Ertu alltaf að drífa þig?

Ert þú ein/nn af þeim sem ert alltaf að drífa þig?

Nútímasamfélög nærast á hraða, augnabliksánægjum, og að ná árangri á sem stystum tíma mögulega. Við högum okkur eins og við séum iðulega að renna út á tíma. Það er líkt og við höfum verið skilyrt að hugsa og hegða okkur á þennan máta, enda áberandi verðlaunað fyrir slíka hegðun af samfélaginu.

Kannski höfum við ekkert endilega velt þessu „drífa sig“ viðhorfi mikið fyrir okkur, því þetta er samfélagslega samþykkt viðhorf til daglegs lífs. Rannsóknir á skaðsemi streitu minna okkur reglulega á hversu lífsnauðsynlegt það er að vera meðvitaður um að slaka á og hægja á okkur en þrátt fyrir það yfirtekur „drífa sig“ viðhorfið okkar daglega munstur. Ég hef meiri segja tekið eftir því að ég er oftar en ekki að segja barninu mínu að „drífa sig“, jafnvel þegar við erum í sumarfríi eða vetrarfríi og það er nákvæmlega engin ástæða til þess að drífa sig; við höfum allan daginn til þess að reima skóna, klæða okkur og að skoða alla þá steina og rusl sem verða á vegi okkar þann daginn.

Við skulum ekki gleyma því að hugsanir okkar breytast í hegðun og hegðun okkar verður að lífinu sem við lifum. Af hverju ertu að drífa þig? Skoðaðu heildarmynd streitunnar í lífinu þínu, hver er rótin af þessari óþolinmæði? Er þetta ekki bara slæmur ávani eða liggur þetta „drífa sig“ viðhorf eitthvað dýpra?

Finnst þér þú iðjulega þurfa sanna þig fyrir öðrum? Er sjálfsmynd þín nátengd viðurkenningu frá öðrum?

JÁKVÆÐAR STAÐHÆFINGAR

Louise Hay trúir á mátt „affirmations“ eða jákvæðra staðhæfinga. Tilgangur þeirra er að heila hugsanir okkar sem hefur þær afleiðingar að hegðun okkar breytist og svo síðar meir lífið okkar. Hún vill meina að við getum heilað okkur sjálf með því að endurtaka nokkur orð á hverjum degi – jafnvel oft á dag. Mantran sem er allra mikilvægust að hennar mati er „Ég er nóg“. Hennar trú er sú að rótin af mörgum vandamálum sé að okkur finnist við ekki vera nóg, gera nóg, eiga nóg. Hún segir að það sé ástæðan fyrir því að við erum hlaupandi útum allan bæ leitandi að innri lífsfyllingu, að innst inni finnst okkur við ekki vera nóg punktur.

Jógafræðin nefna í þessu samhengi að blekkingin er að við höldum að innri lífsfyllingu sé að finna fyrir utan okkur í efnisheiminum, gjafir efnis – veraldlegar eigur staldra stutt við í okkar innri lífsfyllingu, þær gleðja svo sannarlega en hverju eru við að fórna fyrir þessar yndislegu efnislegu gjafir sem veita okkur skammvinna ánægju.

Veltum þessu fyrir okkur og skoðum hvort það sé þörf á því að vera stanslaust að drífa sig.


Sunna

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.