akureyrar og Verksmiðjunni á Hjalteyri. Í verkum sínum vinnur hún bæði með teikninguna, innsetningar og hugmyndir.

Við hjá Í boði náttúrunnar erum afar þakklát fyrir langt og gott samstarf og erum stolt að kynna Elísabetu sem myndskreytara dagatalsins 2021, sem er sjötta árið sem ÍBN gefur út veggdagatal.

Hver er hugmyndin á bak við myndskreytinguna á 2021 dagatalinu? 
Þegar ég settist við teikniborðið fannst mér þetta ár hafa verið svo svakalegt að ég gæti ekki horft framhjá því og yrði að tækla það einhvernveginn án þess að öskra: fordæmalausir tímar! Skömmu seinna poppaði upp í hausinn á mér þessi fleyga setning “When life serves you lemons – you make lemonade” setning sem amma hennar Beyonce les einmitt upp á plötu Beyonce: Lemonade. Og þarna byrjaði það með blessun frá popp drottningunni og ömmu hennar. Ég vildi einnig hafa dagatalið bjart og litríkt og fullt af leikgleði því mér finnst við eiga það skilið eftir 2020.

Hvernig vannst þú dagatalið?
Ég er voða gamaldags í minni teiknivinnu, nota mest vatnsliti og blýant. Í myndskreytinguna á dagatalinu nota ég fyrst og fremst vatnsliti og svo handskrifa ég mánuðina með penna. Þegar ég er búin að gera teikningarnar þá skanna ég þær inn og klára lokavinnsluna í tölvu.

Hvernig skipuleggur þú árið sem er framundan? 
Ég er í eðli mínu óskipulögð og á erfitt með að skipuleggja langt fram í tímann. En ég reyni og verð eflaust aðeins betri með hverju árinu. Myndlistarverkefnin mín hafa mest áhrif á hvernig árið lítur út hjá mér ásamt skóladagatali sonar míns sem býr til ákveðinn takt og rútínu. Þetta ár sem er að líða var auðvitað ólíkt öllum öðrum árum, en ég verð að segja að það var líka gott að við vorum öll föst á klakanum, það gaf lífinu ákveðna festu.

Hvernig ætlar þú að nota dagatalið?
Það er alltaf ákveðin forgangsröðun þegar kemur að svona árs-dagatölum. Það fyrsta sem fer inn er að sjálfsögðu afmælisdagar fjölskyldunnar, svo sumarfrí og vetrarfrí ásamt myndlistarverkefnunum mínum. En ég held að nýjunginn þetta árið gæti verið “bóluefni komið til landsins” dagurinn sem okkur hlakkar mest til!

Vefur Elísabetar www.elisabetb.com/
INSTAGRAM elisabet_brynhildardottir

DAGATALIÐ 2021 er prentað á gæðapappír í umhverfisvottaðri prentsmiðju á Íslandi.
STÆRÐIR: 50 x 40 cm og 125 x 100 cm
VERÐ: frá 2.900 kr. 

Hér er hægt að kaupa DAGATALIÐ 2021