Matthildur Þorláksdóttir, „heilpraktiker“ eða náttúrulæknir á íslensku, hefur ýmist verið kölluð „kraftaverkakona“ eða „leynivopn“ þeirra fjölmörgu einstaklinga sem hafa fengið lausn meina sinna með hennar aðstoð. Sjálf heldur hún sig á jörðinni og segir sig einfaldlega starfa eftir gamalreyndum leiðum náttúrulækninga. Í nýjasta tölublaði Í boði náttúrunnar fengum við innsýn inn í hennar starf og hvað það er sem er að hrjá flesta þá sem hana heimsækja.
„Ég er upphaflega menntuð sem þroskaþjálfi en hef alltaf haft áhuga á náttúrulegum meðferðum og efnum. Ég er fædd og uppalin út á landi í nánum tengslum við náttúruna og það hefur eflaust haft sín áhrif,“ segir Matthildur þegar hún er spurð um upphaf þess að hún fór að nema náttúrulækningar. „Um 1990 stóð ég á krossgötum og byrjaði þá að fara á ýmiss konar námskeið í þessum fræðum hérna heima, en reyndin varð sú að ég sat alltaf eftir með fleiri spurningar en svör.“
Matthildur fór í framhaldinu að kanna hvernig náttúrulækningum væri háttað á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu. „Þýskaland reyndist vera með yfirburði í þessum málaflokki en þeir löggiltu náttúrulækningar árið 1939,“ segir Matthildur. En árið 2000 voru skráðir 17.000 náttúrulæknar þar í landi og árið 2011, 35.000 og er talið að um 11,5 milljónir Þjóðverja leita reglulega til slíkra lækna á ári hverju.
NÁTTÚRULÆKNINGAR V.S LÆKNINGAR
Árið 1997 lá leið Matthildar til Hamborgar í Þýskalandi þar sem hún dvaldi næstu 4 árin og stundaði nám við náttúrulækningaskóla. Að honum loknum tók við hálfs árs starfsþjálfun. „Námið byggði á almennum greinum í læknisfræði, líffæra- lífeðlis- og sjúkdómafræðum, en allar meðferðaúrlausnir eru samkvæmt fræðum náttúrulækninga, þar sem lögð er áhersla á heildrænar úrlausnir. Námið tekur þrjú ár, en þar sem námsárið þarlendis er mun lengra, samsvarar það fimm ára námi á Íslandi, “segir Matthildur.
Ég er fædd og uppalin út á landi í nánum tengslum við náttúruna og það hefur eflaust haft sín áhrif
Kennsla í náttúrulegum fræðum innihélt meðal annars smáskammtalækningar (hómópatíu), meðferðir með jurtum, detox-meðferðir, ozon- og súrefnismeðferðir, lithimnugreiningu, tíðnimeðferðir, nálarstungur, margs konar nuddmeðferðir, eigin blóðmeðferðir, sem notaðar eru mikið í ofnæmismeðferðum og „neuraltherapie“ sem byggir á sprautumeðferðum í vefi og liði með smáskammtalyfjum, svo eitthvað sé nefnt. „Sumar þeirra meðferða sem ég lærði má ég ekki gera hér heima,“ segir Matthildur en bætir við að það séu skýr mörk á milli náttúrulækninga og hefðbundinna lækninga í Þýskalandi: „Er skólagöngu lýkur taka við tvö opinber próf á vegum þýskra heilbrigðisyfirvalda, annað skriflegt og hitt munnlegt, sem nemandinn verður að standast til að verða löggiltur náttúrulæknir með starfsleyfi. Enginn má taka sjálfstæða ákvörðun þar í landi um meðferð á annarri manneskju nema að hann sé læknir eða náttúrulæknir. Um náttúrulækningar gilda ákveðin lög og reglur, svo að náttúrulæknirinn er ekki í vafa hvert hans starfssvið er og hvar mörkin liggja. Náttúrulækningar hafa í aldaraðir þróast á eigin fræðum og rannsóknir og framfarir hafa verið gerðar á grundvelli þeirra. Alveg eins og allar aðrar fræðigreinar gera. Þær eru fræðigrein sem grundvallast á hefðum náttúrulækninga allra tíma, bæði í greiningu og meðferð, samkvæmt grundvallarreglum náttúrunnar og eðli hvers og eins.“
Matthildur segir einnig grundvallaratriði í náttúrulækningum vera heildrænan skilning á að maðurinn sé samsettur úr líkama, huga og tilfinningum og að við séum öll einstaklingar, að við séum ein og stök. „Eitt af aðalmarkmiðunum í þessu starfi er að vinna fyrirbyggjandi, taka á frumorsök vandans, en ekki ráðast að einkennum. Ábyrgur náttúrulæknir hvetur alltaf viðkomandi til að gera sitt og gerir honum fulla grein fyrir hans ábyrgð á heilsunni.“
OPNAR STOFU Á ÍSLANDI
Síðla árs 2000 kom Matthildur aftur heim til Íslands og opnaði stofu í ársbyrjun 2001. Þar býður hún upp á þær meðferðir sem byggja á náminu, en verður jafnframt að lúta því sem takmarkast við lög og reglur á Íslandi. „Hér má ég t.d. ekki nota sprautumeðferðir, sem ég annars mætti í Þýskalandi, ef viðkomandi væri skjólstæðingur minn þar.“ Matthildur segist þó ekki hafa fundið fyrir neinum fordómum þegar hún opnaði stofuna og viðtökurnar hafa verið góðar hjá almenningi og mikill áhugi fyrir náttúrulækningum allt frá byrjun. „Íslendingar eru almennt mjög opnir og jákvæðir fyrir mínu starfi,“ segir Matthildur og þegar hún er innt eftir aðferðum sínum segir hún þær vera miðaðar út frá sérstöku greiningartæki sem hefur verið notað í Þýskalandi síðastliðin 60 ár. „Í þróuninni fara þessi tæki í gegnum miklar prófanir og eru síðan skráð, vottuð og leyfð af heilbrigðisyfivöldum í Þýskalandi, sem ákveðin meðferðar- og greiningartæki í náttúrulækningum. Einn aðalhvatinn á bak við þróun þessara tækja, var að hópur lækna og náttúrulækna í Þýskalandi horfðust í augu við þá staðreynd að til þeirra leitaði fjöldi fólks á hverju ári, sem kvartaði undan vanlíðan, verkjum, þreytu, síendurteknum sýkingum, fjölmörgum einkennum óþols o.fl. En blóðprufur og aðrar rannsóknir leiddu ekkert í ljós,“ segir Matthildur. Á grundvelli þessa fannst náttúrulæknum vanta tæki sem mældu stafrænar truflanir. „Í þessu greiningartæki er verið að skanna líkamann út frá orkubrautum hans, samkvæmt austurlenskum fræðum. Orkubrautirnar mynda orkutengingar milli líffæra og líffærakerfa. Mælingarnar sýna svo hvar eða hvort það sé ójafnvægi í orkuflæðinu og hvað geti hugsanlega valdið því. Úrlausnir og meðferðir um hvað viðkomandi geti gert, eru svo unnar út frá niðurstöðum þessara mælinga.“
ALGENGIR LÍFSSTÍLSKVILLAR
„Fólk leitar til mín með ótal kvilla en margir koma líka án þess að nokkuð sé að, vilja bara fá heilsugreiningu byggða á niðurstöðum náttúrulækninga. Trúlega er þó mest um að fólk komi vegna meltingarvandkvæða, þreytu, orkuleysis og of mikil streita er líka alltof algeng. Svo er alltaf spurning hvar liggur rótin og hver eru afleiðingarferlin. Margir koma með margs kyns vandkvæði sem eru krónísk og hafa íþyngt þeim til margra ára, t.a.m gigt, exem, mígreni o.fl.,“ segir hún. En samkvæmt náttúrulækningum liggur rót vandans oft á öðrum stað en þar sem einkenni koma fram. „Tökum til dæmis síendurteknar kinnholusýkingar fyrir, orsök þeirra gæti verið bakflæði frá maga, gæti einnig verið trufluð þarmaflóra, en stór hluti af ónæmiskerfinu er í þörmum og heilbrigð þarmaflóra er mikilvæg í því sambandi. Rótin gæti því verið fæðuóþol, of mikið af slímmyndandi mat í fæðuvali, hún gæti einnig verið falin sýking í tönn, í sumum tilvikum er orsök spenna í kjálkalið og vöðvum þar í kring, og einnig gæti umhverfið verið orsakavaldur, eitthvað sem viðkomandi er að anda að sér sem veikir hann.“ En hvað er þá í stöðunni? „Ráðleggingar sem ég gef eru alltaf samkvæmt niðurstöðum úr orkumælingum úr viðeigandi greiningartæki, hvar liggja frávikin í orkuflæðinu.
Eitt af aðalmarkmiðunum í þessu starfi er að vinna fyrirbyggjandi, taka á frumorsök vandans, en ekki að ráðast að einkennum.
Þegar hún er spurð um hvað flestir ættu að reyna að bæta við lífsstíl sinn svarar hún: „Almennt má segja að öllum líði betur ef þeir draga úr þessu klassíska, þ.e hveiti, ger og sykur, sem er oft ofnotað í mataræði og reyni jafnframt að minnka streituna í lífi sínu.“
STÓRI SKAÐVALDURINN: STREITA
„Ég er þeirrar skoðunar að mataræði, streita og hreyfingarleysi hafi áhrif hvert á annað, en eftir 17 ára reynslu í starfi sem náttúrulæknir þá er streitan að mínu mati verst og af henni er nóg í vestrænum samfélögum. Þolmörk hvers og eins gagnvart streitu eru að sjálfsögðu mismunandi. En streita ógnar án vafa heilsu margra í dag,“ segir Matthildur alvarleg og segir streitu hafa ótal slæm áhrif. „Undir of mikilli streitu fer fólk t.d. oft að næra sig verr. Hreyfingin getur svo valdið auknu stressi vegna skorts á hvíld, þar sem fólk gengur oft á hvíldartíma sinn til þess að komast í hreyfingu og nærir sig ekki í samræmi við aukið álag. Undir langvarandi streitu bælist ónæmiskerfið og viðkomandi getur orðið pestsækinn. Maður sér líka að margir kvillar sem fólk þjáist af verða alltaf verri í streituástandi. Oft á tíðum eru líkamleg einkenni streitu meðhöndluð, s.s meltingartruflanir, kvíði o.fl. en ekki rótin sjálf, streitan.“
Þegar um of mikla streitu eða óunnin áföll er að ræða, segir Matthildur líkamann stöðugt vera að ræsa streitukerfi sitt og að svefn, sem er mikilvægur þáttur í heilbrigði okkar, verði þar af leiðandi ekki eins næringarríkur og viðkomandi vaknar þreyttur dag eftir dag. „Við svona kringumstæður eykst þörf fyrir svokallaða „uppers“ á morgnana, þ.e koffín og kolvetni og á móti fyrir „downers“ á kvöldin sem er oft í formi áfengra drykkja eða svefnlyfja. Svona ferli þarf að snúa við, og þá er alltaf best að leggja áherslu á streitulosun og í kjölfarið þarf að gera aðrar lífsstílsbreytingar eftir aðstæðum hvers og eins ásamt því að huga vel að bætiefnabúskap líkamans.“
BREYTINGAR TIL HINS BETRA
Matthildur segist bjartsýn og ánægð með þá vitundarvakningu sem hefur orðið um heilbrigðan lífsstíl á síðastliðnum árum og áhugavert að sjá hvað margir eru farnir að gera sér grein fyrir því hvað þeir geti gert fyrir heilsuna og almenna vellíðan. „Það er alveg ljóst að þegar kemur að þessum svokölluðu lífsstílssjúkdómum, þá getur maður gert mikið til að hjálpa líkamanum í viðgerð og uppbyggingu, með t.d. breyttu mataræði, hreyfingu og slökun. Það er enginn betri læknir en líkaminn sjálfur, sé kvillinn ekki of langt genginn. Það sem oft reynist viðkomandi erfitt er að festa góða siði í sessi. Þá er svo mikilvægt að hafa takmarkið í huga, af hverju við erum að leggja á okkur breytingar og gera það í sjálfskærleika, því öll eigum við skilið að líða sem best. Lífsstílsbreytingarnar byrja með hugarfarsbreytingu og innkaupum á hollri fæðu.“
Matthildur segir það gleðja sig jafnmikið í dag og það gerði fyrir 17 árum þegar þær upplýsingar og meðferðir sem hún gefur fólki koma að gagni og bæta líðan þess. „Ég hef alltaf haft nóg að gera og er mjög þakklát fyrir það. Ég veiti aðallega upplýsingar um hver geti hugsanlega verið rót vandans og býð svo upp á úrlausnir og meðferðir samkvæmt því, ef það er á mínu færi, en bendi annars á aðrar leiðir.“
GÓÐ HEILSA TIL FRAMTÍÐAR
Almennt er mikilvægt að efla fyrirbyggingu og heilsuforvarnir, sem hægt er að gera með ýmsum leiðum. „Það að vera ekki veikur þýðir ekki að maður sé heilbrigður. Hinn klassíski samanburður með líkamann og bílinn, sem fer í skoðun árlega, er í fullu gildi. En maður á bara einn líkama og þar er margt sem hægt er að fyrirbyggja. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hver og einn láti fylgjast vel með sér, bæði hjá lækni og náttúrulækni. Þessar greinar eiga að vinna saman með hag skjólstæðings í huga, eins og tíðkast í Þýskalandi.“
Í heimi þar sem nýjar leiðir og ráð til betri heilsu skjóta daglega upp kollinum, er eitthvað einfalt svar að betri heilsu? „Nei, svarið er kannski ekki einfalt og heldur ekki flókið. Ég myndi segja að sá sem tileinkar sér engar öfgar, nærir sig að mestu leyti á hreinni fæðu, drekkur hæfilegt magn af vatni, hreyfir sig reglulega, helst í útivist og jóga, hugar vel að hvíld og slökun, fær að öllu jöfnu næringarríkan svefn, er í góðum tilfinningasamböndum, er sáttur og ánægður í vinnu og ræktar með sér jákvæð viðhorf, væri að stuðla að eigin heilbrigði. Svo hafa umhverfi og erfðir alltaf sitt að segja.“
Að lokum spyr ég Matthildi út í framtíðina og hvernig hún helst myndi vilja sjá hana. „Ég er bjartsýn á framtíðina og held að þessi vitundarvakning, sem nú er við lýði, haldi áfram og verði vonandi stutt með góðri fræðslu og hvatningu um fyrirbyggjandi aðgerðir og ábyrgð hvers og eins á eigin heilsu, þar sem það er á okkar færi. Mér er einnig í mun að hvetja alla þá sem vilja vinna við náttúrulækningar að afla sér góðrar menntunar og þekkingar á því sviði, það er öllum til velfarnaðar.“
Fésbókarsíðu Náttúrulækningastofu Matthildar má finna HÉR
Texti: Dagný Berglind Gísladóttir ritstjóri Í boði náttúrunnar
Myndir: Guðbjörg Gissurardóttir
Ég hef verið haldinn þrálátum kláða með ruðaum flekkjum, ekki útbrotum, Allar læknisfræðilegar lækningar hafa engan árangur borið.