Ferðast um Vesturland

Vesturland

VESTURLAND

Hérna er frægasti jökullinn, lengsti hraunhellirinn, mest myndaða fjallið og stærsti vatnshverinn. Á svæðinu eru einnig margir af betri veitingastöðum landsins, frábær söfn, sundlaugar og verslanir.

Kort af vesturlandi

LEIÐAVÍSIR UM VESTURLAND
GRÆNIR HANDVALDIR STAÐIR SEM STUÐLA AÐ BETRI UPPLIFUN, SJÁLFBÆRNI OG GLEÐI! 

Hraunfossar í Borgarfirði eru ein fallegasta náttúruperlan á Vesturlandi.

NÁTTÚRA

GLYMUR
Upp að næsthæsta fossi Íslands er skemmtileg og mátulega krefjandi tveggja til þriggja tíma ganga frá vegi 47. Fyrir ofan fossinn er hægt að vaða yfir ána og fara niður hinum megin. Sjá kort

HRAUNFOSSAR
Töfrandi og hvítfyssandi fossar, sem renna undan gróðursælu Hallmundarhrauni og falla í Hvítá eftir að ekið er eftir vegi 518. Litlu ofar er Barnafoss í stórbrotnu gljúfri. Sjá kort

PARADÍSARLAUT
Lítil paradís í miðju hrauni blasir við eftir stuttan göngutúr frá bílastæðinu. Köld tjörn til að dýfa tánum ofan í og upplagt að taka upp nestið. Litlu ofar er fossinn Glanni. Sjá kort

GERÐUBERG
Langur og mikilfenglegur stuðlabergsveggur úr grágrýti, sem er allt að 14 metra hár þar sem hann er hæstur. Undir berginu er gömul rétt þar sem tilvalið er að snæða nesti í skjóli en vegur 54 liggur að þessum slóðum. Sjá kort

BÚÐIR
Náttúrufegurðin í kringum Hótel Búðir er heillandi en þangað er ekið eftir vegi 54 eða 574. Á svæðinu eru ótal gönguleiðir og notalegt að ganga berfætt/ur í hvíta sandinum með gróðursælt hraunið og fjöllin allt í kring. Sjá kort

RAUÐFELDSGJÁ
Gjáin klýfur Botnsfjall frá brún að rótum þess og inn í hana liggur stígur, sem leiðir ferðalanga í dimman ævintýraheim þar sem fuglar ráða ríkjum. Í botni gjárinnar steypist foss niður háan klettavegginn. Sjá kort

HELLNAR
Margbreytilegar bergmyndanir einkenna fjöruna þar sem fjöldi sjófugla ræður ríkjum. Þekktastar eru steinboginn Baðstofan, Gataklettur og Valasnös. Frá Hellnum er hægt að ganga að Arnarstapa eftir gamalli, fallegri reiðleið. Sjá kort

LÓNDRANGAR
Náttúrulegur klettakastali, sem rís hátt yfir flæðarmálinu, en þangað liggur vegur 574. Klettadrangarnir mynduðust við eldgos úti í hafi við lok ísaldar en síðari tíma hraun hafa svo tengt þá við landið. Sjá kort

DJÚPALÓNSSANDUR OG DRITVÍK
Eftir stutta göngu frá bílastæðinu við veg 572 blasir við svört fjaran, umlukin hraunklettum. Áður voru stundaðir sjóróðrar þaðan og aflraunasteinarnir fjórir í fjörunni voru notaðir til að kanna hvort sjómenn byggju yfir nægilegum styrk til að róa eður ei. Sjá kort

KIRKJUFELL
Eitt myndrænasta fjall Íslands og helsta kennileiti Grundarfjarðar. Brött 1,5–2 tíma gönguleið er upp á fjallstoppinn þar sem magnað útsýni er til allra átta. Sjá kort

Norska húsið í Stykkishólmi

MENNING OG AFÞREYING

LÝSUHÓLSLAUG
Í sundlauginni er náttúrulegt heitt ölkelduvatn beint úr jörðinni, sem talið er hafa heilnæma og græðandi eiginleika. Vatnið er mjög steinefnaríkt og er því grænleitt, óvenjulegt og alveg eins og við viljum hafa það. 
Lýsuhóli, Snæfellsbæ Sjá kort
433 9917 / Facebook

LÁKI SAILING TOURS
Fátt toppar kvöldsiglingu um Breiðafjörðinn á fögru sumarkvöldi, þar sem hægt er að skoða hvali og fuglalífið og jafnvel renna fyrir fisk. Láki Tours er fjölskyldufyrirtæki, sem sérhæfir sig í siglingum um Breiðafjörðinn.
Nesvegi 6, Grundarfirði Sjá kort
546 6808 / lakitours.com

VATNASAFNIÐ
Einstakt safn með 24 glersúlum, fylltum af vatni, sem safnað var úr ís úr mörgum af helstu jöklum Íslands. Þetta er langtímaverkefni, skapað af Roni Horn í fallegu húsnæði með útsýni yfir hafið. 
Bókhlöðustíg 19, Stykkishólmi Sjá kort
865 4516 / stykkisholmur.is

NORSKA HÚSIÐ
Fyrsta tvílyfta íbúðahús á Íslandi, byggt 1832 úr timbri frá Noregi. Hér upplifir þú heimili frá 19. öld ásamt opinni safnageymslu með munum frá öllu Snæfellsnesi. Safnbúðin er í fallegum krambúðarstíl.
Hafnargötu 5, Stykkishólmi Sjá kort
433 8114 /
stykkisholmur.is

Hótel Búðir á Snæfellsnesi er eitt fallegasta sveitahótel á Íslandi.

VEITINGAR 

LANDNÁMSSETUR ÍSLANDS
Í einu elsta húsi Borgarness er notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður þar sem hollustan og ferskleikinn eru í fyrirrúmi. Passað er upp á að svangir ferðalangar fái nóg að borða og hlaðborðið klikkar ekki, enda allir réttir gerðir frá grunni.
Brákarbraut 13–15, Borgarnesi Sjá kort 
437 1600 / landnam.is

KAFFI KYRRÐ
Kyrrð er svo sannarlega réttnefni. Kyrrlátt og kósý kaffihús og gjafavöruverslun með notalegum sófum og yndislegri hönnun. Í boði eru léttar veitingar og úrval af sætabrauði og frábæru kaffi. Þegar veðrið er gott er hægt að sitja úti á verönd í ilmandi blómahafi. 
Skúlagata 13, Borgarnesi Sjá kort 
437 1878  / blomasetrid.is

LANGAHOLT HOTEL
Fjölskyldurekið sveitahótel sem býður upp á metnaðarfullan à la carte matseðil og stórkostlegt útsýni yfir Snæfellsjökull. Aðaláhersla er á staðbundið hráefni og þá helst sjávarfang sem ákvarðast af því hvaða tegundir berast að að landi hverju sinni. Brauð, sultur og álegg er heimagert. Sama má segja um súpur, sósur og eftirrétti.
Ytri Garðar Sjá kort 
435 6789 / langaholt.is

HÓTEL BÚÐIR
Umhverfið og maturinn er eitt helsta aðdráttarafl staðarins, enda lofaður fyrir einstaka fiskrétti og lambakjötsrétti, óviðjafnanlega forrétti og ógleymanlega eftirrétti. Ferskt hráefni úr nágrenninu er uppistaðan á matseðlinum.
Búðum, Snæfellsnesi Sjá kort
435 6700 /
hotelbudir.is

FJÖRUHÚSIÐ
Einstakar veitingar framreiddar á syllu við stórgrýtta klettafjöru þar sem brimið lemur gamla bryggju. Á matseðlinum er lostæti sem engan svíkur, s.s. fiskisúpa, heimabakað brauð, kökur og vöfflur með rjóma.
Hellnum, Snæfellsnes Sjá kort
453 6844 /
fjoruhusid.is

VIÐVÍK
Í fallegu húsi við sjóinn með stórkostlegu útsýni til Snæfellsjökuls er glæsilegur hágæða veitingastaður með frábærum mat og þjónustu. Viðvík er fjölskyldurekinn og notar nær eingöngu hráefni úr nærliggjandi umhverfi t.d. sjávarfang úr sjónum í kring. 
Hellissandi, Snæfellsnesi Sjá kort
436 1026 / Facebook 

BJARGARSTEINN
Við sjávarkampinn á Grundarfirði er þetta fallega uppgerða hús, sem er meira en 100 ára gamalt, en hýsir nú framúrskarandi veitingastað. Láttu dekra við bragðlaukana um leið og þú nýtur útsýnisins yfir Kirkjufell. 
Sólvöllum 15, Grundarfirði Sjá kort 
438 6770 /
bjargarsteinn.is

NARFEYRARSTOFA
Miðsvæðis í Stykkishólmi er elsta veitingahús bæjarins. Hlýlegur, fjölskyldurekinn veitingastaður með frumlegum sælkeraréttum úr hráefni nærumhverfisins, t.d. fersku sjávarfangi úr Breiðafirðinum. Pönnusteikti þorskhnakkinn hefur verið í uppáhaldi bæjarbúa í yfir 20 ár. 
Aðalgata 3, Stykkishólmi Sjá kort
533 1119 / narfeyrarstofa.is

BLÓMALINDIN – KAFFIHORN
Staldraðu við hjá Bogu blómaskreyti og bragðaðu á léttum veitingum á meðan hún miðlar sögum af svæðinu umvafin ilmandi blómum og list heimamanna sem er til sölu á staðnum. Hráefnið er beint frá býli og í boði er það sem fæst hverju sinni úr sveitunum í kring.
Vesturbraut 12a, Búðardal Sjá kort
434 1606 / blomalindin.is

VÍNLANDSSETUR
Í hlýlegu og smekklega uppgerðu pakkhúsi í hjarta Búðardals er einstakt veitingahús og töfrandi sýning undir sama þaki. Lærðu um landafundi Eiríks rauða og Leifs heppna á Grænlandi og Norður Ameríku á efri hæðinni og njóttu dýrindis veitinga að sýningu lokinni á neðri hæðinni. Við mælum með næringarríkri súpu með nýbökuðu brauði eða girnilegri köku með góðu kaffi eða heitu súkkulaði.
Búðarbraut 1, Búðardal Sjá kort
434 1441 / vinlandssetur.is

HÓTEL FLATEY
Veitingastaðurinn er í nýuppgerðu samkomuhúsinu með útsýni yfir þorpið og sjóinn. Á matseðlinum er ferskt sjávarfang úr firðinum t.d. nýveiddur kræklingur og fiskisúpa en einnig lambakjöt. Eftir matinn er tilvalið að skella sér á Saltbarinn og prófa Flatjito.
Flatey, Breiðafjörður Sjá kort
555 7788 / hotelflatey.is

Rjómabúið Erpsstaðir við Búðardal selur heimagerðan rjómaís og skyr upp á gamla mátann.

VERSLUN Í HEIMABYGGР

ÚTGERÐIN
Heillandi hönnunarverslun þar sem er lögð áhersla á íslensk hönnunarmerki, t.d. FÓLK Reykjavík, Angan og Farmer’s Market í bland við sælkeravöru og vöru úr héraði. Útgerðin er í Pakkhúsinu, einu elsta húsi á Snæfellsnesi og tilvalið að heimsækja byggðasafnið á efri hæðunum í leiðinni. 
Ólafsbraut 12, 355 Ólafsvík Sjá kort
utgerdin.shop / Facebook

KRAMBÚÐ NORSKA HÚSSINS
Norska húsið er fyrsta innflutta tveggja hæða íbúðarhús á Íslandi, reist árið 1832. Húsið var reist fyrir Árna Ó. Thorlacius og fjölskyldu hans en þau ráku verslun á sama stað og Krambúðin er nú. Í Krambúðinni er fjölbreytt úrval af vönduðu handverki og  hönnun ásamt heimagerðu sælgæti. Í húsinu er einnig Byggðasafn. 
Hafnargötu 5, Stykkishólmi Sjá kort
433 8114 / norskahusid.is

RJÓMABÚIÐ ERPSSTAÐIR
Barnvænt fjölskyldubú þar sem m.a. er hægt að fá heimagerðan rjómaís, skyr upp á gamla mátann, skyrkonfekt og osta. Nú eða lífrænt lambakjöt frá nágrönnum þeirra á Ytri Fagradal.
Erpsstöðum, Búðardal (dreifbýli) Sjá kort
868 0357 / Facebook

GALLERÍ BARDÚSA OG VERSLUNARMINJASAFNIÐ
Í verslunarminjasafninu á Hvammstanga er varðveitt krambúð Sigurðar Davíðssonar sem starfaði frá 1920 til 1970. Þar má sjá innréttingar og fjölbreyttar vörur af lager verslunarinnar. Í safninu er gallerí Bardúsa sem býður vandaða hönnun og handverk eftir fólk af svæðinu t.d. handprjónaðar lopapeysur, kerti, skartgripi, keramík og minjagripi.
Strandgata 4, 530 Hvammstanga Sjá kort
845 0586 / Facebook

Guðlaug er heit laug í grjótgarðinum á Langasandi með stórkostlegu útsýni.

ANNAÐ

VÍNBÚÐIN 
Akranes, Kalmansvöllum 1
Borgarnes, Borgarbraut 58-60
Búðardalur, Vesturbraut 15

Tögg úr greininni
, , ,