Dagsferðir frá Reykjavík

Dagsferðir frá Reykjavík bjóða upp á tækifæri til að upplifa náttúruna og ýmis ævintýri og maður endar aftur heima í koti að kvöldi. Við tókum saman fjórar ólíkar dagsferðir sem hægt er að fara í sumar, hvort sem er með vinum eða fjölskyldu. Næsta mánuðinn munum við stinga upp á einni slíkri ferð vikulega sem er svo hægt að skella sér í um helgar. Hér er sú fyrsta en í henni ferðumst við um Krísuvíkur svæðið og Suðurland á nýjan hátt eins og túristar sem vilja sjá, borða og gera eitthvað einstakt!

TÚRISTAFERÐIN – 156 KM

Á þessari hringleið er að finna hveri, kirkjur og ótrúlegt landslag.

Leiðin: Beygt til vinstri út af Reykjanesbrautinni rétt áður en komið er að álverinu í Straumsvík, Krísuvíkurafleggjarann. Vegur 5 ekinn þó nokkurn spöl og eftir að ekið er fram hjá Kleifarvatni er tekin beygja í átt að Þorlákshöfn á veg 427. Frá Þorlákshöfn er ekið til Eyrarbakka og þaðan á Selfoss og svo til Hveragerðis. Loks er keyrt aftur heim til Reykjavíkur á þjóðvegi 1.

Taka með: sundföt, gönguskó, hlýja úlpu, myndavél og HANDPICKED ICELAND kortin.

HUGMYNDIR AÐ STOPPUM

       Kleifarvatn – fallegt og djúpt vatn þar sem hægt er að veiða og mögulega sjá skrímslið sem þar býr!

       Háhitasvæðin Seltúni – fallegar gönguleiðir milli hveranna.

       Strandarkirkjaþykir launa áheit vel.

       Hendur í höfn – yndislegt kaffihús við Unubakka í Þorlákshöfn.

       Sundlaugin í Þorlákshöfn – nýleg sundlaug; rennibrautir, gufa o.fl.

       Rauða húsið – frábær matseðill, mælum með humrinum.

       Laugabúð Eyrarbakka – mælum með Sínalcó með lakkrísröri og krembrauði í þessari sögulegu búð.

       Listasafn Árnesinga í Hveragerði – alltaf flottar sýningar í gangi

       Litla kaffistofan – stemmari að stoppa í þessari einstöku vegasjoppu og fá sér kaffi og kleinu á leiðinni heim.

GÓÐA FERÐ!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *