Dekraðu við skynfærin

Þegar komið er heim eftir langa og erfiða vinnudaga getur stress auðveldlega loðað við okkur. Haustið er vel til þess fallið að búa til nýjar og góðar venjur.  Ein þeirra gæti verið að huga að því hvernig við komum heim, náum okkur niður og nýtum stundirnar heima til að endurnæra líkama og sál. 

BRAGÐSKYNIÐ

Eftir langa vinnudaga er gott að hjúfra sig í mjúkum sófanum með volgan drykk í hendi. Hvort sem það er róandi kamillute eða flóuð mjólk með hunangi sem verður fyrir valinu, er tilvalið að velja sér drykk með slakandi eiginleika og vanda sig við að njóta hvers sopa. Ef þú leyfir því að gerast, getur drykkurinn fært þig í núið með því einu að færa fókusinn á bragðið og veita því athygli á meðan þú drekkur. Njóttu þess að eiga stund fyrir þig og ekki spillir að hafa rólega tónlist með!

LYKTARSKYNIÐ

Ilmur getur fært okkur á milli staða á augnabliki, hraðar en nokkuð annað. Lyktarskynið sér til þess að vekja bæði minningar og fjölbreyttan tilfinningaskalann. Á haustin, þegar ilmur náttúrunnar fverður fábreyttari og við leitum meira inn, er ráð að skapa góða ilmstemningu heima við. Ilmur í formi reykelsis, krydds, ilmkerta, olíu og jurta getur bætt andlega líðan og er frábært hjálpartæki við að færa hugann úr vinnunni og heim. Að skapa svo sínar eigin hefðir, eins og að kveikja á ákveðnu reykelsi um leið og heim er komið eða að fara reglulega í bað með uppáhaldsilmolíunni, býr til heimili sem einstökum ilmi.

Screen Shot 2015-11-03 at 10.51.48 AM

 SNERTISKYNIÐ

Þegar komið er heim, inn úr kulda og myrkri er fátt betra en að skipta rakleiðis í mjúk og þægileg inniföt og smeygja sér í notalega inniskó. Á haustin á maður að taka fram teppin enda fátt notalegra en að vefja sig inn í hlýtt vaðmál og umkringja sig púðum, mjúkri áferð og taka sér jafnvel góða bók í hönd. Að skapa hlýleika heima við má einnig gera með fallegum mottum og teppum sem geta gert haustið og veturinn mun notalegri viðkomu.

TEXTI: Dagný Berglind Gísladóttir

Tögg úr greininni
, , , ,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.