Feng Shui & veggskraut

Hvað ertu með í kringum þig? 

Ef þú ættir að lýsa því núna á stundinni nákvæmlega hvað þú ert með á veggjunum í íbúðinni þinni, gætir þú það? Gott og vel ef þú getur það – en getur þú nefnt hvort einhverjar þessara veggskreytinga eru þér síður kærar en aðrar? Ertu með eitthvað á veggjunum í kringum þig þar sem þú situr núna – eða annars staðar í íbúðinni – einhverjar myndir eða annað hangandi á veggjunum sem þú gætir alveg eins hugsað þér að fjarlægja, eitthvað sem þér þykir frekar ónotalegt en notalegt?

Samkvæmt fræðum Feng Shui þá fylgir ákveðin orka öllum hlutum. Í skammtafræðinni er jú talað um að allir hlutir, lifandi eða dauðir, séu misþétt orkubúnt. Allir hlutir eru ákveðinn orkumassi og allt í kringum okkur er orkuflæði sem fæst okkar sjá en margir þekkja og finna áhrifin af. Í dag skulum við velta því fyrir okkur hvort þú ættir að endurskoða eitthvað af því sem þú ert með á veggjunum hjá þér.

Forstofan

Gakktu í huganum í gegnum íbúðina þína. Byrjaðu á forstofunni. Hvað væri það fyrsta sem gestur myndi sjá á veggjunum þegar hann kæmi inn til þín? Er það eitthvað glaðlegt, mynd af þeim sem búa í íbúðinni eða mynd af stað sem þér er kær? Ef það er hreyfing á myndefninu, t.d. fuglar á flugi, þá ætti hreyfingin að vísa inn í íbúðina en alls ekki út úr henni. Þú vilt nefnilega fá tækifærin inn til þín.

Fjölskyldumynd í forstofu ætti að vera glaðleg og af öllum þeim sem eiga þarna heima. Það táknar að ef um „samsetta“ fjölskyldu er að ræða, t.d. ef barn úr fyrri sambúð á heima þarna aðra hverja helgi, þá á þetta barn líka að vera á myndinni. Myndin á helst að vera nýleg. Ljósmyndir af látnum ættingjum eða smábarnamyndir af börnunum sem eru löngu orðið fullorðin ættu að vera annars staðar.

Vel á minnst, ef mynd sem er beint á móti útidyrahurðinni er í ramma með gleri þá getur það haft sömu áhrif og ef þú værir með spegil beint á móti útidyrahurðinni. Spegilflöturinn eða glerið varpar þá orkuflæðinu sem annars er að koma inn í íbúðina, beint út aftur. Þá er ráðið að færa myndina smá til hliðar og nýta glerið sem spegilflöt til að draga til sín orkuflæðið að utan og varpa síðan orkuflæðinu úr ganginum og lengra inn í íbúðina.

Eldhús & Bað

Hvað er á veggjunum í eldhúsinu? Er allt fullt af myndum á ísskápnum? Hreinsaðu þá af honum, sérstaklega ef þú ert með myndir þar af börnunum þínum. Í eldhúsinu er bæði eldur og vatn, þar ert þú ýmist að brenna (elda mat) eða að hreinsa út – óhreinindin streyma niður niðurfallið þegar þú lætur vatnið renna í vaskinum. Þó svo að eldhúsið sé oft hjarta heimilisins og mjög brýnt að okkur líði þar mjög vel, þá er það ekki rétti staðurinn fyrir myndir af börnunun.
Hér má segja nær það sama varðandi baðherbergi, þú ættir ekki heldur að hafa myndir af börnunum þar. Á hvorugum staðnum viltu skola burt væntingunum um litríkan, ævintýralegan og hamingjuríkan feril barnsins þíns.

Svefnherbergið

Nú skulum við líta nær svefnherberginu þínu. Hvað er á veggjunum fyrir framan hjónaherbergið? Er það vetrarmynd, allt fullt af snjó? Er þarna drungaleg mynd í dökkum litum? Getur verið að þarna hangi mynd sem þér þykir alls ekkert falleg, en hún Sigga frænka gaf þér í brúðargjöf. Hafðu í huga að þú átt aðeins að vera með myndefni sem þér hugnast, myndir og veggskreytingar sem þér og maka þínum þykja notalegar og fallegar.

Stundum skiptir máli hvar myndin hangir. Þér þykir ef til vill verulega óþægilegt að hafa ákveðna mynd hangandi á einum stað – en á öðrum stað í íbúðinni þykir þér hún verulega fín. Þetta á sér meðal annars skýringar í Feng Shui tengdar því hvaða frumefni tengjast áttunum og því hvernig íbúðin þín snýr. Ertu til dæmis með stórglæsilegt málverk af vetrarhörku á vegg sem er í hásuður? Frumefnið í suðri er eldur – en hvað gerist ef þú hrúgar fullt af snjó á eldstæðið? Þá kulnar eldurinn nokkuð fljótt, er það ekki?

Svo lítum við inn í svefnherbergið. Hvað er þar á veggjunum? Hvað er á suðvestur vegghluta? Það svæði er almennt rómantíska svæðið í svefnherberginu óháð því hver býr í íbúðinni. Þar ættu að vera rómantískar myndir og gjarnan líka eitthvað í dökkbleiku (litur kærleikans).

Myndir af trúarlegum táknum eða myndir af börnum ættu að vera frammi, helst á austurvegg.

Stofan

Hvað með veggskreytingarnar í stofunni? Gefum okkur tíma til að staldra við hvern vegg um sig og skoða hvað þar er að finna. Hvaðan koma þessir hlutir? Hvaða tilfinningu fáum við gagnvart þeim? Ef þig langar t.d. að kynnast fleira fólki, þá er ekki gott að horfa mikið á myndir heima hjá sér af fólki sem er að ganga í burtu frá þér. Langar þig til að kynnast góðum lífsförunaut? Ertu með margar myndir af þér þar sem þú ert eini aðilinn á myndinni? Ef svo er, hvaða skilaboð ertu þá að senda þér um þig?

Ef þú hefur fengið veggskreytingar að gjöf frá fólki sem leið eða líður illa þá er gott ráð að „hreinsa“ allar erfiðar tilfinningar af hlutnum til að þú megir aðeins njóta þess góða. Hreinsunina getur þú meðal annars gert í gegnum hugleiðslu eða með Lavender reykelsi.

Við skulum láta hér staðar numið að sinni því þú hefur nú fengið mikilvægt verkefni sem getur teygst á langinn. Viltu breyta einhverju í lífi þínu? Breyttu þá líka einhverju í nánasta umhverfi þínu. Gerðu þér grein fyrir því að undirmeðvitund þín skynjar svo ansi margt annað en það sem þú ert að einblína á. Því geta hlutirnir í kringum þig haft heilmikil áhrif á líðan þína.

Tögg úr greininni
, , , , ,