Fallegur krans beint úr náttúrunni

TEXTI Dagný Gísladóttir & Hlín Eyrún Sveinsdóttir MYNDIR Jón Árnason

Á haustin eru litasamsetningar náttúrunnar betri en nokkurt manngert málverk. Þetta er svo sannarlega árstíminn til að nýta náttúruna til skreytinga á heimilinu. Það er bæði afslappandi og skapandi verkefni að búa til skreytingar eftir eigin höfði. Fáðu þér göngutúr, líttu í kringum þig og skoðaðu hvað náttúran býður þér upp á. Taktu með þér klippur og körfu og safnaðu því saman sem grípur augað. Mundu þó að rífa ekki plöntur upp heldur klippa svo að það sjáist ekki á náttúrunni. Við fengum Hlín Eyrúnu Sveinsdóttur blómaskreyti til þess að sýna okkur hvernig hún býr til haustkrans úr skrúðgarði náttúrunnar.

Haustkransinn

Taktu með þér klippur og körfu og safnaðu því saman sem grípur augað. Mundu þó að rífa ekki plöntur upp heldur klippa svo að það sjáist ekki á náttúrunni. Við fengum Hlín Eyrúnu Sveinsdóttur blómaskreyti til þess að sýna okkur hvernig hún býr til haustkrans úr skrúðgarði náttúrunnar.

Ég nota alltaf ferskt efni í skreytingar sem svo þorna með tímanum og því mikilvægt að vefja jurtirnar þétt á kransinn. 

Hlín Eyrún Sveinsdóttir blómaskreytir:

Ég nota náttúruna til skreytinga allt árið um kring. Það er mismunandi hvenær best er að taka hvaða jurt og núna er seinasti séns fyrir sumar þeirra eins og bláberjalyngið, það hrynur af því ef það er tínt mikið seinna. Lyngið er orðið niðurrignt og upplitað núna, en laufin eru æðisleg og best er að tína þau sem hafa fallið til jarðar. Ég nota alltaf ferskt efni í skreytingar sem svo þorna með tímanum og því mikilvægt að vefja jurtirnar þétt á kransinn. Það er ómögulegt að vinna með þurrkaðar jurtir í skreytingar, þær brotna bara og það hrynur af þeim. 

Í þennan krans nota ég beitilyng, bláberjalyng og elrirekla sem ég vef á hálmkrans og festi með vír og roma-nálum til skiptis. Hvort sem maður er að vinna kransa, vendi eða skreytingar þá er þetta helsta efnið sem ég nota á þessum árstíma. Ég vanda mig við að skipta á milli tegunda þegar ég festi efniviðinn á þannig að skilin verði ekki skörp í kransinum heldur blandist vel saman í fallegt flæði. Kransarnir eru tilvaldir til að hengja á hurðir, veggi, úti og inni, en einnig á bakka með kerti í miðjunni. Þeir endast lengi innandyra, alveg í nokkur ár, en ef þú hengir þá úti endast þeir fram að páskum.

Innihald:

Hálmkrans
Beitilyng
Bláberjalyng
Laufblöð
Elrireklar
Roma-nálar
vír

Þessi grein er úr haustblaði Lifum Betur – í boði náttúrunnar 2014

Tögg úr greininni
, , , , ,