Það er algengt að árstíðir virðast færast til. Einn daginn er vor í lofti og svo allt í einu, skyndilega kyngir niður alveg heilum helling af snjó! Í slíkum hitabreytingum er algengt að fólk taki til sín pestir sem taka á sig ólíkar myndir. Eldhúsapótekið heldur áfram en nú tökum við saman náttúruleg húsráð við eyrnabólgu og hita.
Eldhúsapótekið – Eyrnabólga og hiti
Eyrnabólga
Eyrnaverkur getur komið í kjölfar kvefs þar sem vökvi safnast í miðeyranu – innan við hljóðhimnu. Við þessar aðstæður eykst hætta á sýkingu. Mikilvægt er að ná vökvanum úr og lofti inn til að koma í veg fyrir að bakteríur nái að hreiðra um sig. Einnig er mikilvægt að vinna samtímis bug á nefrennsli eða kvefi þar sem upptökin koma oft frá sýkingu í nefi. Eyrnabólga læknast í flestum tilfellum á tveimur dögum en þegar verkurinn varir lengur en í tvo daga þá borgar sig að fara til læknis. Fyrir utan eldhús “remedíur” þá virka gömlu góðu joð droparnir sem hægt er að kaupa í apótekum líkt og sýklalyf og án allra aukaverkana.
HVÍTLAUKSOLÍA: Skerið hvítlaukinn smátt niður, setjið í litla skál og hellið vandaðri extra virgin ólífuolíu yfir. Gott að láta standa í c.a. klukkutíma. Setjið 2 – 3 dropa af hvítlauksolíunni inní veika eyrað. Liggið á hinni hliðinni í smá tíma eða á meðan olían er að renna inn. Olían mýkir upp hljóðhimnuna og dregur úr þrýstingi. Einnig má setja bara olíuna ef hvítlaukurinn er ekki til. Hvítlauksolíuna er einnig gott að setja í nefið þar sem upptök sýkingarinnar eiga sér oft stað og láta liggja í 5 mínútur.
LAUKBAKSTUR: Skerið hálfan lauk smátt niður og setjið hann inn í grisju, sokk eða þvottapoka. Gott er að kremja laukinn með því að berja hann með einhverju þungu og einnig má setja hann í heita gufu (gufusjóða) í 1 – 2 mín. til að losa enn betur um virku efnin í lauknum, hitinn hefur líka góð áhrif á verkinn. Leggið síðan baksturinn við eyrað. Gott er að nota hárband eða húfu til að halda lauknum við eyrað. Notið þangað til verkurinn hverfur. Gott er að skipta um á eins til tveggja tíma fresti eða eftir þörfum. Einnig er gott að sofa með baksturinn á eyranu..
HEITT VATN: Hitapoki, heitur þvottapoki eða plastflaska með heitu vatni sem vafin er inní viskustykki og lagður við eyrað getur minnkað þrýstinginn og dregið úr eyrnaverknum.
Hiti
Þegar við fáum hita þá er líkaminn að vinna á sýkingu hvort sem það er af völdum veirusýkingar eða bakteríu. Mikilvægt er að hann fái að klára það verkefni enda talið að við verðum heilbrigðari og með sterkara ónæmiskerfi á eftir. Þegar hitinn er komin í 38 gráður geta vírusar ekki fjölgað sér þannig að ef við lækkum hitann með þar til gerðum meðulum þá er hætta á því að við drögum veikindin á langinn. Það hjálpar að borða lítið og helst fljótandi fæðu ásamt því að drekka volga drykki. Mikilvægt er að sofa vel og mikið og ekki hylja húðina því út um hana fer mesti hitinn. Ef hitinn fer yfir 40 gráður þá þarf að fylgjast vel með sjúklingnum (vegna hitakrampa) og fara til læknis ef eldhúsapótekið virkar ekki.
SÍTRÓNA: Kaldir fætur gefa oft til kynna að hitinn sé að hækka. Mikilvægt er að draga hitann frá höfðinu og niður í fæturna. Kreistið hálfa sítrónu ofan í c.a. ½ lítra af heitu vatni. Dýfið bómullarsokkum ofan í og vindið. Farið í sokkana og ullarsokka yfir til að halda hita á fótunum. Sokkarnir virka sérstaklega vel fyrir börn en fullornir geta einnig farið í fótabað með sítrónu í staðinn.
EGGJAHVÍTA: Rennbleytið tvo vasaklúta (þvottapoka eða eldhúspappír) í eggjahvítu og leggið við iljarnar, farið í sokka eða vefjið með plasti til að halda rakanum sem lengst. Þegar eggjahvítan fer að storkna takið þá af og endurtakið þangað til hitinn fer að lækka.
EPLAEDIK: Látið renna í ilvolgt bað rétt til að hylja líkamann. Setjið 1 bolla af eplaediki útí og farið í stutt bað. Þetta á að hjálpa líkamanum að lækka hitann. Einnig er hægt að bleyta klúta uppúr volgri edikvatsblöndu og leggja á maga og enni.
KALT VATN: Bleytið stórt handklæði í köldu vatni og vefjið utan um ykkur (eða barnið), þar utanum er sett lak og að lokum teppi. Eftir c.a. 20 mínútur á líkaminn að ná jafnvægi á hitanum.
VOLGT VATN: Mikilvægt að drekka vel af volgu vatni (kalt vatn hækkar hita) einnig er kamillute gott og róandi.
Sjá einnig Eldhúsapótekið – Magakvillar
Þessi grein er úr vetrarblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2010
2 athugasemdir