Í þennan krans nota ég beitilyng, bláberjalyng og elrirekla sem ég vef á hálmkrans og festi með vír og roma-nálum til skiptis. Hvort sem maður er að vinna kransa, vendi eða skreytingar þá er þetta helsta efnið sem ég nota á þessum árstíma. Ég vanda mig við að skipta á milli tegunda þegar ég festi efniviðinn á þannig að skilin verði ekki skörp í kransinum heldur blandist vel saman í fallegt flæði. Kransarnir eru tilvaldir til að hengja á hurðir, veggi, úti og inni, en einnig á bakka með kerti í miðjunni. Þeir endast lengi innandyra, alveg í nokkur ár, en ef þú hengir þá úti endast þeir fram að páskum.